31.01.1974
Sameinað þing: 49. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

121. mál, z í ritmáli

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hafði alls ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr., en það er erfitt að sitja undir því, þegar því er haldið fram hér á Alþ. af mönnum, sem láta íslensku mjög til sín taka, að það sé einungis til að skemma tilfinningu unglinga fyrir móðurmálinu að reyna að brjóta nokkuð til mergjar uppruna þess, hvernig málið er uppbyggt, setningaskipan og annað þar fram eftir götunum. Og ég verð að segja það, að þessi nýja stefna, sem farið er að bera æ meira á hjá þeim mönnum, sem hafa mikil áhrif á íslenskukennsluna í skólunum, er þegar búin að verða til mikils tjóns fyrir málsmekk þeirra, sem hafa orðið við þetta að búa.

Það er alveg rétt hjá hv. 6. landsk. þm., að það má kalla það málfræðistagl, þegar verið er að burðast við að kenna málfræði Björns Guðfinnssonar þeim nemendum, sem haldnir eru miklum námsleiða og hafa alls engan áhuga á móðurmáli, og hygg ég raunar, að þessi námsleiði muni einnig koma fram hjá mörgum þeirra, þótt reynt yrði að breyta til um málfræðibók. En kjarninn er ekki sá, að það er ekki vegna þess, að málfræðistaglið út af fyrir sig sé óheppilegt og óæskilegt í skólum, heldur er það vegna þess, að menntmrn. og yfirmenn fræðslumála á Íslandi hafa alveg látið undir höfuð leggjast að skrifa almennilega kennslubók í íslensku á gagnfræðaskólastigi. Ástandið í þeim efnum er þannig, að á s.l. vori dæmdi landsprófsnefnd í íslensku skakkt svar, sem orðrétt var tekið upp úr kennsluhókinni, með þeim ummælum, að kennararnir hefðu átt að leiðrétta kennslubókina. Þetta gat ráðið úrslitum um það, að ég hygg, að barn gæti fallið á landsprófi, að það lærði það, sem stóð í bókinni. Það er náttúrlega ekki von á góðu, þegar þannig er að staðið. Og kennararnir höfðu enga möguleika á því að fylgjast með því, þegar farið var yfir prófverkefnin, af því að kennararnir voru úti á landi, og þeir, sem voru úti á landi, fengu ekki að fara yfir prófverkefnin með yfirnefndinni, eins og þeir fengu, sem búsettir voru í Reykjavík, með þeim afleiðingum m.a. ,sem er til mikillar vansæmdar fyrir íslenskt skólakerfi, að nemendur, sem búið var að útskrifa s.l. vor frá skólum úti á landi, fengu tilskipun um það síðar um sumarið, í ágúst eða svo, að þeir hefðu fallið á prófinu, þótt skólinn væri búinn að útskrifa þá. Sjónarmið kennaranna, sem útskrifuðu þá, og stjórnskipaðs prófdómara, sem gaf þeim einkunnina, fengu ekki að koma fram.

Ég vil jafnframt mótmæla því og það er alls ekki rétt, að z hafi ekkert upprunagildi. Það, sem hefur upprunagildi, er að velta fyrir sér uppruna orðanna. Það er sú hugsun og sú vinna, sem fer í það að kryfja til mergjar, hvernig orðin eru hugsuð, hver merking þeirra var upphaflega, hver er rót orðsins, hver er stofn orðsins og þar fram eftir götunum, viðskeyti, forskeyti, ending o.s.frv., sem ég skal ekki fara út í hér. En ég get nefnt stöku orð sem dæmi um þetta, að stundum hefur það meira upprunagildi, að það sé ekki skrifuð z, eins og í orðinu gróska, sem vekur menn til umhugsunar um það, að rótin í orðinu grænn er gró, og við getum þar myndað æ til að gleðja hæstv. menntmrh., þannig að það sé skrifað æ með upprunanum ó. Má raunar geta þess, að það er mikil afturför hjá Búnaðarbankanum, og ég vil nú biðja samþm. minn í Norðurl. e., formann bankaráðsins, hv. 3. þm. Norðurl. e. (Gripið fram í: Hann er ekki við.) hann les kannske þingtíðindi, — hvort hann gæti beitt sér fyrir því, eins og var í fyrstu reikningum Búnaðarhankans, þá voru alltaf skrifuð tvenns konar æ eftir uppruna og mætti kannske taka það upp að nýju. Ég ætla að reyna að muna að hafa orð á þessu við hann og gá, hvort það sé ekki hægt að ná samkomulagi um þetta.

Ég er þeirrar skoðunar, að með þeirri niðurstöðu, sem hefur fengist, þegar z-an var felld niður núna, sé alls ekki búið að leysa öll vandamál. Það er gersamlega rangt hjá hv. 6. landsk. þm. og öðrum, sem halda, að öll vandamál séu leyst bara með því að fella niður z-una, því að það skapast önnur vandamál í staðinn, eins og við sjáum, þegar við skrifum orðið „styst“ núna. Það er orðið hálf kollhúfulegt, þetta fallega orð, sem áður var, og sú lausn, sem fundin er, er ekki góð. Ég spurði t.d. forvera minn hér á þingi, Bjartmar Guðmundsson, sem hér var inni áðan: Hvernig skrifar þú orðið „hefur flust“? En hann lærði ekki z í sinni tíð, ungur maður, og hann skrifar það fluttst. Nú er þetta skrifað samkv. nýju reglunum flust, svo að Bjartmar fellur enn ekki inn í kerfið og tekst það sennilega ekki. En sem sagt, ég stóð aðallega upp til að ræða um uppruna. Við megum ekki gera of lítið úr því að velta fyrir okkur uppruna tungunnar og samhengi.

Ég vil jafnframt taka undir það, sem almennt hefur verið sagt um nauðsyn þess að efla málþroska nemenda, reyna að fá þá til þess að fást við bókmenntalegar hugleiðingar og þar fram eftir götunum. En ég játa, að það getur verið pínulítið erfitt að kenna þessi fræði í skólunum, þegar ekki liggur fyrir t.d. skilgreining fræðsluyfirvalda á þeim bókmenntalegu hugtökum, sem okkur er ætlað að kenna. Ég tek sem dæmi: Hvað ætli margir íslendingar viti muninn á því í skáldskap, hvað er viðlíking og hvað er samlíking o.s.frv. í bókmenntum? Ég hygg, að sumir hér hafi aldrei heyrt nefnda viðlíking áður. Ég heyrði það fyrst núna í sept., algerlega af tilviljun. Ég hef hvergi séð þetta skilgreint eða um það fjallað.

En annað mál er svo það, og það ætla ég að segja að lokum, að ég hvet hæstv. menntmrh. mjög til þess að flýta endurskoðun Íslenskukennslunnar. Ég met það mikils, að hann hefur lagt sig fram um að reyna að koma þeim málum í betra horf. Það má að sjálfsögðu deila um það, hvað rétt sé og hvað sé rangt. En það er áreiðanlega nauðsynlegt, að þessi mál séu tekin til skjótrar og góðrar endurskoðunar og gefnar út nýjar og betri kennslubækur í Íslensku, — það er mjög mikið atriði, — og ef niðurstaðan verður sú að hætta við z-una, þá að gefa út almennilegar kennslubækur um það eða greinar um það, hvernig ekki skuli rita z, en það er nú aðeins til í Stjórnartíðindum. Ég veit ekki, hvort allir kennarar kunna það. Það væri kannske skemmtilegt að smala þeim saman og láta þá prófa að skrifa ekki z og sjá, hve margir stæðust prófið.