30.01.1974
Neðri deild: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir, er til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 11. þ.m., og þau voru gefin út til að greiða fyrir ákvörðun um almennt fiskverð frá áramótum 1973–1974 og treysta rekstrargrundvöll þorskveiða. Þetta er gert í samráði við hagsmunasamtök sjávarútvegsins, að beita sér fyrir því, að á þessu ári verði lagt sérstakt 5% útflutningsgjald á fob-verðmæti útflutningsframleiðslu loðnuafurða, annarra en þeirrar loðnu, sem fer til niðursuðu eða niðurlagningar.

Í upphafi máls míns vil ég láta það koma fram, að ég er hlynntur þessu frv. og tel, að það hafi verið nauðsyn að ná samkomulagi á líkan hátt og gert var til þess að tryggja eðlilegan gang sjávarútvegsins. Ég tel jafnframt eðlilegt, eins og málin stóðu þá í sambandi við afurðaverð á hinum ýmsu greinum sjávarafurða, að skattleggja þá grein sjávarafurða, þar sem talið var þá, að mundi gefa besta útkomu vegna mikilla verðhækkana, sem álit hafa sér stað. Ég vil einnig segja, að sú mikla hækkun, sem orðið hefur á olíu nú á síðustu mánuðum, hefði gjörbreytt grundvelli til útgerðar á komandi vertið, ef ekki hefði verið gripið til ráðstafana með dikum hætti og hér er gert. Verðbreytingarnar á olíunni hafa orðið mjög miklar. En þó er ekki sagan öll sögð, því að meira á örugglega eftir að ske.

Það er engin smábreyting, sem hefur orðið á olíuverði frá því í júnílok á s.l. ári, að olían fór úr 4.70 kr. lítrinn í 5.30 kr., síðan í nóvembermánuði í 5.80 kr. og í desembermánuði í 7.70 kr. Er lagt til með þessum d., að olían verði greidd niður í það verð, sem var í árslok 1973, eða í 5.80 kr. lítrinn. — Allar líkur benda til þess, að olíuverð eigi eftir að hækka mjög verulega á næstu mánuðum, þó að nú sjái votta fyrir, að olían hefur lækkað á síðustu víkum. T.d. er vitað, að olía frá ríkjunum við Persaflóa hefur lækkað úr 150 dollurum niður í 120 dollara á markaði í Rotterdam og framboð hefur aukist mjög verulega að sama skapi. Hins vegar hefur stjórn Venezúela ákveðið í byrjun ársins að hækka enn olíuverðið, og þær verðhækkanir bitna harðast á okkur, því að í samningum okkar við Sovétríkin, sem við kaupum alla okkar olíu frá, er verðið háð því markaðsverði, sem er í Venezúela, en markaður Venezúela er fyrst og fremst í Bandaríkjunum, svo að það er sjáanlegt, að á næstunni munu verða mjög verulegar hækkanir á olíu. Er talið, að fram til júní muni olían hækka frá því, sem hún er nú, 7.70 kr. lítrinn, í 12.35 –12.70 kr. Þessar hækkanir verða sennilega í tvennu lagi.

Ég vil fara þess á leit við hæstv. sjútvrh., að hann gefi okkur yfirlit um, hvaða breytingar hann telur verða á olíuverði á næstunni, hvort þessar fregnir, sem borist hafa, séu ekki nokkurn veginn réttar, að olían muni stíga í tveimur áföngum úr 7.70 kr. og þá sennilega í 12.35–12.70 kr. Það væri fróðlegt að fá um þetta upplýsingar. Það sjá allir og skilja, að þær miklu sveiflur, sem verða á verði olíu, bitna mjög hart á öllum þeim, sem þurfa að nota þetta eldsneyti, og þá fyrst og fremst á öllum fiskiskipaflotanum og þá auðvitað ekki síður á þeim heimilum á landinu, sem verða að nota olíu til hitunar húsa. því er nauðsynlegt að gera ráðstafanir í þá átt, sem hér er verið að gera.

Hv. 5. landsk. þm., sem talaði hér, þegar þetta mál var til umr. fyrir tveimur dögum, var með nokkrar efasemdir um réttmæti þeirrar stefnu, sem hér væri tekin, og jafnframt virtist hann hafa nokkrar áhyggjur af því, að ef farið væri að greiða niður olíu, þá gæti átt sér stað misnotkun, þannig að olía, sem væri greidd niður fyrir fiskiskip, gæti þá verið notuð til kyndingar húsa, sem ekki lægi fyrir ákvörðun um að greiða niður. Ég hygg, að sjútvrn. hljóti að sjá um það, að slík misnotkun geti ekki átt sér stað, enda væri þar um hreinan og kláran þjófnað að ræða, ef menn notfærðu sér þannig slíka niðurgreiðslu sem þessa. Það hlýtur að vera í hendi þeirra aðila, sem annast dreifingu, að olía, sem fer á heimilistanka, sé ekki skrifuð hjá skipum, og ætti að varða, ef út af er brugðið, háum sektum, jafnvel missi söluleyfis. Ég vil ekki ætla fólki að vilja misnota á þennan hátt slíkar aðgerðir sem þessar. En það er sjálfsagt að vera búinn undir slíkan leka, en þá eiga auðvitað að vera þar mjög ákveðin og hörð viðurlög.

Hæstv. sjútvrh. sagði í frumræðu sinni á mánudaginn, að það lægi fyrir, að útgerðinni hefði verið heitið óbreyttum afkomugrundvelli út árið, og hann lét að því liggja, að hann væri nokkuð bjartsýnn á hækkað afurðaverð útvegsins og þar af leiðandi þyrfti kannske ekki eftir þær hækkanir, sem kunna að verða, að grípa til þess að greiða olíuna niður í 5.80 kr. lítrann. Ég fyrir mitt leyti er ekki bjartsýnn á það, jafnvel þó að verði einhver hækkun á velflestum fiskafurðum okkar, að afkomugrundvöllur útgerðarinnar styrkist, þegar vertíðinni lýkur, því að fram undan eru nýir samningar við sjómenn, nýir samningar við launafólk almennt, sem auðvitað koma til með að hafa mikil áhrif á útgerðarkostnaðinn, og sömuleiðis vitum við það, að þróunin hefur orðið sú, að allt kaupgjald og verðlag erlendis hefur hækkað mjög verulega, og liggur mjög ljóst fyrir, að stórfelld hækkun hefur orðið á viðhaldi skipa, varahlutum, öllum veiðarfærum og yfirleitt öllum útgerðarkostnaði, þannig að ég er ekki bjartsýnn á að grundvöllur útgerðarinnar styrkist, þegar vertíð lýkur. Ég er fremur þeirrar skoðunar, að það verði miklu stærra mál að leysa niðurgreiðslu á olíu seinni hluta þessa árs heldur en til vertíðarloka. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvrh. að því, hvort það hafi ekki farið fram einhver könnun á því og athuganir, á hvern hátt eigi að leysa þetta mikla vandamál, sem verður, eins og ég sagði áðan, miklu meira eftir lok þessarar vertíðar, og hvernig hann eða hæstv. ríkisstj. hyggist afla fjár til að leysa þennan vanda út árið. Hins vegar skal ég taka það fram, að eftir öllu því, sem ég heyri og les um framvindu þessara olíumála, þá ættum við að geta verið bjartsýn á, að verðlag á olíu fari aftur lækkandi í lok þessa árs eða byrjun næsta, þannig að við verðum að líta á þetta vandamál sem tímabundið vandamál, sem rætist nokkuð úr, jafnvel fyrr en menn ætluðu um og fyrir síðustu áramót.

Sömuleiðis langar mig til að spyrja hæstv. sjútvrh. að því, af því að hér er um að ræða að leggja sérstakt útflutningsgjald á loðnuafurðir fram yfir þau útflutningsgjöld, sem fyrir eru, bæði á þessar afurðir og aðrar, hvort það hafi ekki farið fram nein athugun á því, hvort þurfi að breyta lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum, því að eins og þm. rekur minni til, er útflutningsgjaldi af sjávarafurðum varið til nokkurra tiltekinna verkefna og þá sérstaklega eins, til greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipa samkv. reglum, sem sjútvrn. setur, en 85% af öllu útflutningsgjaldinu fara til greiðslu á vátryggingariðgjöldum. Þó að afurðaverð hafi verið hagstætt, er verðlagsþróunin sú, að verðgildi peninga fer sífellt minnkandi. Iðgjöld fiskiskipanna vaxa hröðum skrefum að krónutölu af þessum ástæðum og sömuleiðis af þeirri ástæðu, að mörg ný skip bætast við, miklu dýrari en þau, sem fyrir voru, og gera það að verkum, að heildarþörfin fyrir auknar greiðslur í tryggingakerfi fiskiskipanna vex svo hröðum skrefum, að ég álít, að með óbreyttum reglum, sem verið hafa í gildi frá hendi sjútvrn., þó að verði hagstæð þróun í verðlagi sjávarafurða, muni vanta mjög verulegar upphæðir á næsta ári. Slæm tjónareynsla gerir það að verkum, að iðgjaldaprósentan hefur hækkað, og, eða þessi útgjöld hafa vaxið svo hröðum skrefum, að hin hagstæða verðlagsþróun sjávarafurða mun ekki hafa við. Ég vil því spyrja hæstv. sjútvrh., hver skoðun hans sé á þessum málum, hvort hann telji, að með óbreyttu útflutningsgjaldi verði hægt að standa undir þessum greiðslum samkv. sömu reglum og ráðuneyti hans hefur sett og hafa verið í gildi fram til síðustu áramóta. Aðrir aðilar, sem fá framlag af útflutningsgjaldinu, eru Fiskveiðasjóður, sem fær 9.4%, Fiskimálasjóður, sem fær 2.5%, til smíði haf- og fiskirannsóknaskips 1.5%, til bygginga í þágu rannsóknastofnana sjávarútvegsins 0.6% og 0.5% til L.Í.Ú. og sama hlutfall til samtaka sjómanna samkv. reglum, sem sjútvrn. setur.

Mér finnst, að það þyrfti að liggja fyrir hér yfirlit um það, hvað hæstv. ráðherra telur í þessum efnum og hver skoðun hans er. Þó að það sé ekki beint hægt að segja, að það skipti máli í sambandi við afgreiðslu á þessu frv., þá gerir það það óbeint, og því er eðlilegt, að spurt sé um þetta hér.

Hv. 5. landsk. þm. dró nokkuð í efa, að það væri eðlilegt að skattleggja svona eina grein sjávarútvegsins fyrir aðra. Um þetta geta auðvitað alltaf verið skiptar skoðanir, og það er matsatriði, hvort þetta sé rétt eða eitthvað annað sé betra. En ég held, að þegar við lítum á afkomumöguleika í hinum einstöku greinum sjávarútvegsins, þá sé eðlilegt að skattleggja þá grein, þar sem verður svona ótrúlega mikill vöxtur, til þess að taka á sig byrðar annarra og koma einnig í veg fyrir, að einn þáttur innan atvinnugreinar fari með mjög mikið fjármagn út í verðlagið, sem er auðvitað og verður alltaf verðbólguvaldandi. Það gleður mig alveg sérstaklega, að hæstv. núv. sjútvrh. skuli nú loksins viðurkenna, að þetta sé eðlilegt, því að ég man ekki bebur en að hann og ýmsir aðrir, sem teljast aðstandendur núv. ríkisstj., hafi haldið öðru fram fyrir nokkrum árum., þegar líkt var gert og þetta. Þá var talin stórsynd að haga sér þannig að taka kúf af einni atvinnugrein til þess að jafna á aðrar og koma á þann hátt í veg fyrir vaxandi verðbólgu, og þá var einblint á það, að verið væri að taka tekjur af mönnum, sem ættu þær. M.ö.o.: samkv. þeirri kenningu ætti því loðnuskipin og þeir sjómenn, sem eru við loðnuveiðar, að fá að fullu og öllu sitt verðlag á sínar tekjur, sem þeir gætu — svo eytt og farið með út í verðlagið, og svo hefði verið hægt að benda á hjá öðrum innan þessarar sömu atvinnugreinar, hvað munurinn væri þá orðinn gífurlegur. Ég var þeirrar skoðunar á þessum árum, að þetta bæri að gera með líkum hætti og nú er gert, og ég get engan veginn snúið frá þeirri skoðun, þó að ég styðji ekki hæstv. ríkisstj., því að ég tel, að þetta sé rétt og skynsamlegt, og ég gleðst alveg sérstaklega yfir því, þegar menn, sem hafa farið villu vegar í efnahagsmálum og í viðhorfum til þeirra, sjá að sér og skilja, hvað er skynsamlegt að gera og nauðsynlegt að gera, en það eiga menn auðvitað að gera alveg jafnt hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég er hræddur um, að sumir menn, sem eru nú aðstandendur ríkisstj., hefðu haft mjög hátt um áramótin, að það væri verið að ráðast á þá sjómenn, sem stunda loðnuveiðarnar. Maður hefur heyrt óánægjuraddir þaðan. En ég sé ekki annað en sú stefna, sem ríkisstj,, hefur nú tekið upp og er framhald af stefnu fyrrv. ríkisstj. í þessum efnum, sé það réttasta, sem hægt er að gera undir þessum kringumstæðum. Það er líka komið til móts við óskir sjómanna, því að það á að verja 25 millj. kr. af tekjum sjóðsins til lífeyrissjóða sjómanna eftir nánari ákvörðun rn. Þetta er auðvitað dúsa fyrir sjómenn, til þess að þeir væru fúsari að fallast á það samkomulag, sem þeir gerðu og skuldbundu sig til.

Hv. 1. þm. Sunnl., sem hér talaði á mánudaginn einnig, gerði loðnuverðið nokkuð að umræðuefni, svo að ég skal spara mér að fara að endurtaka það. Ég hafði ætlað mér að ræða það á mjög líkan hátt og hann gerði með fsp. til hæstv. ráðherra, en hæstv. ráðherra á vafalaust eftir að svara bæði þeim fsp. og þessum, sem ég var nú að beina til hans, svo að maður bíður eftir því svari, hvað snertir verð á loðnuafurðum og útlit um sölu á loðnuaflanum almennt.

Í umr. hér 18. des. spurðist hv. 5. þm. Norðurl. e., Lárus Jónsson, fyrir um innflutning á olíu og um olíuverð. Sú fsp. kom til umr. hér 18. des. og 2. liður þeirrar fsp. var á þá leið, hvort ríkisstj. hyggist létta með einhverjum hætti byrðar þeirra heimila, sem verða að hita híbýli sín með olíu. Hæstv. viðskrh. svaraði þessari fsp. á þann veg, að þetta mál hefði verið rætt í ríkisstj. nokkrum sinnum, en um málið hefði enn engin ákvörðun verið tekin. Ég vil því spyrjast fyrir um það, þó kyndingarkostnaður heimila sé ekki til umr. eða afgreiðslu undir þessum dagskrárlið, spyrja hæstv. viðsk.- og sjútvrh. eð því, hvort það sé að vænta till. frá ríkisstj. í þessum efnum.

Alveg eins og olíuverðið hefur breytt grundvelli útgerðar fiskiskipa í landinu, hefur það einnig breytt grundvelli að útgerð heimilanna, sem verða að kynda með olíu, og þessi gífurlega hækkun kemur á tæpan helming þjóðarinnar. því tel ég mjög eðlilegt og sjálfsagt, að einhverjar ráðstafanir séu gerðar af samfélaginu til að jafna þessar byrðar. Sjálfstfl. hefur í gær skrifað ríkisstj. bréf um þetta efni, þar sem hann tekur undir og hvetur til, að aðgerðir verði gerðar til að jafna þennan aðstöðumun, eins og segir í bréfi hans, en þó ekki á þann veg, að það verði lagður skattur á þá staði, sem eru með jarðvarmaveitu, því að flokkurinn telur eðlilegt, að fyrirtæki sveitarfélaganna fái fjármagn til að halda áfram eðlilegri uppbyggingu og aukningu jarðvarma. En auðvitað er nauðsynlegt að létta undir með tæplega helmingi heimilanna í landinu hvað snertir upphitun íbúðarhúsa. Hefur verið talið, að á árinu 1972 hafi 48.97% af olíuinnflutningnum farið til upphitunar húsa, en 25.47% til fiskiskipa, til bíla 9% og 16.58% til iðnaðar. Á árinu 1972 voru flutt inn um 301 þús. tonn af olíu, og er talið, að á milli áranna 1972 og 1973 hafi orðið um 5% aukningu á innflutningi olíu, svo að hér er um mjög mikið vandamál að ræða, þegar við berum það saman við þá niðurgreiðslu, sem nú er verið að ákveða hér til að tryggja afkomu fiskiskipanna í 5.80 kr. úr 7.70, sem nú er orðið olíuverðið. Ef olíuverðið fer í 12.35–12.50, er þetta vandamál orðið gífurlega stórt, bæði hvað snertir atvinnuvegina og þau heimill á landinu, sem þurfa að nota olíu til upphitunar.

Ég vænti þess, að hæstv. sjútvrh. sjái sér fært að verða við því að svara þessum fsp., bæði þeim, sem hv. 1. þm. Sunnl. bar fram og raunar 5. landsk. þm. einnig, og þeim fsp., sem ég hef gert, og hann afsaki það, þó að ég hafi lítillega komið inn á olíu til húskyndingar, því að vandamálið er raunar það sama bæði fyrir atvinnurekstur og heimilin almennt.