30.01.1974
Neðri deild: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

192. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Á þskj. 339 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Stefáni Gunnlaugssyni, Bjarna Guðnasyni og Þórarni Þórarinssyni að bera frv. um breyt. á l. um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins nr. 27 frá 1968. Það var á þessu ári, 1968, sem gerð var breyting á þessum lögum, breyting, sem fól það í sér m.a. að ríkissjóður ætti ekki lengur prestssetur í þéttbýli, og þetta hefur verið framkvæmt í samræmi við lögin með þeim hætti, að þegar prestar hafa náð hámarksaldri og hætt prestskap hafa prestssetur þau, sem þeir hafa haft til umráða, verið seld og andvirði þeirra runnið í ríkissjóð.

Það frv., sem hér er borið fram, gerir ráð fyrir breyt. á þessu ákvæði l., þó þannig, að það er ekki gengið til baka, eins og l. voru fyrir þessa breyt., heldur felur frv., sem hér um ræðir, það í sér, að þegar prestssetur í þéttbýll eru seld, skuli andvirði þeirra, í stað þess að renna í ríkissjóð, renna í sérstakan sjóð, sem notaður skal til að veita þeim söfnuðum styrk, er sjálfir vilja tryggja sóknarprestum sínum húsnæði. Er þá gert ráð fyrir því, að þetta húsnæði verði í eigu safnaðarins. Sjóðurinn skal vera í vörslu fjmrn., en að öðru leyti skal kveða nánar á um meðferð hans í reglugerð.

Hér er um að ræða tiltölulega fáar húseignir á þéttbýlissvæðinu hér í Reykjavík og nágrenni. Þetta frv, er borið fram vegna tilmæla starfandi presta og ályktana, sem ráðstefnur þeirra hafa gert í þá átt að koma til móts við söfnuðina og það vandamál, sem skapast hefur vegna núgildandi l. fyrir presta og söfnuði.

Það þarf ekki að tíunda það hér, hversu mikilvægu hlutverki prestar gegna í okkar þjóðfélagi. Störf þeirra eru mjög sérstæð. Auk þess sem þeir halda uppi reglulegu kirkjustarfi, eru þeir vissir tengiliðir milli kirkjunnar og fólksins í viðkomandi prestaköllum. Þeir reyna að leysa úr félagslegum erfiðleikum og vera í persónulegum tengslum við fólkið, átta sig á vandamálum þess og leysa úr þeim eftir bestu getu. Þeir eru, má segja, félagslegir ráðunautar og vinna með þeim hætti störf, sem í vaxandi mæli eru viðurkennd í okkar þjóðfélagi.

Eins og lög gera ráð fyrir, er eðlilegt, að prestar séu búsettir í þeim umdæmum, í þeim prestaköllum, þar sem þeir gegna embætti. Að því eru hins vegar nokkur brögð, að viðkomandi prestum gengur illa að koma sér upp slíku húsnæði í viðkomandi prestaköllum og þurfa að standa í venjulegum húsakaupum, afborgunum og fjárhagserfiðleikum, sem því fylgja, eins og gengur og gerist, og sjálfsagt og eðlilegt er, að prestar gangi undir það jarðarmen eins og aðrir þjóðfélagsþegnar. En þó er vissulega augljóst, að þetta veldur þeim erfiðleikum og tekur meiri tíma en góðu hófi gegnir frá þeirra mikilvæga starfi í þágu safnaðarins. Þess vegna er sú ósk eðlileg frá söfnuðum, að þeir geti komið til móts við prestana með því að aðstoða þá við slík húsakaup og hjálpað þeim til þess að setjast að í viðkomandi prestakalli. Söfnuðirnir vilja aðstoða presta sína í þessum efnum og það er sjálfsagt, að Alþingi taki til athugunar og vinsamlegrar meðferðar þessa ósk. Kirkjusöfnuðir vinna gott starf, vinna starf sitt í kyrrþey, en víða, eins og flestum er kunnugt, er unnið þar öflugt starf, þar sem fólk leggur drjúgt af mörkum til þess að reyna að bæta umhverfi sitt og sambúð manna á meðal.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv. Það felur ekki í sér veruleg útgjöld af hálfu ríkissjóðs. Í stað þess að andvirði þeirra prestssetra, sem seld eru, gangi beint í ríkissjóð, er sem sagt gert ráð fyrir því, að það gangi í sérstakan sjóð. Það .er ekki tekið neitt fé úr ríkissjóði, heldur á það fjármagn, sem er í þessum fasteignum fólgið í dag, að ganga áfram til safnaðanstarfa og til kirkjunnar beint eða óbeint.

Frv. þetta er flutt, eins og fyrr segir, að beiðni safnaða og presta, sem hagsmuna hafa að gæta, og það er vilji okkar flm., að þessi ósk sé tekin til athugunar hér á þingi.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni 1. umr. sé máli þessu vísað til 2. umr. og hv. allshn.