30.01.1974
Efri deild: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Það er auðheyrt, að hv. þm. Halldór Blöndal er kennari og búinn að fá alllanga þjálfun í því starfi, því að hann stendur gjarnan hér og yfirheyrir okkur, bæði ráðh. og aðra þm., eins og býsna harðvítugur kennari og ætlast til þess, að menn kunni nú aldeilis lexíurnar sínar. Það mætti æra óstöðugan, ef ég ætti að fara að svara öllum þeim spurningum, sem þessi hv. þm. hefur borið fram. Sumum er raunar nýbúið að svara hér á þingi. Það hafa verið bornar fram formlegar fsp., m.a um framgang sveitarafvæðingar og þær tafir, sem á því hafi orðið, þ.e. í Þistilfirði. Þessu var svarað hér á Alþ. skömmu fyrir jól, og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. geti mjög vel kynnt sér það af þskj. Það hafa orðið tafir vegna þess, að efnispantanir, sem gerðar voru, það dróst afhending á þeim. Það eru Rafmagnsveitur ríkisins, sem annast það verk, en ekki iðnrn., og er óþarfi fyrir hv. þm. að spyrja, hvað menu séu að gera í iðnrn., af hverju þeir panti ekki spenna. Það er ekki verkefni rn. að gera slíkt. Það gera þær stofnanir, sem falið er það verkefni, og Rafmagnsveitur ríkisins gerðu þetta. Hins vegar hefur dregist afgreiðsla á þessu, eins og oft vill verða og eins og hætt er við, að geti orðið í ríkara mæli núna, vegna skorts á ýmsu, sem þarf til framkvæmda, þannig að í því þarf áreiðanlega mun meiri fyrirhyggju en við höfum oft sýnt. Ég lýsti því yfir hér í þinginu, að mér þætti það mjög miður, hvað þessar framkvæmdir hefðu dregist, og við munum að sjálfsögðu leggja á það áherslu við þær stofnanir, sem undir rn. heyra, að að þessu verði unnið öfluglega.

Hv. þm. spurði, hvernig hugsunin væri að leysa orkuvandamál Norðlendinga. Nú ætla ég ekki að fara út í neinar sögulegar upprifjanir eða deilumál um orkuvandamál Norðlendinga. En ég minntist á það í síðustu ræðu, að þar hefðum við tekið við ákaflega erfiðu vandamáli.

Það var fyrirhugað, að aðalraforkuframkvæmdin á Norðurlandi yrði í Laxá, og var þar tekin ákvörðun um leyfi til virkjunar, eftir að fyrrv. ríkisstj. féll, án þess að búið væri að leysa þau vandamál, sem þeirri virkjun væri tengd. Ég skal ekkert vera að rifja upp, hvernig það mál hefur gengið, en sem betur fór tókst okkur að ná sáttum í því máli. Það mál hefur verið mjög kostnaðarsamt, og það er dæmi um það, hvernig ekki á að halda á framkvæmdum í þessu þjóðfélagi, ef við viljum reyna að tryggja, að menn geti staðið saman að gagnlegum verkefnum. Vandi Norðlendinga er sá, að þessi virkjun, sem fyrirhuguð var þarna, var ákaflega stór. Hún verður ekki svona stór. Það er ekki lagaheimild frá Alþ. fyrir meira en 12 MW virkjun, eins og kunnugt er ,enda þótt leyft væri að byrja framkvæmdir við virkjun, sem var miðuð við miklu stærra virkjunarstig. Það var ekki einu sinni haldið þannig á málum að tryggja heimild Alþ. til þess. Vandi Norðlendinga stafar að sjálfsögðu af þessu.

Önnur heimild, sem fyrir lá, var virkjun við Svartá. Það vita allir, að þar komu upp deilumál af svipuðu tagi. N., sem falið hafði verið að kanna, hvort hægt væri að ná samningum við landeigendur, greindi frá því, að svo væri ekki og við vitum ákaflega vel. að það voru þarna einstakir bændur, sem höfðu hug á því að fara í alveg sams konar hörkuandstöðu og bændur við Laxá, tryggja sér lögbannsheimildir og fleira þess háttar. Þarna er um að ræða umhverfisvandamál og náttúruvandamál, sem verður að taka tillit til. eins og þessi hv. þm. viðurkenndi, þannig að það þótti ekki ráðlegt að leggja í slíkt.

Ég tel alveg sjálfsagt, að það verði athugað gaumgæfilega, hvort ekki sé rétt að heimila Siglfirðingum að ráðast í virkjun Fljótaár, ef óskað er eftir því af hálfu bæjarstjórnar Siglufjarðar. Þar er hins vegar um mjög litla virkjun að ræða, 1.6 MW, að því er ég hygg, en það ætti að vera hægt að koma henni í gagnið, ef rösklega er að unnið, á einu ári eða svo. En þetta leysir ekki mikinn vanda, dregur svolítið úr dísilkeyrslu, en það er ekki hægt að tala um þetta sem neina frambúðarlausn á orkuvandamáli Norðlendinga. Skjótvirkasta leiðin til að koma einhverri umtalsverðri orku inn á þennan markað er sú samtenging Suður- og Norðurlands, sem hafist verður handa um nú á þessu ári og ég geri mér vonir um, að verði komin í gagnið á næsta ári. Með þessu móti kemst umtalsverð orka frá Suðurlandi inn á svæðið í flestum tilvíkum. Það er að vísu rétt, það tekst ekki að vetrarlagi, þegar kemur upp slíkt ástand eins og við kynntumst í vetur, þegar Búrfellsvirkjun nægði engan veginn fyrir markaðinn hér á Suðvesturlandi og varð að taka upp skömmtun gagnvart Álbræðslunni og Áburðarverksmiðjunni. Er augljóst mál. að í slíkum tilvikum leysir þetta ekki vandann, þá verða varastöðvar að grípa inn í til að brúa þetta bil. Það verður að byggja upp myndarlega varaaflstöð á Akureyri, og á henni þurfa Norðlendingar að halda. Hvort hún kemur árinu fyrr eða árinu seinna en raforkuöflun þarna, skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli. Sú vararafstöð, sem verið er að byggja þar upp og þarf að byggja þar upp, er stöð, sem verður að vera þar til frambúðar til öryggis. Hún verður að koma.

Í þriðja lagi liggur hér fyrir þetta frv. um 55 MW virkjun á Kröflusvæðinu, sem tryggir ákaflega mikla aukningu á orkuframleiðslunni fyrir norðan og gjörbreytir högum þess landsfjórðungs og raunar Austfjarða líka, þegar búið er að koma á þeirri samtengingu, sem er forsenda allra skynsamlegra aðgerða og allrar skynsamlegrar stefnu í orkumálum. Þangað til þessi mál leysast koma upp margvisleg erfið vandamál.

Það er staðreynd, að eftirspurn eftir raforku hefur aukist að miklum mun örar á síðustu árum en reiknað hefur verið með í raforkuspám. Það er verið að reikna með því í spám, að árleg aukning sé um 7%. Þetta er hins vegar mjög nátengt ástandinu í atvinnumálum og efnahagsmálum. Ég man eftir því, að í tíð fyrrv. stjórnar, þegar erfiðleikarnir í efnahagsmálum voru hvað mestir, datt þessi aukning niður í 1% á ári. Nú á síðustu árum hefur hún hins vegar rokið langt, langt upp fyrir þessi 7%. Aukningin hjá Rafmagnsveitum ríkisins á árinu 1972 var um 17%. Aukningin á Austfjörðum á síðasta ári var um 24%. Þegar skortur er á raforku, leiðir það að sjálfsögðu til vandkvæða. Það er erfitt að uppfylla allar óskir manna um húshitun og aðrar þarfir. Húshitunarmarkaðurinn á Íslandi er feiknalega stór. Ef ætti að fullnægja honum öllum, þarf virkjun, sem framleiddi um 1000 gwst. Sú virkjun er ekki tiltæk, og það þýðir ekkert að segja við mig, hvað ég ætli að gera til þess að tryggja, að allir, sem óska eftir raforku í hús sín, geti fengið raforku. Ég hef ekki önnur ráð til þess heldur en reyna að stuðla að því, að við flýtum virkjunarframkvæmdum eins og við erum menn til. Hitt er svo aftur vandamál. sem menn verða að velta fyrir sér af fullu raunsæi, hvernig á að bregðast við óskum um rafhitun húsa, þegar vitað er, að orkan frá vatnsaflsvirkjun muni koma eftir tiltölulega stuttan tíma. Þá tel ég, að það sé alveg einsætt, að semja beri við slíka húseigendur um það, að þeir taki upp rafhitun í húsum sínum, það verði að brúa bilið með því að selja þeim orku, þótt hún sé dýr í framleiðslu, m.a frá dísilstöðvum, til þess að búa þar í haginn fyrir væntanlegan markað. Þetta er matsatriði rafreiknanna á hverjum stað.

Ég tel, að það eigi að taka mið af þeim ásetningi okkar Íslendinga allra, núv. stjórnar og ég vona stjórnarandstöðunnar líka, að reyna að flýta þessum framkvæmdum eins og mögulegt er. Ég hef ekki neinn hug á því að beita þarna almennum hömlum. Ég hef hug á hinu, að reglunum sé beitt eins langt og hægt er til þess að búa í haginn fyrir það, að þessi markaður nýtist til raforku eins fljótt og verða má. En það er ekki hægt að selja aðra orku en þá sem tiltæk er.

Hv. þm. sagði, að það hefði átt að vera embættisskylda mín að sjá fram í tímann um það, sem gerðist í olíumálunum, á s.l. hausti. Nú þykir mér kröfugerðin fara að verða býsna mikil. Ég veit ekki betur en þessir atburðir hafi dunið á Vestur-Evrópubúum býsna óviðbúnum. Það er að vísu rétt, það var búið að prenta skömmtunarseðla í ýmsum löndum. En menn áttu ekki von á því, að þetta dyndi yfir á þann hátt, sem það gerði, og með svo skjótum hætti sem það gerði. Ég held, að ekki sé ætlast til þess, að það sé embættisskylda nokkurs ráðh. að hafa þvílíkt véfréttaskyn, að hann viti óorðna hluti á slíkan hátt.

En við Íslendingar erum þrátt fyrir allt betur undir það búnir en aðrir að takast á við þennan vanda. Það hefur mikið verið talað um það hér, að verið sé að keyra rándýrar dísilstöðvar. En menn virðast gleyma því, að þessi dísilkeyrsla er ekki nema sáralítið brot af raforkuframleiðslunni á Íslandi. Árið 1972 var rafmagnsframleiðsla frá dísilstöðvum aðeins 2.5% heildarraforkuframleiðslunnar á Íslandi, og þetta hlutfall mun hafa verið öllu lægra á síðasta ári, vegna þess að þá kom í gagnið stækkunin á Búrfellsvirkjun. Ef maður litur á heildarframleiðsluna, er þetta lítið brot, og það er að sjálfsögðu mikið keppikefli að losna við dísilkeyrslu, eftir því sem hægt er. Það verður aldrei hægt að losna við hana að fullu. Við munum áreiðanlega þurfa að hafa slíkar varastöðvar víða um land til þess að grípa til þeirra, þegar erfiðleikar steðja að. En að sjálfsögðu er okkur kappsmál, að raforkuframleiðsla á þennan hátt verði sem allra minnst. Og hún er ákaflega lítil, sem betur fer.

Hv. þm. taldi, að ríkisstj. hefði ekki lagt fram nægilegt fjármagn til rannsókna í sambandi við virkjunarmál og m.a. ekki á fjárlögum þessa árs. Þetta er ekki rétt hermt hjá hv. þm. Hann var víst ekki hér á þingi fyrir áramót, en þá gerðist það við 3. umr. fjárlagafrv., að teknar voru inn mjög verulegar upphæðir, milli 200 og 300 millj. kr., ef ég man rétt, einmitt til rannsókna og kaupa á tækjum í sambandi við orkurannsóknir, og var m.a gert ráð fyrir kaupum á nýjum gufubor. Ég held, að fjárframlög til raforkumála hafi margfaldast í tíð núv. ríkisstj. Ef maður ber saman framlög á fjárl. og framkvæmdaáætlun annars vegar á árinu 1970, síðasta heila viðreisnarárinu, og hins vegar á fjárl. þessa árs, 1974, þá er þar, ef ég man rétt, um hvorki meira né minna en fjórföldun að ræða. Við höfum lagt mikla áherslu á að hraða framkvæmdum á þessu sviði. Við höfum verið með í gangi samtímis Lagarfossvirkjun og Mjólkárvirkjun á Vestfjörðum, og við höfum hafist handa um Sigölduvirkjun. En þetta þarf allt saman að auka, og eins og ég greindi frá, þegar fyrri umr. um þetta frv. fóru fram, var einmitt lögð á það áhersla af núv. ríkisstj. að bregðast þannig við orkuskortinum og síhækkandi verði á olíu að flýta öllum áformum um nýtingu innlendra orkugjafa, og á það bæði við um hitaveitur og um raforkuframleiðslu, sem hægt væri að nota til upphitunar húsa. Ég geri mér vonir um, að bráðabirgðaskýrsla frá því verkfræðifyrirtæki, sem falið var að annast þessa athugun í sambandi við Orkustofnun, muni fljótlega liggja fyrir, og mun ég þá að sjálfsögðu þegar í stað gera Alþ. grein fyrir þessu. En það er augljóst mál. að sú þróun, sem orðið hefur síðustu mánuði, leiðir til þess, að á ýmsum stöðum, sem voru hikandi um það, hvort þeir ættu að ráðast í hitaveitur, vegna þess að þar er um mjög verulegan stofnkostnað að ræða, jafnvel þótt reksturinn kynni að vera hagkvæmari, þá er það ekkert álitamál lengur, að það ber að ráðast í slíkar framkvæmdir eins fljótt og auðið er. Og það er einnig augljóst mál. að því er ég hygg, að eftirspurn eftir húshitun með raforku verður miklu, miklu meiri nú en okkur óraði fyrir aðeins fyrir 1–2 árum.

Það hefur verið þannig með húshitun með raforku, að hún hefur ekki verið ýkjamiklu ódýrari en húshitun með olíu. Hins vegar fylgja henni ýmsir aðrir kostir, sérstaklega ef menn geta byggt hús sín þannig, að þau séu miðuð við upphitun með raforku. Þá er þar um lægri byggingarkostnað að ræða, og því fylgja aðrir kostir einnig. Þetta er mun hreinlegri aðferð til hitunar o.s.frv. En þjóðhagslega séð jafngildir húshitun með raforku gjaldeyrisöflun í verulega miklum mæli, þannig að ég tel, að þar sé um framkvæmd að ræða, sem kalli á stórauknar framkvæmdir í raforkumálum. En þar er að sjálfsögðu ekki aðeins um virkjanir að ræða, þar er um það að ræða, að tengja verður saman öll orkuveitusvæðin, styrkja dreifikerfin ákaflega viða, þannig að þarna er um að ræða ákaflega mikla fjárfestingu. Ég hygg, að um þetta verðum við að gera áætlun allmörg ár fram í tímann, eftir því sem við erum menn til að reyna að spá um framgang slíkra verkefna, og við verðum að láta verkefni af þessu tagi hafa algeran forgang. Að þessu er nú unnið á vegum rn., og eins og ég sagði áðan, vona ég, að hægt sé að leggja fram fyrstu drög að slíkri framkvæmdaáætlun, áður en mjög langur tími líður.

Ég held, að hér sé um mál að ræða, sem er þess eðlis, að mjög sé æskilegt, að um það geti tekist sem víðtækust samstaða meðal þm. Ég held, að landsmenn sjái allir sameiginlega, hversu brýn þessi þörf er, og ég hygg, að það sé ætlast til annars af okkur alþm. en við eyðum allt of miklum tíma í að þrátta og þrasa hér um það, hvað gert hafi verið á undanförnum árum, hverjir hafi séð rétt og hverjir hafi séð rangt, eða þrátta um það, hvort ráðast eigi í einhverja virkjun upp á 3–4 MW á einum stað eða öðrum. Málið er miklu stærra og alvarlegra en svo, að við eigum að halda þannig á. Þingflokkur Sjálfstfl. hefur sent ríkisstj. bréf, þar sem hann leggur áherslu á það sjónarmið sitt, að einmitt þessum verkefnum beri að hraða. Það bréf er alveg í samræmi við þær aðgerðir, sem ég beitti mér fyrir, að ráðist yrði í, þegar vitað var um olíukreppuna í haust, og ég fagna því að sjálfsögðu að hafa stuðning Sjálfstfl. við þessa almennu stefnu. Ég hef hug á því, að við reynum sameiginlega að finna framkvæmdaröð, sem menn geti komið sér sæmilega saman um. Ég fagna því líka, að Sjálfstfl. hefur lýst stuðningi sínum við þá hugmynd, að gerðar verði ráðstafanir til að draga úr þeirri miklu mismunun, sem upp mun koma milli þess helmings landsmanna, sem nú verður að hita hús sín með olíu, og hins vegar helmingsins, sem nýtur hitaveitu. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði, þetta er vandamál. sem mun verða vandamál hjá okkur um alllangt árabil. Við getum að vísu flýtt hitaveituframkvæmdunum. Það er um það bil helmingur þjóðarinnar, sem nú hefur hitaveitu, og er talið, að hægt sé að koma þeirri prósentu upp í 60–70% af þjóðinni, sem búi við hitaveitu, en að 30–40% verði þá að fá rafhitun, og það mun að sjálfsögðu taka lengri tíma. Það mun taka lengri tíma bæði að leggja á ráðin um skynsamlegar virkjunarframkvæmdir í því sambandi og að byggja dreifikerfið. Auk þess er þetta fjármögnunarvandi fyrir einstaklinga, hvernig þeir eiga á skynsamlegastan hátt að breyta upphitunaraðferðum í húsum sínum.

Hafi ég gleymt að svara einhverjum af þeim fjölmörgu fsp., sem hv. þm. beindi til mín, bið ég hann að hafa á því þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þingsköpum, að bera þær fram skriflega, og ég skal þá reyna að greiða úr því, eftir því sem ég er maður til. Ég hef ekki allt í kollinum. Það getur vel verið, að það sé ætlast til af nemendum þessa hv. þm., að þeir kunni lexíurnar sínar þannig, að þeir geti þulið þær frammi fyrir honum, þegar honum dettur í hug að spyrja um eitthvað, en þá er ég ekki nægilega góður nemandi í hans augum.

Hitt skiptir hins vegar öllu máli, að ég þykist hafa orðið var við, að það er full samstaða um þetta frv., um heimíld til virkjunar við Kröflu og við Námafjall, og þeirri samstöðu hlýt ég að fagna. Það kom þarna upp vandamál, eins og ég sagði áðan, á þessu tímabili, og ég held, að við verðum að leggja á ráðin um það, hvernig við getum komist yfir þann vanda með sem bestum hætti. En ef við lítum svolítið lengra fram í tímann, tel ég, að við Íslendingar eigum miklu láni að fagna að því er snertir orkumál. Þar er um að ræða auðlindir, sem eru langt, langt umfram það, sem við þurfum að nota aðeins til okkar daglegu, persónulegu þarfa, til húshitunar og lýsingar á híbýlum okkar. Við getum áreiðanlega byggt á þeim mjög verðmæta framleiðslu.

Hv. þm, minntist á, hvort það væri stefna ríkisstj., að ekki skyldi risa stóriðnaður á Norðurlandi, ekki orkufrekur iðnaður. Því fer mjög fjarri. Ég tel það vera ákaflega mikilvægt atriði, að meiri háttar fyrirtæki af slíku tagi rísi ekki aðeins hér á Suðvesturlandi, heldur einnig á Norðurlandi og Austfjörðum, þar sem aðstæður eru hentugar til þess. Og þær aðstæður eru vissulega hentugar bæði á Norðurlandi og Austfjörðum. Bæði á Norðurlandi og Austfjörðum er hægt að ráðast í mjög verulega stórar virkjanir, eins og hv. þm. minntist á. Um Dettifossvirkjun er fullnaðarkönnun á virkjunaraðstæðum að verða lokið, og ég geri ráð fyrir því, að iðnrn. fái lokaskýrslu um hann mjög fljótlega. Þá verða menn að vega það og meta, hvenær skynsamlegt er að ráðast í þá virkjun. En þá virkjun yrði greinilega að tengja við einhvern orkufrekan iðnað, sem mundi þá að eðlilegu rísa á Norðurlandi. Ég ætla, að það hafi verið ein af mistökunum í stefnu viðreisnarstjórnarinnar, að stórframleiðsla á ódýrri raforku var einvörðungu bundin við Suðvesturland. Það stuðlaði að misræmi á milli byggða á Íslandi. Ég held, að það verði að vera takmark okkar að byggja á því sviði, að landsmenn allir sitji við sama borð, og það gerist ekki í raun og veru fyrr en við erum búnir að koma upp einu samfelldu raforkukerfi um landið, sem getur tryggt, að raforku verði unnt að selja á sama verði á öllum heildsölustöðum um allt land. Þá fyrst er búið að tryggja jafnrétti á þessu sviði. Og ég hygg, að þessi miðlungsvirkjun, þessi myndarlega miðlungsvirkjun á Kröflusvæðinu, eigi eftir að reynast drjúgur þáttur í þeirri þróun.