30.01.1974
Neðri deild: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. Ég vildi leiðrétta það, ef hv. 10. þm. Reykv. hefur skilið orð mín þannig að ég teldi það vera óæskilegt að selja framleiðslu fyrir fram, t.d. loðnumjölið. Það er mesti misskilningur. Ég er á því, að það væri miklu æskilegra að geta selt það fyrir fram. Hitt var ég að benda á, að við það búa hinar ýmsu greinar sjávarútvegsins og hafa búið jafnan áður að eiga þess ekki kost að selja fyrir fram allar sínar afurðir, svo að það er ekkert nýtt, þó að sá háttur hafi orðið á núna, að það er ekki búið að selja fyrir fram meira en raun er á orðin. Þetta var bara einhver misskilningur.

Í leiðinni vil ég svo segja það, því að það er svo gömul saga, að hann er að staglast á því, að sumarið 1971 hafi ég gert ráðstafanir til þess að taka fé úr verðjöfnunarsjóði. Það er alrangt. Hann á að fara að læra, hvað er rétt í þessum efnum. Það var ekkert tekið úr verðjöfnunarsjóði. Reglum var breytt þannig, að minna var greitt í verðjöfnunarsjóð en búið var að setja reglur um. Hann getur auðveldlega sannfærst um það með því að líta þar á greiðslutölur, að sjóðurinn hélt áfram að vaxa á árinu 1971, það var ekkert tekið úr honum. (Gripið fram í: Það óx minna.) Það er rétt, það var ákveðið, að það skyldi ekki renna eins mikið í sjóðinn, en hluti af því ganga til þess að hækka kaup sjómanna, og ætti síst að sitja á hv. þm. að finna að því. En það er rétt, þarna var um þessa tvo kosti að velja, þann, sem tekinn var, eða láta renna í mjög ríkum mæli fé í verðjöfnunarsjóð. Svo var sagt sí og æ og dag eftir dag og menn voru farnir að trúa þessum ósannindum Morgunblaðsins, að það hafi verið tekið fé úr sjóðnum, þó að aldrei hafi verið tekin ein króna úr honum, heldur aðeins breytt reglum þannig, að það hafi verið látið renna minna í sjóðinn en ráð hafði verið fyrir gert. (Gripið fram í.) Nei, þarna verða menn að gera mun á því, sem er rétt, og því, sem er rangt, og þegar þeir eru margbúnir að klifa á því, sem er ekki rétt, eiga þeir að játa það. Menn geta séð á greiðslutölum sem liggja fyrir, hvort sjóðurinn hefur haldið áfram að vaxa eða ekki, hvort eitthvað fór úr honum.

Svo er ég ekki að þræta við hv. þm., samherjar hans í sjómannasamtökunum hafa svarað um þessa samningagerð. Þeir neituðu algerlega að breyta hlutaskiptakjörum, en þeir samþykktu þetta, af því að þetta, sögðu þeir, er ekki að breyta hlutaskiptakjörum, enda er á þessu gífurlega mikill munur. (Gripið fram í: Að taka af óskiptu?) Já, taka af óskiptu? Hér er ekki um það að ræða. Hér var um að ræða að ráðstafa fé, sem átti að renna í verðjöfnunarsjóð. En ég ætla aðeins að segja það, að ég held, að þessi hv. þm. þurfi að kynna sér svolítið betur kjör sjómanna, ef hann heldur, að ráðstöfun eins og þessi jafngildi því að breyta hlutaskiptakjörum. Það er alveg furðulegt, ef hann heldur það. A.m.k. héldu fulltrúar sjómanna það ekki, sem stóðu í þessum samningum, þó að hann vilji nú láta sem svo sé. En það er mesti misskilningur.