31.01.1974
Sameinað þing: 49. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

122. mál, nýting jarðhita

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Orkumál hafa verið mjög á dagskrá um allan heim að undanförnu. Ástæðan fyrir því eru þær aðgerðir, sem siglt hafa í kjölfar deilna þjóðanna fyrir botni Miðjarðarhafsins. Olíuframleiðsluríkin hafa gripið, eins og það hefur verið orðað, til olíuvopnsins, og má segja, að það hafi komið við allan heim, svo voldugt sem það er. Þetta ástand hefur að sjálfsögðu haft mikil og óhagstæð áhrif á þjóðarbúskap hinna ýmsu ríkja, þar sem um takmörkun á sölu olíu hefur verið að ræða, auk þess sem á verði hennar hefur orðið mikil hækkun. Verst hefur þetta þó komið við þær iðnaðarþjóðir, sem eingöngu nota olíu sem orkugjafa, og ekki er enn séð út yfir þær afleiðingar, sem þetta kann að hafa. Vissulega hefur olían verið þýðingarmikill orkugjafi og færri þjóðir eignast þær olíulindir en vildu. En eftir því sem tækninni hefur fleygt fram, hefur manninum tekist að framleiða orku frá öðrum orkulindum, sem hafa þá verið tiltölulega auðbeislaðar, en vegna kostnaðar mjög hægt í framkvæmdir farið. En fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott, segir Íslenskur málsháttur, og er vonandi, að svo verði nú í þessu tilfelli, þegar til lengdar lætur, ef réttar ályktanir eru dregnar af þessum atburðum og brugðist við í samræmi við það.

Vonandi verður olíuskorturinn og hækkun á heimsmarkaðsverði hráolíu til þess, að við hyggjum betur að okkur, gerum okkur grein fyrir öðrum leiðum til orkuöflunar og leggjum í ríkari mæli áherslu á framkvæmdir þar að lútandi, þannig að hér verði um stundarfyrirbrigði að ræða, sem verður til góðs í næstu framtíð.

Á þskj. 150 hef ég ásamt 8 hv. þm. flutt till. um hröðun rannsókna og framkvæmda við nýtingu jarðhita sem þýðingarmikillar leiðar til þess að leysa að hluta til það mikla vandamál, sem risið hefur hjá okkur Íslendingum vegna olíustríðsins, ef svo má að orði komast. Aðrar till. hafa og verið fluttar á þessu þingi um ákveðnar leiðir til úrbóta, og vil ég þar nefna till. á þskj. 54 frá hv. varaþm. Braga Sigurjónssyni o.fl. og þáltill. þeirra hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugs Gíslasonar, og hv. 2. þm. Vesturl., Jóns Arnsonar.

Till. á þskj. 150 fjallar eingöngu um aukna jarðhitanýtingu, enda munu fáar framkvæmdir hafa gefið þjóðinni jafnmikið í aðra hönd og hitaveituframkvæmdir. Sú geigvænlega hækkun, sem nú er orðin og verður á næstu víkum á olíu, mun auka svo á aðstöðumun landsmanna eftir því, hvort þeir búa á hitaveitusvæðum eða ekki, að næsta ótrúlegt er, og sá aðstöðumunur kallar á allar hugsanlegar aðgerðir til að snúa þessu dæmi við. Ég vil með nokkrum tölum vekja athygli hv. alþm. á því, hverjir fjármunir hér eru í húfi og hver kostnaðarauki þeirra verður, sem ekki búa við upphitun híbýla sinna með heitu vatni.

Fram til ársins 1973 var kostnaður við upphitun húsa frá hitaveitum talinn vart meiri en 40% af kostnaði við upphitun þeirra með olíu. Ef gert er ráð fyrir 90% hækkun á olíu, þ.e.a.s. úr 5,80 í 11 kr. lítrinn, og um 30% hækkun á þeirri gjaldskrá, sem gilti hjá Hitaveitu Reykjavíkur fyrir áramót, lækkar þetta hlutfall niður í 26–27%. Þetta er það dæmi, sem tekið er í grg. með þessari þáltill., en það er reiknað út í desembermánuði, þegar gert var ráð fyrir því, að olíuverð mundi hækka í um það bil 11 kr. lítrinn eða um 90%. M.ö.o.: miðað við það verð, þá verður kostnaðurinn liðlega hluti af því, sem hitunarkostnaðurinn verður hjá þeim aðilum, sem nota ollu til húsahitunar.

Ég gat um það, að þeir útreikningar, sem í grg. eru, eru gerðir í des. og þá byggðir á því, að olíuverð hækki um 90%. Samkv. nýjustu upplýsingum mun gert ráð fyrir því, að olía til húsahitunar muni kosta að 2–3 mánuðum liðnum ekki minna en 12,50 kr. jafnvel 12.70 kr. lítri. Lækkar þá hlutfallið enn, og mun hitunarkostnaðurinn með heitu vatni þá verða vart meiri en 22–23% miðað við hitun með olíu.

Ekki er ósennilegt, þegar þessar tölur eru athugaðar, að skoðað sé, hver sé sparnaður hjá stærsta hluta þjóðarinnar, sem býr við hitaveitu, þ.e.a.s. Reykvíkingum, árið 1973, áður en sú hækkun varð á olíu, sem ég hef nú getið um, og svo aftur miðað við það olíuverð, sem gert er ráð fyrir, að verði á næstunni, og sparnaðurinn 1974 þá skoðaður á ársgrundvelli.

Miðað við árið 1973 er gert ráð fyrir, að hitunarkostnaður Reykvíkinga verði 450 millj. kr. í stað þess, að hefðu þeir notað olíu, hefði hann orðið 1130 millj. Reykvíkingar munu því hafa sparað á árinu 1973 680 millj, kr. Gert er ráð fyrir því, að sparnaður þessi nemi á hverja fjögurra manna fjölskyldu 23 þús. kr. árið 1973. Í grg, er borin saman hækkun á olíu miðað við 11 kr. verðið á olíulítra og 30% hækkun á gjaldskrá Hitaveitu Reykjavíkur. Þá kemur í ljós, að sparnaður Reykvíkinga mundi hafa orðið um 1565 millj. kr. á ársgrundvelli eða um það bil 50 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Ef við ennfremur gerum okkur grein fyrir því, hver sparnaðurinn hefði orðið hjá Reykvíkingum miðað við 12.50 kr. lítrinn, kemur í ljós, að um er að ræða upphæð, sem nemur 1900 millj. kr. eða nærri 60 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Eins og kunnugt er, eru hitaveituframkvæmdir ráðgerðar í nágrannabyggðarlögum Reykjavíkur, þar sem búa um 25 þús. manns. Unnið er að hitaveiturannsóknum á Suðurnesjum og fyrir Akranes, í byggðarlögum, sem hafa 15 þús. íbúa. Er vonandi, að ekki verði þess langt að bíða, að um 40 þús. manns fái hitaveitu til viðbótar við Reykvíkinga til upphitunar híbýla sinna. En hvað skyldi það kosta á 40 þús. Íslendinga, sem nú bíða eftir hitaveituframkvæmdum árlega? Jú, það eru um 750 millj., sem þessi byggðarlög greiða á ári, á meðan þau hafa ekki fengið hitaveitu til sín, eða um 60 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Ef við reiknum þetta dæmi áfram og gerum okkur grein fyrir því, hversu margir Íslendingar búa við upphitun híbýla sinna með olíu, kemur í ljós, að þeir eru rúmlega 100 þús., 101 þús., og það eru þeir, sem verða að taka á sig nú alla þá olíuhækkun, sem átt hefur sér stað og mun eiga sér stað á næstu mánuðum. Þessa hækkun fá þessir aðilar að engu leyti bætta, því að kaupgjaldsvísitalan mælir ekki nema að litlum hluta olíuverðshækkun. Grundvallarþáttur fram færsluvísitölunnar vegna hitunarkostnaðar er byggður á hitunarkostnaði Reykjavíkurborgar, þ.e.a.s. gjaldskrá Hitaveitunnar. Það er eins og hefur verið komist að orði, vísitölufjölskyldan býr í Reykjavík og notar hitaveitu til upphitunar heima hjá sér, enda þótt staðreynd sé, að helmingur landsmanna, eins og ég gat um áðan, noti olíu til húsahitunar. Hvaða byrðar er þá verið að leggja á helming landsmanna í krónutölu með þeirri olíuhækkun, sem nú hefur átt sér stað? Er reiknað með því, að notaðir séu 1973 til húsahitunar á milli 170 og 190 millj. litrar af olíu og miðað við hækkun úr 5.80 kr. í 12.50 kr., er um að ræða töluvert á annan milljarð kr., sem er verið að leggja á þá landsmenn, sem nota olíu. Ef nú allt þetta fólk hefði hitaveitu eða rafmagn með gjaldtaka í samræmi við hitaveitugjöld, mundi sparnaður þess verða á 3. milljarð kr., þannig að sparnaður allrar þjóðarinnar, ef hún nyti hitaveitu, væri rúmir 4 milljarðar kr., og það er sú tala, sem fjárlög ríkisins 1973 lögðu á landsmenn í tekjuskatti. Á fjárl. 1973 var áætlaður tekjuskattur 4 milljarðar 116 millj, kr.

Ég hef vakið athygli á þeim gífurlegu fjármunum, sem hér eru í húfi fyrir íbúa landsins. Hitunarkostnaðurinn á ársgrundvelli miðað við hækkun úr 5.80 kr. í 12.50 kr. mun aukast um 1300 millj. kr., og ef hitaveita væri hjá öllum lands;m,önnum, væri sparnaður þeirra rúmlega 4 milljarðar. Mun þá sá sparnaður nema á milli 70 og 80 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þegar þessar tölur eru skoðaðar, verður enginn undrandi, að málum þessum sé hreyft og á það bent, hversu þungar búsifjar hljótast af hjá þeim rúmum helmingi þjóðarinnar, sem ekki nýtur jarðvarmans.

Ekki verður hjá því komist að taka mál þetta föstum tökum og leysa aðsteðjandi vanda þessa fólks, auk þess sem þessir atburðir gera kröfu til Alþ. og ríkisstj., að nú þegar geri menn sér grein fyrir framtíðaráformum í þessum efnum, þannig að allir Íslendingar geti notið innlendrar orku til upphitunar og að við gerum allt til þess að hraða þeim framkvæmdum.

Það er kunnugt, að fjölmenn byggðarlög gera sér nú vonir um, að þessu ástandi linni mjög bráðlega. Er hér um að ræða Kópavogskanpstað, Hafnarfjarðarkaupstað, Garðahrepp, Akraneskaupstað og byggðarlögin suður á Reykjanesi. Sérstöðu hafa þó byggðarlögin í nágrenni Reykjavíkurborgar, þar sem samningar hafa verið gerðir eða eru komnir á lokastig við Hitaveitu Reykjavíkur um, að fyrirtækið annist þær framkvæmdir. Þegar þeim framkvæmdum verður lokið, bætast um 25 þús. manns í hóp þeirra, sem njóta jarðhita til upphitunar.

Á Reykjanesskaga búa um 10 þús. manns. Undirbúningur hefur verið allmikill, og þar má ætla, ef lögð verður á það áhersla, að öllum undirbúningi verði lokið á þessu ári og hægt að hefja framkvæmdir á því næsta. Fyrir 3. umr. fjárl. átti ég viðræður við iðnrh. svo og ýmsa fjvn: menn um vandamál aðila þar syðra. Niðurstöður urðu þær, að í heimildagr. fjárl. er Orkusjóði veitt heimild til lántöku vegna þessara framkvæmda, þannig að þeim yrði unnt að ljúka á þessu ári. Akraneskaupstaður með yfir 5 þús. íbúa bíður eftir niðurstöðum af rannsóknum hjá Leirá í Borgarfirði. En ekki langt frá Akranesi, að vísu nokkra tugi km, kemur úr iðrum jarðar meira heitt vatn á einum og sama stað en nokkurs staðar annars staðar, sennilega í viðri veröld. Á ég þar við Deildartunguhver, sem talinn er gefa tæpa 200 litra á sekúndu, en til samanburðar má geta þess, að Hitaveita Reykjavíkur fær úr öllum sínum borholum á umráðasvæði hennar um 600–700 lítra á sekúndu. Af þessu má sjá, hversu fjölmennum byggðarlögum Deildartunguhver gæti orðið til hagsbóta, og vissulega er vonandi, að ekki liði á löngu, þar til það mikla vatn verði beislað til handa þeim byggðarlögum í Borgarfirði, sem geta hagnýtt sér þennan hver.

Í þessum byggðarlögum er, eins og ég sagði áðan, töluverður munur á, hvernig staðan er. Nágrannabyggðir Reykjavíkur vonast til þess, að þeirra vandamál verði leyst á næstu árum. Það er þó þannig, að ekki hefur enn verið hægt að hefja framkvæmdir, enda þótt öllum undirbúningi af hálfu Hitaveitu Reykjavíkur sé lokið. Mér er kunnugt um, að þegar hafa verið boðnir út tveir áfangar af hitaveituframkvæmdum í Kópavogi og tveir áfangar af hitaveituframkvæmdum í Hafnarfirði. En þar sem ekki hafa verið teknar grundvallarákvarðanir á hinum æðstu stöðum, þ.e.a.s. heimild til Hitaveitu Reykjavíkur til lántöku, svo og um breytingar á gjaldskrá, hefur enn ekki verið hægt að ráðast í umræddar framkvæmdir.

Mér hefur verið tjáð, að í fyrramálið muni verða fundur í hinni svokölluðu langlánanefnd, þar sem beiðni Hitaveitu Reykjavíkur um lántöku vegna þessara framkvæmda verður tekin til afgreiðslu og vonandi með meðmælum til ríkisstj. um að veita umbeðna heimild. Mér hefur jafnframt verið tjáð, að Verkfræðiskrifstofa Sigurðar Thoroddsens, sem í desembermánuði var beðin um að taka til athugunar, hvort hægt væri að flýta þeim framkvæmdum, sem gert er ráð fyrir samkv. samningum Hitaveitu Reykjavíkur, Kópavogskaupstaðar og Hafnarfjarðar, hafi lýst áliti sínu, þó ekki skriflega, en munnlega, að þeir samningar verði gerðir þannig, að mesti hraði verði viðhafður, sem unnt er.

Í des., eða sama dag og þessi till. var lögð fram á Alþingi, ritaði hæstv. iðnrh. bréf til Seðlabankans, svo og til Verkfræðiskrifstofu Sigurðar Thoroddsens, þar sem hann óskaði eftir athugunum og till. þeirra um að hraða sem mest mætti þeim framkvæmdum, seni hér hafa verið til umr. Það eru nú liðnir tveir mánuðir síðan, og ég átti von á því, að hæstv. iðnrh. væri hér viðstaddur í dag, en svo er ekki. Ég hafði hugsað mér að beina til hans spurningum varðandi niðurstöður af þessum bréfum, sem hann ritaði, svo og langaði mig til þess að beina spurningum til hans, hvenær búast mætti við, að ríkisstj. tæki ákvarðanir í sambandi við beiðni Hitaveitu Reykjavíkur um lántöku og varðandi þá gjaldskrárhækkun, sem farið var fram á fyrir nokkrum dögum af borgarstjórn Reykjavíkur vegna Hitaveitunnar. Ég vildi því mælast til við forseta, að athugað yrði, hvort ráðh. væri hér í húsinu og gæti nú svarað þessum fsp., og mun því gera hlé á ræðu minni, þar til séð verður, hvort ráðh. er hér viðstaddur eða ekki.