30.01.1974
Efri deild: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það eru nú orðnar alllangar umr. um þetta frv. og orkumálin í heild og hefur margt spunnist hér inn i. Ég ætla að fara um þetta nokkrum orðum og vil þá byrja á að fjalla um síðustu orð hæstv. ráðh.

Það er mjög athyglisvert að heyra, að svo mikil orkuþörf er hjá okkur landsmönnum á svæðum, sem ekki hafa heitt vatn, að það er markaður fyrir afkastagetu Sigölduvirkjunar. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh., af því að hann greindi frá því í ræðu sinni og var búið að tilkynna það áður, að nefnd væri að starfa á vegum rn., er mundi kanna markað fyrir innlenda orku, hvort sú n. mundi taka það með í myndina, að öll hús á Íslandi gætu fengið innlendan orkugjafa, heitt vatn eða raforku, til húsahitunar. (Gripið fram í.) Þetta er æskilegt markmið. Hvort við setjum þar 5 ár eða 10 ár, því verða aðstæður að ráða. Það þarf dreifikerfi og þar fram eftir götunum. (Heilbr.- og trmrh.: Það er þetta sem athugunin snýst einmitt um) Já, það er mjög ánægjulegt að heyra, að þetta er tekið með, og er auðvitað brýn nauðsyn að taka það til gaumgæfilegrar athugunar nú, þegar aðstæður hafa breyst svo með olíuöflun í heiminum og olíukostnað og olíuframboð, að við getum staðið hér uppi skyndilega með takmarkaða orkugjöf frá olíunni á þeirri breiddargráðu, sem við erum.

Í öðru lagi vil ég fjalla aðeins um 1. gr. frv. Þar segir svo, með leyfi forseta:

Ríkisstj. er heimilt að fela væntanlegri Norðurlandsvirkjun eða öðrum aðila að reisa og reka jarðgufuaflsstöð.“

Ég er efnislega með frv., en vildi þó lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel, að það eigi eindregið að fela Norðurlandsvirkjun þetta. Það er mín skoðun. Þó að Orkustofnun hafi rekið nú um sinn gufuaflsstöð í Mývatnssveit, tel ég, að það sé ekki í verksviði Orkustofnunar að annast rekstur væntanlegrar gufuaflsvirkjana víðar, bæði við Kröflu og annars staðar í landinu. Þessi stofnun hefur ákveðið verksvið, rannsóknir, skipulagningu og uppbyggingu á þessu, en svo eiga aðrir aðilar að reka stöðvarnar. Ég vil lýsa þeirri afstöðu minni, að ég tel rétt, að þetta sé eins og segir þarna í 1. mgr., en ekki vera að hafa einhverja aðra í huga og alls ekki Orkustofnunina sem slíka.

Í öðru lagi vil ég minna á það, að ég flutti hér sem 9. mál á s.l. þingi till. til þál. ásamt Stefáni Gunnlaugssyni um lánsfé til hitaveituframkvæmda. Þar var skorað á ríkisstj. að gera þegar í stað ráðstafanir til að tryggja sveitarfélögum lán til hitaveituframkvæmda. Ég rakti þetta í nokkuð langri framsögn, undir þetta var tekið og þessari till. var vísað til hæstv. ríkisstj. Hefur eitthvað gerst í þessu efni? Það var þegar vitað, að a.m.k. á Reykjanessvæðinu og fáeinum stöðum úti á landi voru þegar í fyrra mikil áform uppi um að efla hitaveitu á svæðinu, og fyrst og fremst skorti mörg hundruð millj. kr. til framkvæmda. Nú knýr á að gera þetta, og e.t.v. mun n., sem starfar að þessum málum núna, einnig fjalla um þennan þátt í framkvæmdunum. Hér þarf geysimikið fjármagn.

Það hefur verið sagt frá því opinberlega núna, að sparnaður af hitaveitu yrði gífurlegur á þessu svæði, sem nær þó bara til Reykjavíkur og nágrennis. Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir í sjónvarpsþætti fyrir nokkrum víkum, að það var talinn a.m.k. sparnaður um eða yfir milljarð króna. Miðað við vinnubrögð hæstv. ríkisstj. í að leysa vandamál, væri ekkert óeðlilegt, að hún setti flatan skatt á heita vatnið, eins og gert er um loðnuna. Það eru alveg sömu vinnubrögð. Það þarf enginn að kippa sér upp við eitt eða neitt í því efni í dag. Það þarf heldur enginn að kippa sér upp við eitt eða neitt, þó að það yrði uppskerubrestur á kartöflum, laxveiðibændur borga hallann. Það er ekki nokkurt vandamál lengur til. Hún situr sjálf róleg, svo að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því, að hún leysi ekki vandamál þeirra, sem nota olíu úti um allt land. Það verður auðvitað gert á kostnað þeirra, sem hafa heitt vatn, þar sem þeir munu þéna um eða yfir milljarð. Það er óvefengjanlegt. því skyldu þeir ekki borga 200—300 millj. til baka, því að þeir fá skyndilega hagnað? Ég býð eftir því, að það verði samstaða um svona vinnubrögð á Alþingi og að sjá, þegar stærsti stjórnmálaflokkur landsins hefur það að markmiði sínu að vernda eðlilega starfsemi í landinu og frelsi einstaklingsins. Það er verið að ræða frv. um þennan skatt í Nd., og einn af forustumönnum þess flokks lýsti yfir samstöðu um það í gær. Ég hugsa, að hann hafi gert sér grein fyrir því, hvað í frv. felst.

Það er ekki framar vandamál til, þegar þessum vinnubrögðum er beitt. Það er bara fært með einföldu pennastríki á milli eftir þörfum, og allt í lagi með það. Ef þjóðin er komin inn á slík vinnubrögð, þá er það mjög nauðsynlegt, að það komi fram. Þó að ein starfsgrein lendi í vanda á Íslandi með orkuskort eða eitthvað annað, þá er það bara fært einfaldlega á milli og samþykkt á Alþ. með pomp og prakt.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri. En ég vænti þess, að þessi mál, þó að um hafi verið deilt, fái góða lausn, vegna þess að eins og kom fram hjá sumum ræðumönnum, er samstaða um að flýta fyrir því. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að það passar ekki að vera að deila mikið um hið liðna og kýta um það, hver hafi gert meira eða minna. Aðalatriðið er, að við leysum þennan vanda, en ekki með þeim vinnubrögðum, sem felast í því frv., sem er verið að ræða um nú í Nd.