30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

20. mál, framhaldsnám hjúkrunarkvenna

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Um alllangt skeið hefur verið rætt um nauðsyn þess, að stofnað yrði til framhaldsnáms við háskólann fyrir hjúkrunarfólk. Fyrstu framkvæmdir í þessum efnum munu vera þær, að 6. nóv. 1970 skipaði þáv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, sérstaka n. til að skila áliti um þetta mál. Sú n. skilaði áliti á síðari hluta ársins 1971, og finnst mér rétt að lesa hér upp samandregnar niðurstöður nefndarinnar:

„1) N. hefur orðið sammála um, að mjög nauðsynlegt sé að koma á fót hjúkrunarmenntun á háskólastigi hérlendis, þar sem hjúkrun er sérgrein, sem krefst forustu háskólamenntaðra einstaklinga.

2) Starf lækna og annarra samstarfshópa hjúkrunarstéttarinnar er í grundvallaratriðum svo háð hæfni þeirra einstaklinga, er skipuleggja, stjórna og annast hjúkrunarstörf, að heilbrigðisþjónusta þjóðfélagsins hefur ekki til frambúðar efni á að vera án þeirrar háskólagreinar, er að hjúkrun lýtur.

3) Hjúkrunarstéttin er fyrst og fremst kvennastétt, og til muna örðugra reynist fyrir konur en karla að sækja háskólanám erlendis vegna fjölskylduástæðna.

4) Íslenskar hjúkrunarkonur hafa orðið að leita framhaldsmenntunar erlendis, en slíkt verður æ erfiðara með hverju árinu sökum þess, hversu aðsókn heimamanna viðkomandi landa fer vaxandi í þá skóla, sem einna helst hafa verið sóttir af Íslendingum. Auk þess eru kröfur um stúdentsmenntun eða hliðstæða menntun að verða æ algengari sem inntökuskilyrði, en slíkan grundvöll skortir mikinn meiri hluta íslenskrar hjúkrunarstéttar í dag.

5) Duglegasta námsfólkið, sem lýkur menntaskólanámi, leitar því miður hlutfallslega of lítið inn á svið hjúkrunar, og mikilvægt atriði í framtíðinni er því, að reynt verði að laða þessa aðila að hjúkrunarnámi með ráðum og dáð.

6) Sé þjóðarhagur hafður í huga, virðist hæpið að kosta stórfé til háskólamenntunar annarra stétta umfram þjóðarþörf, á sama tíma og Háskóla Íslands væri synjað um fjárveitingu til nauðsynlegrar hjúkrunarmenntunar“

Það hefur svo gerst í framhaldi af þessu, að á s. l. hausti var stofnuð námsbraut í hjúkrunarfræðum við Háskóla Íslands, og er það að sjálfsögðu nauðsynleg ráðstöfun út af fyrir sig. En á henni er sá galli, að hún er aðeins opin fyrir stúdenta. Hjúkrunarkonur og annað hjúkrunarfólk hefur þar ekki aðgang. Þess vegna beini og þeirri fsp. til hæstv. menntmrh.: „Hvaða ráðstafanir hafa verið fyrirhugaðar til að tryggja hjúkrunarkonum framhaldsnám við Háskóla Íslands?“