29.01.1974
Sameinað þing: 48. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1864 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

142. mál, kaup á hafskipabryggju á Eyri í Ingólfsfirði

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Við þm. Vesturl. flytjum allir litla till. til þál. á þskj. 131. Þessi till. er um að heimila samgrh. fyrir hönd ríkissjóðs að festa kaup á hafskipabryggju á Eyri í Ingólfsfirði, ef hún kynni að reynast fáanleg á sanngjörnu verði.

Það er kunnugt, að um 1920 var mikil síldargengd við Vestfirði, og þá risu upp síldarsöltunarstaðir, síldarverkunarstöðvar víðs vegar við Vestfirði, svo sem á Hesteyri í Jökulfjörðum og við Reykjarfjörð og Ingólfsfjörð á Ströndum. Þarna voru reist mikil mannvirki, síldarsöltunarplön og hafskipabryggjur og verksmiðjubyggingar veglegar og miklar, sem enn standa. Þessum hafnarmannvirkjum var vel haldið við, meðan síldargengdin var þarna við land, og einnig nokkurn tíma, eftir að síldarævintýrinu við Vestfirði lauk. En þegar þessi mannvirki höfðu ekki lengur því hlutverki að gegna, sem þau höfðu verið byggð til, var slegið slöku við viðhald þeirra, og sum þeirra eru nú að hruni komin og orðin eyðileggingunni að bráð. Þannig er það á Ingólfsfirði, að eignirnar þar eru mjög farnar að láta á sjá. Þó stendur hafskipabryggja á Eyri enn og er nothæf, en fái hún ekki viðhald á næstu árum, má búast við því, að hún hrynji líka og verði ónothæf. Þetta bryggjumannvirki er einasta hafskipabryggjan á allri hinni löng strandlengju í Strandasýslu frá Hólmavík og norður eftir byggðinni og hefur verið fyrst og fremst afgreiðslustaður Skipaútgerðar ríkisins fyrir strandferðaskipin og þannig verið mikils virði fyrir norðurhluta byggða í Strandasýslu. Auk hafskipabryggjunnar er þarna mikil og dýr hafnarvog og mikill húsakostur, sem vel er til þess fallinn, að þar séu geymdar vörur, sem fluttar væru til þessa byggðarlags alls með strandferðaskipunum.

Bryggjan er enn þá vel nothæf og allmikið mannvirki og hefur þessu hlutverki að gegna fyrir byggðirnar. En núverandi eigendur eru ekki skyldugir til og þess er ekki að vænta, að þeir leggi í mikinn kostnað til að halda bryggjunni við í þjónustu þeirri, sem hún er nú. Þar ætti engum að vera skyldara að hlaupa undir bagga en ríkinu sjálfu. Þess vegna er lagt til, að samgrh. verði heimilað að kaupa bryggjuna, hafskipabryggjuna á Ingólfsfirði, svo framarlega sem hún er fáanleg á sanngjörnu verði. Það væri að vísu hægt að leysa þetta mál á annan veg, byggja nýja bryggju á þessu svæði, en það mundi vafalaust kosta margfalt meira fé. Það er eins og við segjum í lok grg. okkar með þessari litlu till., að það er þó alltaf hægara að styðja en reisa.

Annar kosturinn væri sá að gera ekkert, en þá er afar hætt við því, að hægt væri að segja með sanni, að ríkisvaldið ræki á eftir fólksflóttanum suður um Strandasýslu, ef hafskipabryggja væri þar engin og strandferðaskipin hefðu enga möguleika til að koma þar við til að flytja afurðir frá fólkinu og neysluvörur til þess. Það vona ég, að verði ekki gert, heldur, ef mönnum sýnist ekki þarna um allgóða úrlausn að ræða, að tryggja tilvist þeirrar hafskipabryggju, sem þarna er, með því að ríkið eignist hana, þá verði að öðrum kosti að byggja þarna nýja hafskipabryggju, sem strandferðaskipin Hekla og Esja gætu fengið afgreiðslu við. En það yrði miklu dýrari kostur.

Ég legg til, herra forseti, að till. verði að umr. lokinni vísað til hv. samgn.