30.01.1974
Neðri deild: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1896 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það hafa orðið býsna miklar umr. um þetta frv. við 1. umr., og ýmsar fsp. hafa komið fram, sem ég skal leitast við að svara. En mér sýnist, að mjög hafi borið á því í þessum umr., að menn hafi ekki kynnt sér, hvernig þetta mál raunverulega ber að. Hér er um það að ræða að fulltrúar fiskseljenda svonefndra, þ.e.a.s. útgerðarmanna og sjómanna, sem eru að selja sinn afla, og fulltrúar fiskkaupenda, þeirra sem taka fiskinn til verkunar, framleiðslu og útflutnings, eiga rétt á því samkv. lögum að semja um hráefnisverð á fiski, jafnt loðnu sem öðrum fiski. Þessir aðilar höfðu setið við samningaborð og komið sér saman um ákveðna lausn á málinu. Þeir samþykkja það verð, sem þar er um að ræða, að tilskildum ákveðnum atriðum.

Það, sem hv. 10. þm. Reykv., sem hér var síðast að tala, minntist á og hann viðhafði hin stóru orð um þrælalög o.s.frv. gagnvart sjómönnum — (Gripið fram í.) Það er ekki það, að þetta orð megi ekki nota undir réttum kringumstæðum. Það hefur verið tilefni til að nota það, en ekki í þessu tilfelli. Það er alveg rétt,— að við samningagerð að þessu sinni kom fram mjög eindregin krafa útgerðarmanna um að breyta hlutaskiptakjörunum, vegna þess að fulltrúar útgerðarmanna töldu, að þegar einn liðurinn í rekstrarkostnaði útgerðarinnar hækkaði svona gífurlega mikið, væri í rauninni ekki hægt að ná endum saman á eðlilegan hátt, þ.e.a.s. tryggja eðlilega rekstrarafkomu útgerðarinnar, nema þá á þann hátt, að fiskverð hækkaði úr hófi fram, þannig að hægt væri að segja, að launakjör sjómanna hefðu þá hækkað langt umfram það, sem laun annarra starfsstétta gætu komið til með að hækka. Þessu neituðu fulltrúar sjómanna, sem voru þarna við samningaborðið. Þeir neituðu algerlega að fallast á kröfu um að breyta hlutaskiptakjörunum. Hins vegar samþykktu fulltrúar sjómanna, að tiltekin fjárupphæð, sem um var að ræða, að ætti að leggja til geymslu í Verðjöfnunarsjóð, yrði notuð í þessu skyni með ákveðnum skilyrðum. Það er svo alveg augljóst mál, að grundvallarmunur er á þessu og á því að ætla að breyta gildandi samningum um hlutaskiptakjör. Og það er vitanlega ómaklegt á allan hátt að nota orð eins og þetta gagnvart þeim fulltrúum sjómanna, sem þetta hafa samþykkt. Hins vegar var því ekki til að dreifa í fyrra tilfellinn, sem þessi hv. þm. var að vitna til. Þá mæltu samtök sjómanna algerlega á móti því, að lög væru sett um að breyta hlutaskiptakjörunum. En um þetta geta menn þvælt og kemur í sjálfu sér ekki þessu máli við sem slíku.

Þetta þurfa menn að sjálfsögðu að hafa í huga í sambandi við það mál. sem hér liggur fyrir, að þeir fulltrúar, sem hér eiga beinna hagsmuna að gæta og eiga samkv. lögum aðild til að semja um verðið sín á milli, komust að fullu samkomulagi um það og óska aðeins eftir því, að þeim fjármunum, sem þeir áttu sameiginlega og áttu að renna í Verðjöfnunarsjóð væri ráðstafað á þennan hátt. Það hefði satt að segja verið mjög óeðlilegt, ef Alþ. hefði neitað því að verða við óskum þeirra um að ráðstafa þeirra eigin fjármunum á þann hátt, sem þeir urðu sammála um. Hitt er aftur annað mál, sem líka hefur komið hér fram og ég gat um strax í minni upphaflegu ræðu, að það, sem ríkisstj. tók á sig í þessum efnum, var þetta litla form, að standa fyrir því, að þetta samkomulag þeirra yrði lögfest, en í öðru lagi að gefa yfirlýsingu um, að ríkisstj. teldi eðlilegt að reyna að vinna að því að halda þeim rekstrargrundvelli áfram að þessu samningstímabili loknu, þ.e.a.s. að loknu vetrarvertíðartímabilinu, þá með sérstökum ráðstöfunum, ef nauðsynlegt kynni að reynast, því að það er vitanlega ekki á nokkurn hátt eðlileg, að þeir, sem stunda útgerð í sumar og á komandi hausti, verði að taka á sig þau miklu áföll sérstaklega, sem mundu hljótast af olíuverðhækkun, ef ekki hefði þá eitthvað annað komið til útgerðarinnar til hagnaðar til þess að standa á móti þeim auknu útgjöldum. Það er vandamál, sem þarf að glíma við, þegar að því kemur, og enginn getur sagt um á þessari stundu, hversu mikið vandamálið er. Það var sem sagt gefið fyrirheit um það af hálfu ríkisstj. að beita sér fyrir því, að hægt yrði að tryggja svipaða afkomu hjá útgerðinni á síðari útgerðartímabilum á árinu og á þessu fyrsta.

Mér fannst allmikið bera á því í þeirri ræðu, sem hv. 5. landsk. þm., Stefán Gunnlaugsson, flutti hér, þegar málið var síðast á dagskrá, að það liti best út fyrir, að hann héldi, að með þessari ráðstöfun væri verið að skattleggja landsmenn, skattborgarana, sérstaklega, eins og hann vék að nokkrum sinnum, að það væri verið að fara í vasa skattborgaranna sí og æ og hver væri meiningin í þeim efnum, og einnig talaði hann um, að verið væri að seilast í sjóði loðnuframleiðenda. Ríkisstj. er ekkert að gera í þessum efnum annað en verða við óskum þeirra aðila, sem eiga loðnusjóðinn, að þeir megi ráðstafa honum svona. Ríkisstj. er ekki að standa hér fyrir neinni almennri skattlagningu á skattborgara. Hér er ekki verið að leggja neinn sérstakan skatt á skattborgarana í landinu í þessum efnum. Það er, eins og skýrt kemur hér fram, er verið að fallast á það, að fjármunir í sjávarútvegi verði notaðir á þennan hátt fyrir sjávarútveginn.

Hér hefur einnig verið nokkuð að því vikið, að það væri hætta á því, að um misnotkun gæti orðið að ræða, þegar olíuverðið til fiskiskipa yrði allmiklu lægra en olíuverðið til ýmissa annarra í landinu. Það er ekki hægt að neita því, að viss hætta er þarna á ferðum, eins og í rauninni í sambandi við allar hliðstæðar lagasetningar. En það er gert ráð fyrir því í frv., að um framkvæmdina á málinu verði settar sérstakar reglur, og að því hefur verið unnið að reyna að tryggja eins og verða má, að það verði ekki mögulegt að misnota þessar niðurgreiðslur. Það er gert ráð fyrir, að hér komi eingöngu til niðurgreiðslu í þeim tilfellum, þegar þeir, sem olíuna afhenda, hafa tilgreint dag og fengið undirskrift manna fyrir því, hverjir taka við olíunni og hvaða magn hefur verið afgreitt og til hvaða skips. Það verður gerður samanburður á því, hvað þetta skip hefur notað áður, það verður einnig haft eftirlit með því, hvort viðkomandi skip geti notað þetta olíumagn með eðlilegum hætti, og það verða gerðar margvislegar aðrar ráðstafanir til þess að reyna að koma í veg fyrir, að hægt sé að misnota þetta. En vissulega er það svo, að það er alltaf hugsanlegt í sambandi við alla lagasetningu, að hægt sé að fara í kringum hana. En það er skoðun mín, að möguleikar til þess eigi ekki að vera miklir í þessu sambandi.

Þá hefur í sambandi við þetta mál nokkuð verið minnst á það, að nú ríkti óvissa um sölu loðnuafurða, og býsna stór orð höfð um það. Það er alveg rétt. Ég gat um það strax í upphafi míns máls, að það er nokkur óvissa ríkjandi um söluna á loðnumjöli, eins og nú standa sakir. Það er auðvitað ekkert nýtt. Slíkt hefur komið fyrir áður margsinnis, að sölur eru látnar dragast af ýmsum ástæðum, ef menn telja, að markaðshorfur séu þannig, að rétt sé að bíða fremur en að selja. Það hafa verið seld nú í kringum 18 þús. tonn fyrir fram af loðnumjöli á mjög háu verði og að meðaltali á fyllilega eins háu verði og lagt hefur verið til grundvallar við þá útreikninga, sem aðilar studdust við, þegar þeir samþykktu hráefnisverðið. Þeir sem samþykktu hráefnisverðið, gerðu það eins og venjulega út frá ákveðnum forsendum, sem þeir miðuðu við sjálfir. Það var ekki ríkisvaldsins að segja þeim eitt eða neitt í þeim efnum. Þeir ákváðu að borga svona hátt hráefnisverð eins og þeir sömdu um á þeim forsendum, sem þeir studdust við. Það eru þeir sjálfir, sem hafa með söluna að gera á þessum afurðum. Ríkið selur ekki loðnumjölið, það er mesti misskilningur. Þar hefur ríkið aðeins haft það vald, að ríkið hefur haft visst eftirlit með því, að

það ættu sér ekki stað óeðlileg undirboð, og það, sem hefur komið fram í þessum umr, og sagt var frá í Alþýðublaðinu nýlega, að viðskrh. hafi bannað sölu á loðnumjöli til annarra en Pólverja og þar með komið í veg fyrir góðar sölur, er gersamlega út í hött, úr lausu lofti gripið. Hér hefur ekki gerst annað en það, að viðskrn. hefur haldið allmarga fundi með öllum helstu loðnumjölsframleiðendum í landinu og öllum helstu aðilum, sem hafa haft með höndum að selja loðnumjöl á undanförnum árum, og í samráði við þessa aðila og með einróma samþykki þeirra allra hefur verið sett lágmarksverð á loðnumjöl. Þegar þessir aðilar, sem bæði framleiða loðnumjölið og vinna að því að selja það, hafa komið sér saman um, að rétt væri að miða við ákveðið lágmarksverð og heimila ekki lægri sölur, hefur rn. jafnan orðið við því. Það sjá allir, hversu hlægilegt það er í sjálfu sér, eftir að framleiðendur eru búnir að ákveða tiltekið hráefnisverð, sem þeir ætli sér að borga, ef þeir þykjast geta selt vöruna sér í hag á lægra verði, að rn. væri þá að koma í veg fyrir það. En hér viðurkenna bæði framleiðendur og seljendur, að það þarf að vera nokkurt samstarf, og vegna þess hefur verið leitað til ríkisins í þessum efnum. En það gera þessir framleiðendur sér ljóst alveg eins og rn., að þegar ákveðið lágmarksverð er sett, getur farið svo, að verðfall verði og menn verði að lúta því aftur seinna að selja jafnvel á lægra verði en þeir höfðu neitað áður. En það lágmarksverð, sem hér var sett í þau skipti, sem það var ákveðið, var sett með hliðsjón af því verði, sem þá gilti hér á markaðnum og hægt var að selja, fyrir, og með hliðsjón af því verði, sem nágrannar okkar, sem selja nokkuð mikið af þessu mjöli, eins og Norðmenn og Danir, höfðu miðað við hjá sér.

Við höfðum allir fulla ástæðu til þess að halda, að Pólverjar mundu samþykkja þetta lágmarksverð, sem hér hafði verið sett, af því að þeir höfðu gert tilboð um svipað lámarksverð í fiskmjöl, ekki loðnumjöl. En það kom svo að því, að þeir töldu æskilegt fyrir sig að draga það nokkuð að ákveða verðið, en buðu hins vegar að kaupa mikið magn af loðnumjöli með föstum samningi og að verðið yrði ákveðið síðar í samræmi við það, sem algengast væri á erlendum mörkuðum. En því neituðu bæði framleiðendur og seljendur hér. Ég álit fyrir mitt leyti, að eins og upplýsingar liggja nú fyrir um verð á loðnumjöli, sé í rauninni engin ástæða til þess að örvænta í þeim efnum, og það er mesti misskilningur, að hægt sé að standa að þessari framleiðslu þannig, að hún sé alltaf öll fyrir fram seld, áður en byrjað er að framleiða. Það yrði eitthvað lítið úr framleiðslu okkar á frosnum fiski fyrir Bandarfkjamarkað og að framleiða saltfisk fyrir ýmsa markaði, ef við ættum að bíða eftir því að hafa selt vöruna, áður en við gætum ákveðið hráefnisverð á þeim fiski, sem til framleiðslunnar á að ganga. En það er hins vegar rétt, að hér er enn óselt allmikið af loðnumjöli og nokkur óvissa ríkjandi og framleiðendur telja rétt, eins og sakir standa, að bíða, en lúta ekki að því verði, sem þeim hefur verið boðið nú.

Það kom einnig fram í ræðu hv. 1. þm. Sunnl., sem ræddi allmikið um söluhorfurnar í sambandi við loðnuafurðir, að hann var eitthvað uggandi um söluna á frystri loðnu til Japans. Það er rétt, að ýmsir aðilar hafa orðið nokkuð hræddir síðustu dagana um, að þar gæti orðið einhver breyting á. Hann sagði eitthvað á þá leið, að það væri ósköp eðlilegt, að undir þessum kringumstæðum spyrðu frystihúsin, hvað um þetta yrði og hvort það væri möguleiki fyrir þau að taka á móti loðnu til frystingar. En þetta mál er ekki, eins og ég hef þegar sagt, þannig, að frystihúsin þurfi að vera að spyrja einn eða neinn. Þau hafa þegar samið um að kaupa loðnuna á tilteknu verði. Enda veit ég ekki til þess, að nokkrum frystihúseiganda á landinu detti í hug að draga það eina einustu klukkustund að frysta loðnu til útflutnings, ef hann á þess kost að fá hráefni, sem er hæft í þennan útflutning, enda hefur það nýlega komið fram frá t.d. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, að þannig er ástatt hjá þeim. Þeir biða í rauninni allir aðeins eftir því, að loðnan verði hæf í þessu skyni. Auk þess liggja nú fyrir upplýsingar um það, að það má telja nokkurn veginn víst, að það verð fáist, sem miðað hafði verið við varðandi frystu loðnuna. Það er því ekki um það að ræða í sambandi við þetta mál, að ég þurfi að fá neinn sérstakan tíma á milli umr. til að kynna mér sölumálin í þessum efnum. Þessi sölumál eru ekki í okkar höndum nema á óbeinan hátt. Að sjálfsögðu höfum við gífurlega mikinn áhuga á því, að vel takist með þessa sölu og að það fáist sem allra hæst verð. Salan er í höndum framleiðenda og útflytjenda sjálfra, og þeir hafa gert sína samninga við fiskseljendur út frá þeim forsendum, sem fyrir lágu, og miðað við þekkingu sína á mörkuðunum, eins og þeir meta markaðinn.

Hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, bað mig fyrst um að gera hér nokkra grein fyrir því, hvað væri líklegt, að yrði um olíuverð hér á landi á næstunni. Ég sé ekki mikla ástæðu til þess að bæta miklu við það, sem hann upplýsti sjálfur í þessum efnum, því að enn er olíuverð óákveðið og er í rauninni ákveðið verðlagsnefndarmál, svo að það er ekki hægt að segja nákvæmlega um það. En þó er hægt að gefa þær upplýsingar, að sú olíuverðshækkun, sem tók gildi 8. des. s.l., var rétt um það bil helmingur af þeirri hækkun, sem þá lá fyrir, að var á leiðinni, og var gert ráð fyrir því, að síðari helmingur þeirrar hækkunar kæmi inn í verðlagið í febrúarmánuði, væntanlega um miðjan febr. eða svo. M.ö.o.: það verð, sem var 5.80 kr. á lítra til fiskiskipa og fór upp í 7.70 kr., það má búast við því, að um miðjan febr. verði óhjákvæmilegt að hækka það upp í á milli 9 og 10 kr. á litra. Ég vil ekki segja með meiri nákvæmni um það, því að eins og ég segi, þetta er verðlagsnefndarákvörðun og getur vitanlega eftir mati ýmissa aðila þar verið meira eða minna. En svo liggja einnig fyrir upplýsingar um enn þá hærra verð, sem við erum þegar byrjaðir að kaupa olíu á til landsins, og má telja líklegt, að það þurfi enn miðað við þessar forsendur að hækka olíuverðið talsvert í aprílmánuði, upp úr miðjum apríl. En vissulega gæti einnig komið til mála, að verðhækkunin, sem ráðgerð er um miðjan febr., yrði nokkru meiri en ég hef hér nefnt, en þá kæmi aftur hin hækkunin síðar. Þetta er tiltölulega auðvelt að gera, miðað við það fyrirkomulag, sem er við verðlagningu á olíu. En sú verðlagning, sem nú er í gildi, hefur verið við það miðuð, að þó nokkurt fé hefur nú safnast upp í verðjöfnunarsjóði olíufélaganna, og er því hægt í rauninni að halda þannig á verðlagningunni, að lengra sé á milliverðákvarðana og ýmist safnist fé í þennan verðjöfnunarsjóð eða það dragist út úr sjóðnum.

Það er rétt, að af hálfu olíufélaganna hefur verið talað um, að þegar það hæsta verð, sem nú liggur fyrir skráð á olíu erlendis frá, væri komið hér að fullu til framkvæmda, þyrfti þetta verð raunverulega að fara upp í 12.30–12.60 kr. á lítra. En verðlagsyfirvöld hafa ekki lagt blessun sína yfir þá útreikninga enn þá. Það er sem sagt alveg ljóst og við það var miðað í þeim útreikningum, sem lagðir voru til grundvallar, þegar ákvörðun var tekin um þá niðurgreiðslu, sem felst í þessu frv., að olían ætti enn eftir að hækka upp í á milli 9 og 10 kr. upp úr miðjum febr. og síðan jafnvel enn aftur eitthvað í apríl. Við það var miðað, þegar samkomulagið var gert í yfirnefnd verðlagsráðsins.

Hæstv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason sagði, að sér hefði fundist ég haga orðum mínum þannig, að þar hefði gætt nokkurrar bjartsýni um það, að e.t.v. yrði hægt að komast hjá sérstökum ráðstöfunum vegna olíuverðsins á sumarúthaldi fiskibátanna, vegna þess að þá yrðu orðnar hækkanir á fiskafurðum okkar á erlendum mörkuðum, sem gætu þá staðið undir þessum kostnaði, en hann væri nú ekki eins bjartsýnn. Um þetta atriði vil ég í rauninni ekkert segja á þessu stigi. Ég vil hvorki segja, að ég sé svartsýnn né bjartsýnn, því að um þetta atriði er í rauninni ómögulegt að spá nokkru. Það getur vissulega farið svo, að ýmis rekstrarútgjöld útgerðarinnar hafi hækkað, þegar dregur fram undir næstu fiskverðsákvörðun 1. júní, þannig að það éti nokkurn veginn upp þá fiskverðshækkun, sem þá yrði e.t.v. hægt að samþykkja, og eftir standi þá að fullu og öllu olíuvandamálið. Þetta má vel vera. En þá er ég á þeirri skoðun, eins og ég heyrði, að hv. 2. þm. Vestf. er líka, að þá verði að koma til sérstakar ráðstafanir. Um það, hverjar þær eigi að vera eða í hvaða formi, tel ég ekki tímabært að ræða á þessu stigi málsins, því að hér getur það líka orðið, að olíuverð fari aftur lækkandi, svo sem vonir eru til um, og það getur líka verið, að fiskverðið á erlendum mörkuðum verði okkur hagstætt. Það er þegar búið að taka inn í þann rekstrargrundvöll bátanna, sem hér er miðað við, umtalsverða hækkun á bæði veiðarfærum og viðhaldi miðað við útgerð allt árið, þannig að ég tel, að þetta verði að athuga, þegar þar að kemur. En hitt tel ég vera sanngjarnt, að það beri að reyna að halda sig við svipaða afkomu hjá fiskiskipaflotanum á sumar- og haustvertiðinni og var lögð til grundvallar við útreikninga, þegar fiskverðið var ákveðið fyrir vetrarvertíðina. Aðferðir til að leysa þann vanda, sem þá kæmi upp, eru ýmsar, eins og stundum hefur verið bent á, en eins og ég segi, ég tel ekki ástæðu til að fara út í að ræða það að svo stöddu.

Þá spurði hv. 2. þm. Vestf., hvort ekki mundi reynast þörf á því að breyta gildandi ákvæðum um útflutningsgjald af sjávarafurðum, sem nú rennur að miklum hluta í vátryggingarsjóð fiskiskipa, 85% af útflutningsgjaldi — hvort ekki mundi verða nauðsynlegt að breyta útflutningsgjaldinu að þessu leyti til. Á þessu hafa verið gerðar athuganir, og þeir, sem með þau mál hafa að gera, hafa ekki talið, að svo væri að svo komnu máli. En þarna er þó margt óvíst. Það er búið að semja í aðalatriðum um þann grundvöll, sem útgjöld þeirra trygginga eiga að miðast við, og eftir þeirri lauslegu áætlun, sem gerð hefur verið um tekjur og gjöld þessa tryggingasjóðs á næsta ári, búast forstöðumenn sjóðsins við því, að hann muni á næsta ári hafa tekjur á móti gjöldum. Hann hafði nokkurn afgang á s.l. ári, um 80 millj. kr., sem hann hafði í meiri tekjur en gjöld, en hann hafði að vísu verið í miklum skuldum frá fyrri tíð. En þetta eru það lauslegar áætlanir, að um það er ekki hægt að fullyrða. En það er sem sagt verið að gera ráð fyrir því, að tekjur og gjöld þessa sjóðs geti verið nokkuð í jafnvægi og það sé ekki nein ástæða til að halda, að það þurfi að breyta þessum gjöldum eða auka tekjur sjóðsins frá því, sem nú er. (MB: Er þá miðað við sömu reglu?) Nei, þá er miðað við þær nýju reglur, sem nú hefur verið samið um við tryggingafélögin og nýjan tjónbótakostnað.

Þá minntist hv. 2. þm. Vestf. einnig á það stóra vandamál. sem við stöndum öll frammi fyrir varðandi þann aukna kostnað, sem er af húsakyndingu með olíu hjá þeim, sem við slíka kyndingu eiga að búa. Það er rétt, að ég svaraði þannig fsp. nokkru fyrir jólin, að ríkisstj. hafi rætt þetta mál nokkrum sinnum og teldi, að hér þyrfti að gera ráðstafanir, en þá höfðu ekki verið teknar neinar ákvarðanir í málinu. Nú fyrir nokkrum dögum tók ríkisstj. ákvörðun um það að fela viðskrn. að láta semja frv. í í þessu skyni, þar sem miðað er við að reyna að tryggja það mikla lækkun á húsakyndingarkostnaði með olíu, að segja megi, að það sé ekki um tiltölulega meiri hækkun að ræða hjá þeim, sem búa við slíka upphitun, heldur en er hjá hinum, sem búa við hitaveitu. Þeir, sem búa við hitaveitu, eru að sjálfsögðu að taka á sig sífellt meiri útgjöld með hækkuðum hitaveitutöxtum, og hefur verið miðað við það, að hið sama yrði að gerast hjá þeim, sem byggja á olíukyndingu, en að reynt yrði að sjá um, að þeir yrðu ekki fyrir tiltölulega meiri hækkun á sínum kyndingarkostnaði en aðrir. Að þessu er nú unnið, og með tilliti til þess, að þingflokkur Sjálfstfl. hefur gert samþykkt um þetta mál. mun ég hafa samband við fulltrúa flokksins og annarra stjórnarandstöðuflokka um það, hvort ekki geti orðið samstaða um þær leiðir, sem hugsaðar eru í þessum efnum af hálfu ríkisstj.

Þá hefur nokkuð verið að því vikið, að bæði ég og ýmsir aðrir höfum ekki verið hrifnir af því hér áður fyrr að gera ráðstafanir til að færa beinlínis með lögum fjármuni frá einni framleiðslugrein yfir til annarrar. Það er rétt. þetta er mín skoðun. Ég álít, að í þessum efnum eigi að fara mjög varlega. Skoðun mín er alveg óbreytt að því leyti til. Hinu hef ég aldrei neitað, að til þess geti komið, þegar keyrir alveg úr hófi, eins og í þessu tilfelli. Mér er ljóst, að þegar svo standa sakir, að hægt er að hækka loðnuverðið til loðnuskipanna og sjómanna, sem þær stunda, um nærri 100% frá mjög háu verði, sem áður var, en þá hafði það líka hækkað um 100%, þannig að launakjör þeirra, sem við þennan rekstur búa, eru algerlega ósambærileg við launakjör allra annarra, —þegar þetta er hægt, á sama tíma sem hið almenna fiskverð hækkar í kringum 45% á sama tíma, er það skoðun mín, að þá beri að gæta að því, hvort rétt sé að halda áfram að setja öll þessi miklu verðmæti út. Undir slíkum kringumstæðum hef ég aldrei viljað neita því, að það geti verið rétt að taka nokkurn kúf af og geyma hann í verðjöfnunarsjóði. Frá því að lög um verðjöfnunarsjóð voru sett, hefur þetta verið mín skoðun, og ég hef staðið að framkvæmdum í málinu þannig þann tíma, sem ég hef haft með framkvæmdir að gera. Það hefur verið greitt mikið fé í verðjöfnunarsjóð einmitt í svona tilfellum, og það er gert ráð fyrir því þrátt fyrir þessa ráðstöfun, að áfram verði greitt mikið fé í verðjöfnunarsjóð einnig af loðnuafurðum. Það var það, sem réð afstöðu fulltrúa sjómanna. Hér var því ekki um það að ræða, að það væri á nokkurn hátt verið að minnka þann hluta, sem sjómennirnir gátu fengið á þessari vertið. Hér var um hitt að ræða, hversu stór hluti af þessu aflaverðmæti ætti að geymast í verðjöfnunarsjóði eða hvort nokkru af því, sem annars átti að fara í verðjöfnunarsjóð, yrði varið á þennan hátt.

Ég er alveg sannfærður um, að það er óheppilegt fyrir útgerðarreksturinn í landinu, að verð á einni tegund rjúki svo langt upp fyrir það, sem er á öðrum tegundum, að það verði óeðlilegur tildráttur í atvinnurekstrinum. Ég neita því ekki, að það ber meira að segja á því nú á þessari vertið, að ýmsir þeir séu að búa sig undir loðnuvertíð og fara á loðnuvertíð, sem vægast sagt er hæpið að senda á slíkar veiðar á þessum tíma árs. En hið gífurlega háa verð ýtir á eftir, þó að engan veginn sé víst, að allir þeir, sem fara á þessar veiðar, á jafnvel allt of litlum bátum, hafi mikla möguleika á því að fá góða útkomu við þær aðstæður, sem þeir hafa að búa. Ég er á því, að það hefði að mörgu leyti verið þjóðhagslega betra og líklega betra fyrir þá sjálfa að halda sig meira að sinni eðlilegu útgerð með bátana, þeim rekstri, sem þeir eru fyrst og fremst gerðir til. En mjög hátt verð getur auðvitað raskað þessu öllu. Þetta var álit fulltrúa sjómanna og fulltrúa útgerðarmanna, þegar þeir komu sér saman um að hafa þennan hátt á.

Ég skal svo taka það fram í lokin, að það hafði komið fram í blöðum, að ég væri að leysa þau vandamál, sem við var að eiga í samhandi við þessa verðlagningu, með því að leggja til, að þessi háttur væri hafður á í sambandi við olíuverðlagið. En það er misskilningur. Þar er verið að þakka mér það, sem ég átti ekki nema litla hlutdeild að. Þetta var till., sem fram hafði komið í þeirri sáttanefnd, sem starfaði í deilu milli sjómanna og útgerðarmanna, og ég fyrir mitt leyti tók, þegar hún var borin undir mig, jákvætt undir þessa till. En till. kom þar fram, og það voru samningsaðilarnir sjálfir, sem komu sér saman um þetta, en fengu samþykki ríkisstj. fyrir því, að leitað skyldi eftir lögfestingu á þessu samkomulagi.

Ég held, að það sé ekki þörf í sjálfu sér á því að ræða þetta mál öllu meir við 1. umr. Málið fer nú til n. til athugunar, og ég á von á því, að þegar menn hafa kynnt sér málið nánar og fengið allar upplýsingar frá réttum aðilum þar, þá standi ekki á hv. þm. að samþykkja að verða við því að lögfesta þær óskir sjómanna og útvegsmanna, sem eru bornar fram í þessu frv.