04.02.1974
Efri deild: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1949 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

178. mál, Félagsmálaskóli alþýðu

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Nú munu vera liðnir um tveir áratugir eða vel það, frá því að Hannibal Valdimarsson, núv. hv. 3. þm. Vestf., hóf hér á hv. Alþingi baráttu fyrir því, að stofnaður yrði félagsmálaskóli verkalýðssamtakanna. Málinu hefur verið haldið vakandi allan þann tíma, sem síðan er liðinn, en án endanlegs árangurs. Nú er frv. um þetta efni í fyrsta sinn flutt sem stjfrv. og mun því trúlega tryggður framgangur á þessu þingi.

Þegar á allt er litið, verður að teljast nokkurt undrunarefni, að þetta mál skuli ekki fyrr hafa komist heilt til hafnar, þrátt fyrir það að þm. úr öllum flokkum hafa á ýmsum tímum lagt kapp sitt við það og þrátt fyrir þá tilfinnanlegu eyðu, sem slíkur skóli sem hér ræðir um mun fylla í menntakerfi þjóðarinnar.

Ég tel það augljósara en löngu tali taki, að verkalýðssamtökin gegna lykilhlutverki í þjóðfélaginu. Þau eru fjölmennustu almannasamtök í landinu, og í þeirra höndum er í raun oft úrslitavald um meðferð hinna mikilvægustu efnahagsmála þjóðarinnar eða a.m.k. geta þau í krafti valds síns og samtakamáttar oft ráðið þar úrslitum og haft rík áhrif á stefnu og aðgerðir stjórnvalda. Fyrst og fremst eru þau tæki vinnustéttanna í landinu til að vinna að bættum lífskjörum og lífsháttum sínum og til að tryggja skjólstæðingum sínum réttlátan skammt þeirra lífsgæða, sem þeir eiga mestan eða allan þátt í að skapa með vinnu sinni og atorku. Því hlýtur það að vera ákaflega mikilvægt, bæði frá sjónarmiði verkalýðsstéttarinnar sjálfrar og þess þjóðfélags, sem vill viðurkenna hlutverk hennar og markmið, að í röðum þeirra sé ríkjandi sjálfstraust samfana þroska og hæfni til að vinna sameiginlega að bættum lífsk,jörum og frelsi alþýðustéttanna og jafnt óbreyttir liðsmenn sem ábyrgir forustumenn og starfsmenn hljóti fullan stuðning samfélagsins til að afla sér þeirrar þekkingar og menntunar, sem við hæfi er þess mikla hlutverks, sem þeir hafa að gegna, og samræmist því mikla valdi, sem samtökin fara með og eiga rétt á að fara með í lýðræðisþjóðfélagi.

Þetta hafa verkalýðsfélögin sjálf fyrir löngu skilið, að er höfuðnauðsyn, og hafa því um langt skeið haldið á lofti þeirri kröfu sinni, að þjóðfélagið gerði þeim kleift að veita skjólstæðingum sínum fræðslu og skólamenntun við hæfi. Og þörfin fyrir slíka menntun hefur örugglega farið hraðvaxandi á síðari tímum, og kemur þar margt til. Þjóðfélagsgerðin hefur verið að breytast. Hið þróaða iðnaðarsamfélag, sem hér er að skapast, það velferðarþjóðfélag, sem hér er í mótun, verður með ári hverju flóknara að allri gerð og starfsemi almannasamtakanna grípur sífellt inn í fleiri þætti þjóðlífsins, sem verkalýðssamtökin og verkalýðsforustan verða að kunna skil á, ef þeir, sem þar um fjalla, eiga að reynast vanda sínum vaxnir. Jafnvel svo sjálfsagt hlutverk sem telja verður til frumskyldna allra stéttarfélaga að standa að kjarasamningum er nú orðið geysilega viðamikið og fjölþætt. Aðeins það að geta, svo að vel fari, staðið í því hlutverki krefst nú í raun mikillar þekkingar, ekki aðeins á högum almennings, heldur einnig í efnahagsmálum almennt, atvinnulífi, rekstri fyrirtækja, skattamálum og fjölda annarra þátta þjóðlífsins, sem móta annars vegar kjör vinnustéttanna og hins vegar möguleika þjóðfélagsins til að fullnægja þeim kröfum, sem til þess eru gerðar. Fyrir fáum áratugum var gerð kjarasamninga hins vegar miklu einfaldara í sniðum og viðfangsefnin í því sambandi. En þjóðfélagsgerðin hefur, eins og ég sagði, breyst og gert sífellt meiri kröfur til samtakanna.

Það er að vísu svo, að verkalýðshreyfingin hefur átt og á enn mjög hæfa forustumenn, sem með reynslu og starfi hafa vaxið með verkefnum sínum og leyst verkefni sín vel af hendi. Þrátt fyrir það eru þeir ekki ófáir, ekki síst í hreyfingunni sjálfri, sem hafa um skeið borið nokkurn ugg í brjósti yfir því, að nauðsynleg endurnýjun hæfra forustukrafta gerist ekki sjálfkrafa á tímum vaxandi sérhæfingar og vaxandi möguleika hæfra og efnilegra starfskrafta á sífellt fjölbreytilegri sviðum og nú verði ekki úr þeim efnum bætt nema með stórfelldu átaki í fræðslu- og menntunarmálum verkalýðshreyfingarinnar. Líka verður að hafa í huga, að ekki verður fram úr öllum vanda séð, þó að til komi sérhæfðir starfskraftar, sem í forustunni standa. Ákvörðunarvaldið í verkalýðshreyfingunni er samkvæmt lýðræðislegum vinnubrögðum og skipulagi samtakanna í höndum allra félaga þeirra, og úrslit mála ráðast því jafnan af dómgreind þeirra og möguleika til þess að gera sér raunhæfa grein fyrir málefnum þeim, sem um er fjallað. Bræðrastarf á vegum verkalýðssamtakanna, sem rísa á undir nafni, getur því aldrei og má aldrei takmarkast við fámennar forustusveitir eða starfsmenn, heldur verður það að ná sem allra lengst inn í raðir hinna óbreyttu liðsmanna, alls fjöldans. Aðeins með slíkum hætti verður verkalýðshreyfingin vel búin til að gegna hinu mikla hlutverki til að þroska vænlega forustukrafta úr eigin röðum.

Það er fjarri mér að álykta, að stofnun Félagsmálaskóla verkalýðssamtakanna leysi allan hann vanda, sem hér er við að kljást. En hitt virðist auðsætt, að með tilkomu hans öðlast fræðslustarfsemi þeirra mikilsverða kjölfestu, sem líkleg er til að hafa mikil og heillavænleg áhrif á allt starf þeirra. Rétt hefur þótt að sníða skólanum sem rýmstan stakk í upphafi, þannig að hann fái tækifæri til að mótast og þróast í samræmi við þá reynslu, sem smám saman fæst af starfi hans. Gert er ráð fyrir, að skólinn starfi í námskeiðum, sem ekki yrðu bundin við ákveðinn stað eða skólahús, nema eftir því sem reynslan kennir að henti. Þetta útilokar þó engan veginn, að um vetrarlanga skólavist geti einnig verið um að ræða í heim húsakynnum, sem skólanum verða reist. En einnig gæti komið til námskeiðs, sem verið getur að henti að halda t.d. í orlofsheimilum samtakanna, sem nú ern að risa í öllum fjórðungum landsins.

Herra forseti. Þar sem þetta frv. er í raun og veru gamall kunningi og efni þess kunnugt öllum þm. árum saman, sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um einstök efnisatriði þess við þessa umr., enda gefst tækifæri til þess síðar, þegar málið hefur verið athugað í n. og kemur hér til umr. aftur. Ég vil því aðeins að lokum vænta þess, að þetta mál hljóti greiða afgreiðslu bæði í hv. þn. og hv. þd. Ég leyfi mér svo að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv, félmn.