30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

20. mál, framhaldsnám hjúkrunarkvenna

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans. Mér skilst, að það, sem hefur valdið því, að hjúkrunarkonur eða hjúkrunarliðar fengu ekki strax aðgang að námsbrautinni við háskólann, hafi verið reglur eða lög Háskóla Íslands, og til þess að svo geti orðið, sé nauðsynlegt að breyta þessari löggjöf. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að verið sé að vinna að því að undirbúa frv. um slíkar breytingar á háskólalögunum, og hann taldi líklegt, að till. um það efni mundu vera tilbúnar innan skamms. Ég legg áherslu á, að þessu verði hraðað, og alveg sérstaka áherslu á, að frv. um þetta efni verði afgr. á yfirstandandi þingi. Ef einhverjar tafir verða á því hjá háskólanum að undirbúa slíkt frv. og leggja það fram, þá geta að sjálfsögðu aðrir gert það hér á Alþingi. Ég trúi ekki öðru, þegar litið er á pallana í dag, en það muni vera hægt að fá stuðning þm. við slíkt mál.