31.01.1974
Sameinað þing: 49. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

133. mál, áætlunargerð um verndun gróðurs

Flm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég gat þess hér fyrr við þessa umr. um þáltill. mína um gróðurverndaráætlun í Árnessýslu, að ég mundi ekki tala hér aftur, nema sérstakt tilefni gæfist. Ég vil þakka þeim hv. þm., sem tekið hafa til máls um þetta málefni, þær jákvæðu undirtektir, sem það hefur fengið í þeirra máli. En vegna orða þeirra í ýmsu falli hefur það rifjað upp fyrir mér hluti, sem ég hef ekki komið nægilega vel inn á og vildi gjarnan leggja þyngri áherslu á, svo og vissar athugasemdir, sem ég óska að koma á framfæri.

Hv. 2. þm. Sunnl., Ágúst Þorvaldsson, tók mjög jákvætt undir þessa till., en benti á, að ég hefði naumast farið nægilega út í ýmsa þætti landeyðingar, sem yrði á landi, og benti þar sérstaklega á þá spillingu, sem verður af vatnsföllum. Það er rétt, að ég gerði það ekki að neinu stóru atriði í mínum málflutningi, heldur minntist á það lítilsháttar, einkum í sambandi við tvö sveitarfélög, sem ég gerði að umræðuefni. Það var um Hrunamannahrepp, þar sem ég gat um, að þar yrði nokkur gróðureyðing vegna landbrots við Stóru-Laxá. Á sama hátt gat ég þess við Gnúpverjahrepp, að þar er nokkuð mikið landbrot við Þjórsá, sem vitaskuld hefur þýðingu í þessu efni. En eins og hann gat réttilega um, eru nú hafnar aðgerðir til þess að hefta landbrotið í Þjórsá og fengið til þess nokkurt fjármagn, og vonir standa til, að fyrir það verði tekið á þeim stað. Hins vegar er það viða með Þjórsá, niðri á flatlendinu bæði á Skeiðum og eins niðri í Flóa, sem er mjög alvarlegt landbrot af þessum sökum og ég vil gjarnan leggja á það þyngri áherslu, að að því máli verði líka hugað í tillögugerðinni.

Hv. 4, þm. Norðl. e., Jónas Jónsson, var einnig jákvæður í sinni ræðu, þótt hann leitaðist við að finna einhver atriði í mínu máli og till., sem hann teldi sig þurfa að svara eða hafa andsvör við. Það var ekki veigamikið, sem hann fann í þessu efni. Eitt af því, sem hv. þm, furðaði sig á og tíndi fram, var, að það skyldi ekki koma fram í máli mínu, að gróðurnýtingarnefnd væri til og hefði starfað og mundi bráðum skila áliti. Ég held, að það þurfi engan að furða á því, þótt ég gerði það ekki sérstaklega að umræðuefni, þótt ég hins vegar vissi mætavel, að nefnd hefði verið starfandi um tveggja ára skeið til að sinna þessu málefni. Mér er einnig ljóst, að n. skipuðu hinir mætustu menn, sem mátti vænta góðra till. frá. En þegar tillit er tekið til þess, að engin skýrsla hefur birst frá þessari n. ennþá, og það er athugað einnig, að liðnir eru fullir tveir mánuðir, síðan ég lagði fram mína till., þótt hún hafi ekki komið til umr. fyrr, þá þarf engan að undra á því, þótt ég gerði ekki að umræðuefni það, sem þá n. varðaði, ekki síst fyrir það, að ég vissi ekki til, að nál. væri að vænta, né heldur að ég hefði hugmynd um, hvað í því nál. fælist. Hins vegar þykist ég vera að gera hér till. um málefni, sem ekki þolir bið, og ég get ekki heldur með neinu móti látið mér detta í hug, að sú tilhögun, sem ég geri hér till. um, geti á neinn hátt beinst gegn starfi þeirrar gróðurnýtingarnefndar, sem verið hefur að starfi, enda var það fyllilega sannað af þeim orðum, sem hv. 1. þm. Austf. viðhafði hér áðan. Hann kærði sig ekki um á þessu stigi að gefa upplýsingar um, hvað í nál. fælist, en tók jákvætt undir mínar till., þótt hann hefði við orð, að eðlilegt væri að skoða þessar till. í einu. Ég hef síst við það að athuga, svo framarlega sem þær eru það snemma á ferðinni, að það dragist ekki úr hömlu að vinna að því að koma fram þeim till., sem ég hef hér flutt.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. minnti á það, að sveitarsjóðir ýmsir hefðu haft mikinn kostað eða lagt fram fjármuni til þess að vinna að landbótum, og það er alveg rétt. Það mun sjálfsagt ekki hafa komið nægilega fram í mínu máli, að af þeirra hendi hefðu verið unnin veruleg verk í þessu efni. Ég lagði meiri áherslu á það starf, sem áhugamannafélög hafa lagt fram og ég taldi, að þyrfti að nýta. Það, að ég gerði ekki jafnmikið úr því að minna á sveitarsjóðina í þessu efni, stafar af því, að ég gerði sérstaka till. um, að sú n., sem skipuð yrði til þessara hluta, starfaði í nánum tengslum við viðkomandi sveitarstjórnir. Það gerði ég till. um vegna þess, að ég veit, að það er áhugi fyrir því í öllum sveitarstjórnum í Árnessýslu, sem ég þekki nokkuð náið, að leggja fram fé til þessara mála. Og ef dæma má af því, sem gerst hefur s.l. ár, hygg ég, að sveitarsjóðir í Árnessýslu hafi varið til sáningar í örfoka land sennilega nokkuð hátt á 2. millj. kr. í framlög á móti Landgræðslu ríkisins, og mér er kunnugt um, að afréttarmálafélag Flóa- og Skeiðahreppa hefur átt þátt í því að dreifa á s.l. ári líklega rúmlega 40 tonnum af áburði á afrétti sína til þess að bæta þá.

Þá hafði hv. 4. þm. Norðurl. e. orð á því, að honum þótti búnaðarfélagsskapurinn ætti að eiga hlut að nefndarstarfinu. Það er alltaf álitamál. hverja á að kveðja til hinna sérstöku nefndarstarfa. En ég vil leggja á það þunga áherslu, að ég ætlast til þess, að þessi n. geti unnið hratt og unnið vel, og ég held, að það sé öllum mönnum vitanlegt, að því mannfleiri sem nefndir eru, því hægar starfa þær. Mér er ljóst, að það er brýn nauðsyn, að búnaðarfélagsskapurinn sé gildandi og hafi áhrif á till. um þessi mál. Þess vegna hafði ég þau orð um þetta efni í ræðu minni hér á þriðjudaginn, sem nú skal vitnað til, með leyfi hæstv. forseta:

„Að sjálfsögðu mun n. hafa samvinnu við sveitarstjórnir á svæðinu og gróðurverndarnefnd sýslunnar, einnig Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Búnaðarfélag Íslands og Búnaðarsamband Suðurlands og aðrar opinberar stofnanir, eftir því sem þörf krefur.“

Ég hygg, að með þessu móti hafi ég sýnt það, að það er ekki ætlun mín og ekki vilji að ganga fram hjá búnaðarfélagsskapnum, því að það hef ég ekki gert, heldur lagt það til, að til hans sé leitað um allar þær upplýsingar, sem máli skipta í þessu efni.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. hafði orð á því líka í ræðu sinni, að landnámsstjóri hefði ekki þjálfun í landgræðslustarfi, honum sýndist, að hann væri þess vegna ekki til þess fallinn að skipa þessa n., eins og ég hef lagt til. Ég þarf að sjálfsögðu ekki að láta segja mér þetta, hann er ekki sérfræðingur í því, landnámsstjóri. En mig furðar á því, að hv. þm., sem er í landnámsstjórn, skuli ekki hafa komið auga á það, að ég geri till. um, að landnámsstjóri sé í þessari n. vegna þeirrar sérstöku þekkingar, sem hann hefur á skipulagsmálum í dreifbýli. Ég hefði líka haldið, að hv. þm., sem er, eins og ég sagði áðan, í landnámsstjórn ríkisins, hefði átt að vera þess minnugur, að stjórnin mun hafa ákveðið að efna til kortagerðar af allri byggð í landinu, þar sem færð væru inn mörk á milli jarða. Og til þess að sanna það, að þetta er ekki aðeins mín hugdetta og ég hafi búið þetta til, þá óska ég að kynna hér stuttan póst úr álitsgerð gróðurverndarnefndar Árnessýslu, sem mér sýnist varða þetta efni, með leyfi hæstv. forseta:

„Varðandi alla notkun lands er mikilvægt að geta skipulagt framkvæmd beitarinnar. Til þess að svo megi verða, er þörf á aukinni þekkingu á því landi, sem til umráða er, aukinni vörslu til að geta haft stjórn á beitinni, en umfram allt samstöðu þeirra manna, sem umráð hafa á landi, um skipulagningu á notkun þess. Miklar vonir eru bundnar við fyrirhugaða kortagerð af allri byggð, þar sem merkt verði inn öll landamerki og gróður hverrar jarðar flokkaður. Þegar slík kort liggja fyrir samhliða gróðurkortum þeim, sem þegar hafa verið gerð af afréttarlöndum, verður öll skipulagning á notkun landsins mun auðveldari en nú er. Einkum hlýtur þá að vera auðvelt að staðfesta, hvar landið er ofnytjað í mestum mæli, og koma í veg fyrir slíkt “

Ég þykist með þessu móti og í ræðu minni hér fyrr við þessa umr. hafa sýnt fram á, að það er till., sem er byggð á rökhyggju, að leggja til, að landnámsstjóri sé einn af nm. og sá sem leiðir starf hennar, vegna þeirrar sérstöku þekkingar, sem hann hefur á því að skipuleggja not lands.