30.01.1974
Neðri deild: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hæstv. ráðh. fyrir svör við þeirri spurningu minni, sem ég bar fram varðandi sölu á loðnumjölinu og fyrirframsölu. Ég heyrði á orðum hans, að hann gerði sér fulla grein fyrir því, að þær upplýsingar, sem ég fór hér með, voru fengnar úr einu dagblaða Reykjavíkurborgar, blaðinu, sem þorir, málgagni Alþfl., og gott, að fyrir liggja upplýsingar, sem hann kom með, hæstv. ráðh., þótt ég sé ekki alveg sammála honum um, að það sé óæskilegt að selja mikið fyrir fram. Burtséð frá frosnum fiski og öðrum slíkum afurðum, sem við horfum aldrei fram á, hvað geti komið mikið upp af, þá hefur nokkuð verið áætlað á undanförnum árum með margra mánaða fyrirvara, hvað við getum fengið upp af þessum afurðum, sem fara í bræðslu, fara í mjölvinnslu og olíuvinnslu, og ég mundi halda persónulega, að það væri óvitlaust fyrir þjóðarbúið eða fyrir framleiðendur sjálfa að hafa nokkra vissu fyrir því, að ákveðið magn þeirra afurða væri selt á ákveðnu, föstu verði. En nóg um það, það er ekki til umr, hér.

Ég verð nú að láta í ljós — ekki undrun mína ég er hættur að undrast hæstv. ráðh., en þó að segja það, að bann bregður ekki vana sínum og sinni áráttu að reyna alltaf að skrökva nokkru til, að breyta nokkuð staðreyndum og láta þær vera í nokkuð öðru ljósi en þær eru í raunveruleikanum, eins og það að reyna að segja mér, að það séu sjómannasamtökin, sem hafi beðið hann og hæstv. ríkisstj. að samþykkja þetta samkomulag. Nú veit hann mætavel, að fulltrúar sjómannasamtakanna í verðlagsráði fjalla ekki um annað en verð á fiskafurðum. Þeir hafa ekkert með samninga þessara samtaka að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut, og í sjálfu sér hafa samninganefndir það ekki. Það eina, sem þær gera, er að semja um væntanlega samninga, sem síðan á að leggja fyrir félagsfundi í viðkomandi stéttarfélagi til samþykktar, og þá og fyrr ekki er orðið nokkurt mark á samningum takandi. Enda lá þetta dæmi ekki þannig fyrir nú, þótt hæstv. ráðh. vilji láta skína í annað. Þegar við í stjórn Sjómannasambands Íslands vorum kallaðir á fund, lá hér fyrir bréf frá hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. með þessari till., og það var till. ríkisstj., sem þarna var rædd, en hvorki till. frá fulltrúum í verðlagsráði né fulltrúum í samninganefnd. Hins vegar sögðust fulltrúar okkar í Sjómannasambandinu, sem eiga sæti í samninganefndinni varðandi bátakjarasamningana, vita um þessa till., og þeir lýstu fylgi sínu við hana. Mér kom ekkert á óvart, þótt félagar mínir fyrrum, sem voru með aðgerðunum undir miklu álagi fyrir 5–6 árum samþykktu þetta. Þeir voru sjálfum sér samkvæmir. Hins vegar kom mér það mjög á óvart, þegar fylgismenn hæstv. sjútvrh. og núv. hæstv. ríkisstj. voru með þessu, sem fellur beint undir það, sem þeir kölluðu þá, — og þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðh. að vera neitt að snúa út úr því, — sem þeir kölluðu þá þrælalög, breytingar á hlutaskiptum o.s.frv. En nóg um það.

Það mætti tala mjög langt mál um ræðu hæstv. ráðh, og furðulegar vangaveltur hans um, að með eðlilegri olíunotkun gæti ekkert svindl átt sér stað á bátaflotanum. Hann á að vita það sem útgerðarmaður um margra ára skeið, að það þarf ekki að bæta við mikilli orkunotkun á einni vél í stóru vélskipi, til þess að aukning geti orðið um nokkur tonn af olíu á sólarhring, þegar skipið er á mikilli keyrslu eða í mikilli notkun t.d. í togi, þannig að í sjálfu sér getur verið hægt að gefa upp miklu meiri olíueyðslu í einu skipi en það nauðsynlega þarf að nota. Hitt er svo annað mál, að ég tek ekki undir það með hv. þm. Stefáni Gunnlaugssyni, að ekki megi koma í veg fyrir misnotkun í sambandi við þetta með reglugerð, sem hlýtur að verða sett í sambandi við þessi lög. Náttúrlega er ákaflega erfitt, þegar skip er á vertið, að vera kannske búinn að fá olíu um borð og verða þá að skipa í land aftur mörgum tonnum af olíu til þess að hafa upp úr því kannske 2–3 kr. á hvern lítra, þegar í land er komið. Satt að segja, þótt væna megi Íslenska útgerðarmenn um margt, ætla ég ekki að gera það í sambandi við þetta.

Þá sagði hæstv. ráðh. m.a. að það væri ekkert tekið af sjómönnum, það væri aðeins tekið af því, sem væri sett í verðjöfnunarsjóð, en úr honum eiga þeir m.a. að fá til sinna skipta, þegar á þarf að halda. Og hann talaði um, að hann hefði eiginlega aldrei komið nálægt verðjöfnunarsjóðum nema til þess að setja í þá. En ég leyfi mér að rifja upp fyrir hæstv. ráðh. haustið 1971, þegar verðlag fór hækkandi, sem er þveröfugt við það, sem hann var að enda við að segja í sinni ræðu, þá fór verðlag hækkandi á erlendum mörkuðum, en þá tók hann líka úr verðjöfnunarsjóðnum til þess að hækka fiskverð. En það voru allt aðrar ástæður, sem lágu til grundvallar. Þær ástæður voru þá að skapa sér vinsældir í óvinsælli ríkisstj., sem er enn þá óvinsælli í dag. En ég er hræddur um, að þessi verðjöfnunarsjóður og aðrir, þótt þeir verði margfalt stærri, mundu aldrei duga til að auka vinsældir hæstv. ríkisstj., úr því sem komið er. En þetta er auðvitað alrangt hjá hæstv, ráðh. Það er verið að taka af óskiptum hlut skipsins til þess að flytja frá loðnuveiðunum yfir til annarra veiða til þess réttilega, eins og hann segir, að hækka fiskverð þar. Ég er ekkert að hafa á móti þessu. Ég lýsti því yfir, að ég væri sammála þessu og er sjálfum mér samkvæmur, en það er hæstv, ráðh. ekki, þótt hann reyni að láta skína í það núna, að hann hafi alltaf verið með því, að svona ætti að fara að. En það er alrangt. Hann var ekki með slíkum aðgerðum 1968 eða um áramótin 1968–1969. Það er langt frá því. En ég segi, að menn eigi að kannast við fyrri gerðir og viðurkenna, að þeir hafi öðlast frekari skilning á efnahagslífinu sjálfu hér á Íslandi og það geti verið nauðsynlegt að gera ráðstafanir sem þessar, að flytja til á milli atvinnugreina, þótt, eins og hæstv. ráðh. sagði, allir verði að viðurkenna það með honum, sem hann og viðurkenndi, að það sé ekki æskilegt. Auðvitað færi best á því, að þessi atvinnugrein, loðnuveiðarnar, ef sérstaklega vel gengi eitt ár, fengi sem aðrar, sem í því lentu, að njóta þess. En það er mjög sjaldan, sem það á sér stað hér á Íslandi. Það er þá helst í sjávarútvegi. En þá er líklega hönd ríkisvaldsins alltaf tilbúin til að grípa í taumana og binda féð eða taka í aðra þágu, hvernig sem á stendur.

Ég skal svo ekki orðalengja þetta meira, enda kannske ástæðulaust nema vegna forsendanna fyrir mig. Ég hef, eins og ég tók fram, lýst því yfir, að ég mun fylgja þessu frv. og tel, að það hafi verið rétt hjá hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. að velja þessa leið, þótt ég hins vegar hafi talið skylt að benda á þann mismun, sem hefur komið fram hjá þeim sömu mönnum, sem að þessu standa nú, — þann mun, sem nú er á afstöðu þeirra til efnislega sömu aðgerða, frá því, sem var fyrir 5–6 árum. Ég er alveg sammála honum, eins og við vorum í samtökum sjómanna, að það er óæskilegt, að það sé verið að draga mikið af flota, sem hefur stundað aðrar nauðsynlegar veiðar, m.a. til hráefnisöflunar fyrir fiskiðnaðinn allt í kringum land, til þess að fara á þessar á margan hátt áhættusömu veiðar. Hins vegar er það nú svo, að þetta er veiðimennska, þar sem hluturinn ræður. Þessir menn geta haft góðar tekjur í ár, og það getur komið langt árabil, þar sem þeir hafa litlar tekjur eða eru á tryggingu, eins og kallað er, kauptryggingu, eins og því miður hefur átt sér stað með stóran hluta flotans um langt árabil. Ég held hins vegar, að það sé ákaflega hæpið, þrátt fyrir það að við viðurkennum þessa staðreynd, að láta gamla máltækið um það, að skósmiðurinn eigi að halda sig við sinn leist, ráða í þessu sambandi. Ég held, að mennirnir verði að taka á sig þessa áhættu, ef þeir óska þess, en hins vegar þó með þeirri fullu gát, sem ég þóttist skilja af orðum hæstv. ráðh., sem hann talaði hér áðan, það verður að hafa gát á þessum veiðum, sem fyrst og fremst er fólginn í því, að þau skip, sem fá leyfi til veiðanna séu fær um það, auðvitað líka vegna öryggis þeirra sjálfra, en þó fyrst og fremst skipshafnarinnar.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, herra forseti. Ég endurtek aðeins það, sem ég hef þegar sagt, að ég mun fylgja þessu frv., eins og það hefur komið hér fram, þangað til það verður samþykkt sem lög frá Alþingi.