31.01.1974
Sameinað þing: 49. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

133. mál, áætlunargerð um verndun gróðurs

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hv. þm. Jónas Jónsson gat þess í sambandi við þetta mál, að milliþn., sem starfað hefur s.l. 2 ár, hefur nú lokið álitsgerð, en sú n. átti að fjalla um landgræðslu og gróðurnýtingarmál, gera tilraun til þess að semja landgræðslu- og gróðurnýtingaráætlun fyrir landið.

Ég geri mér vonir um, að þetta nál. geti komið út prentað í næsta mánuði, og n. hefur raunar þegar tilkynnt hæstv. landbrh., að hún hafi lokið störfum. Ég geri mér einnig vonir um, að efni þessa álits komi fyrir hv. Alþingi í vetur í einhverju formi og þá sem landgræðslu- og gróðurnýtingaráætlun fyrir næsta ár. Ég vil enn fremur leyfa mér að vænta þess, að þetta mál verði valið sem fundarefni á hátíðafundi þeim, sem Alþingi mun halda á Þingvallahátíðinni í sumar, 28. júli. Um það hafa ekki verið teknar neinar ákvarðanir, en þetta hefur komið til orða, eins og margir hv. þm. vita, og ég vona einlæglega, að þetta stórmerka mál verði fyrir valinu og þá þannig, að um þessi efni verði gerð tímamótaákvörðun nú í sambandi við hátíðahöldin.

Áætlunin er að sjálfsögðu í mjög stórum dráttum. En hún er unnin í framhaldi af upplýsingasöfnun víðs vegar um landið, því að n. fór þess á leit við gróðurverndarnefndir og búnaðarsambönd um allt landið, að þessir aðilar gerðu sameiginlega úttekt á ástandi þessara mála í sínum héruðum. Þessar álitsgerðir, sem bárust hvaðanæva, voru margar mjög vel gerðar og báru vott um mikinn áhuga og þekkingu, eins og líklegt var. Þessar álitsgerðir eru grundvöllurinn að verki nefndarinnar.

Ég er að segja frá þessu hérna vegna þess, að það gæti verið ávinningur að því fyrir hv. þm. að vita um þessar hugleiðingar og á hverju er von í þessu efni á næstunni og þá ekki síst þá n., sem fær þessa þáltill. til meðferðar. Í þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að gerð verði áætlun fyrir eina sýslu um framkvæmdir í þessum efnum. Þetta getur að sjálfsögðu mjög vel komið til greina og yrði þá eins konar útfærsla á heimildaráætlun, ef að því ráði verður horfið að koma henni í framkvæmd. Það er í nál., sem við höfum undirbúið, nokkuð um það fjallað, hvernig ætti að standa að framkvæmd þessara mála og koma á samvinnu á milli þeirra stofnana, sem að framkvæmdinni hlytu að vinna. Ég fer ekkert út í það hér, vegna þess að ætlun mín var ekki að gefa upplýsingar um einstök atriði álitsins. Það er skynsamlegt, að þau komi fram um leið og hún birtist í heilu lagi. Erindið í ræðustólinn var eingöngu að leggja áherslu á það, að á þessu er von, og að stinga upp á því, að n., sem fær þetta mál til meðferðar, sem hér er flutt, skoði það í sambandi við nál. okkar.

Eins og ég tók fram áðan, eru það einvörðungu mjög stórir drættir, sem koma inn í þessa heildaráætlun. Verkefnum er ekki raðað í henni. Að sjálfsögðu yrði í framkvæmdinni að raða verkefnunum, og þá yrði að taka til athugunar öll þau svæði, sem koma til greina, í hvaða héruðum sem þau eru, og raða þessu saman. En þá geta svæðaáætlanir að sjálfsögðu komið til greina, ekki síst fyrir þau svæði, þar sem framkvæmdir verða að vera miklar.

Ég fer ekki lengra út í þetta núna, en ég held, að óhætt sé að segja, að flutningur þessa máls og allur málflutningur þeirra, sem talað hafa hér við þessa umr., er mjög í sama anda og ríkt hefur í milliþn. og mun koma fram, þegar álitið birtist.