04.02.1974
Efri deild: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

158. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Á síðasta Alþ. flutti ég frv. sama efnis í meginatriðum og frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 222. Ég get því að sumu leyti verið nokkuð stuttorðari í framsögn fyrir þessu máli nú en ella hefði verið. Á síðasta þingi, flutti ég ítarlega ræðu um þetta mikilvæga efni, en málið hlaut ekki afgreiðslu á því þingi. En hér er um svo stórt og veigamikið mál að ræða, að ég tel nauðsynlegt og sjálfsagt að gera því nú nokkur skil.

Húsnæðismálin í heild eru mikilvæg, og er enginn ágreiningur um það. En ég tel einnig, að þetta frv. sé mikilvægt, vegna þess að í því felast ýmis ákvæði, sem að vissu leyti marka grundvallarbreytingu í framkvæmd þessara mála og stórkostlega eflingu lánastarfseminnar að hinu leytinu. Þetta frv. gerir t.d. ráð fyrir því, að tekin verði upp sú regla, að hægt sé að veita mismunandi há lán eftir því, hvar er á landinu. Þetta er grundvallarbreyting frá lög gjöfinni, eins og hún er nú. Þá gerir þetta frv. ráð fyrir því, að á vissum stöðum á landinu sé hægt að taka upp verðtryggingu íbúða. Hér er um að ræða algert nýmæli. Slík ákvæði er ekki að finna í gildandi l. Enn gerir þetta frv. ráð fyrir stórkostlegri eflingu Byggingarsjóðs verkamanna og veigamikilli breytingu í fjármögnun Byggingarsjóðs frá því, sem hefur verið allt frá því að hann var stofnaður fyrir rúmum 40 árum. Enn fremur gerir þetta frv. ráð fyrir mikilli hækkun hinna almennu íbúðarlána húsnæðismálastjórnar ríkisins. Og loks er það helst til að taka hvað varðar þýðingarmikil grundvallaratriði, að frv. gerir ráð fyrir sérstökum fjárframlögum úr Byggðasjóði til húsnæðismála í þeim tilgangi að efla jafnvægi í byggð landsins.

Meginkafli þessa frv. fjallar einmitt um aðgerðir til þess að efla jafnvægi í byggð landsins. Það er mál, sem mikið er rætt, ekki einungis á þessu þingi, heldur síðasta þingi og á öllum þingum, svo lengi sem ég man glöggt eftir. Og það er einkennandi fyrir þessar umr., hvað allir eru sammála um, að gera þurfi aðgerðir til að efla jafnvægi í byggð landsins. Hins vegar er það og einkennandi, hve lítið hefur áunnist í þessum efnum, og er það allt kunn saga, sem ég ætla ekki að fara að rekja hér.

En þetta viðfangsefni, að efla jafnvægi í byggð landsins, er margslungið. Kann að vera, að það sé í og með vegna þess, hve margslungið það er, hve erfiðlega hefur gengið að ná viðhlítandi árangri í þeirri viðleitni, sem hefur verið sýnd í þessa átt. Og það er líka kannske vegna þess, að menn hafa ætlað að gera allt fyrir alla á sama tíma, og auðvitað er það engin lausn á slíku máli sem þessu. Út úr því kemur annað hvort ekkert eða þá aðgerðir, sem öllum kunna að vera til góðs og geta í sjálfu sér verið sjálfsagðar og eðlilegar, en gera ekkert í því að jafna aðstöðumuninn í þá átt, að byggðajafnvægi í landinu verði eflt.

Ég sagði, að þetta vandamál væri margslungið. Einn þáttur þess eru húsnæðismálin. Og það vill svo til, að það er einmitt á þessu sviði, þar sem skórinn kreppir að ekki síst og nauðsynlegt er að beita sér við í allri viðleitni til eflingar byggðajafnvæginu. Nú er það svo, að víða úti um land skortir íbúðarhúsnæði. Þetta á einkum við þróttmikla útgerðarstaði. Þar er húsnæðisskorturinn þess eðlis, að hann kemur í í veg fyrir fólksflutninga til þessara staða, sem annars væri grundvöllur fyrir. Þetta er á stöðum, þar sem skortir fólk á vinnumarkaðinn, til þess að framleiðslutækin, sem þar eru þegar fyrir hendi, verði fullnýtt og rekin með eðlilegum hætti. Á þessum sömu stöðum eru víða hin hagkvæmasta aðstaða til frekari atvinnuuppbyggingar. Þar sem svo háttar til. getur því verið hinn ákjósanlegasti grundvöllur til eflingar byggðajafnvægi í landinu, ef ýtt er undir fólksflutninga til þessara staða frá þeim landssvæðum, þar sem fjölmenni hefur raskað eðlilegu byggðajafnvægi.

Til þess að hagnýta þennan grundvöll til eflingar byggðajafnvægi þarf aðgerðir, sem koma í veg fyrir, að húsnæðisskorturinn hindri búsetuskipti fólks, sem vill leita til þessara staða í atvinnuskyni. Þessar aðgerðir þurfa og að vera þess eðlis, að þær í sjálfu sér örvi til þessara fólksflutninga. Þess vegna eru ekki önnur úrræði í þessu máli en gera mögulegt, að íbúðarlán, sem veitt eru til þessara staða, verði hærri og hagkvæmari en almennt gerist.

Þetta þarf að gilda um öll íbúðarlán, sem veitt eru til þeirra byggðarlaga, sem eiga að njóta þessarar aðstoðar. Það er t.d. ekki nægilegt að binda þessi sérstöku lán við byggingu leiguíbúða. Á þessum stöðum eru leiguíbúðir að vísu nauðsynlegar, en þær leysa ekki allan vandann. Engin frambúðarlausn fæst, nema öllum, sem byggja íbúðarhús, séu veitt þessi lán. Ekki á þetta síst við um þá, sem vilja koma sér upp eigin íbúðum, svo sem algengast er um landsmenn. Mest er um vert að ýta undir íbúðarhúsabyggingar einstaklinga á þessum stöðum, því að það eru einstaklingarnir, sem eru driffjöðrin í þessum framkvæmdum í landinu. Fram hjá þessari staðreynd verður ekki gengið. Hins vegar hefur í þessum efnum reynst sá þröskuldur, að einstaklingar hafa oft veigrað sér við að byggja sér íbúðir á mörgum þeim stöðum, þar sem þessi sérstaka aðstoð í húsnæðismálunum þarf einmitt að koma til. Menn hafa óttast, að fjármunir þeir, sem þeir legðu í íbúðarbyggingar á þessum stöðum, rýrnuðu í verði vegna ótryggrar framtíðar viðkomandi staða. Þeir hafa óttast, að þeir gætu ekki selt íbúðir sínar á kostnaðarverði eða í eðlilegu samræmi við almennt verðlag í landinu, ef þeir vildu eða þyrftu að selja þessar íbúðir, t.d. vegna brottflutnings. Gegn þessum vanda verður ekki snúist, nema þessir menn fái nokkra tryggingu fyrir því, að þeir biði ekki tjón af framtaki sínu, sem er þjóðfélaginu svo mikilvægt til eflingar byggðajafnvægi.

Það, sem ég hef nú sagt, lýsir nokkuð þeim vanda, sem við er að etja í þessum málum, og með því frv., sem hér liggur fyrir, eru lagðar til ákveðnar aðgerðir til þess að mæta þessum vanda á þann veg, að þær aðgerðir efli jafnvægi í byggð landsins. Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að inn í lög um Húsnæðismálastofnun ríkisins komi nýr kafli, er fjalli um íbúðarlán til eflingar byggðajafnvægi. Þar segir, að ríkisstj. geti ákveðið eftir beiðni viðkomandi sveitarstjórnar sérstaka fyrirgreiðslu við húsbyggjendur í þeim héruðum landsins, sem aðstoðar er þörf til eflingar byggðajafnvægi í landinu. Lagt er til, að stjórn Byggðasjóðs sé kvödd til ráða um slíkar ákvarðanir. Þarf þá að meta, hvort aðstoðar er þörf og hvort aðstoð kemur að tilætluðum notum til eflingar jafnvægi í byggð landsins. Ennfremur getur þurft að meta, hvaða staðir hafi forgang eða í hvaða röð hin einstöku byggðarlög hljóta aðstoð þessa, ef ekki verður hægt að sinna öllum réttmætum umsóknum samtímis.

Frv. kveður svo á um form þeirrar aðstoðar, sem veita skal, að ákvörðun um aðstoð eigi að gilda fyrir fjögur ár í senn. Hér er reiknað með ákveðnu framkvæmdatímabili hliðstætt því, sem lög mæla nú fyrir um aðstoð úr Byggingarsjóði verkamanna, til að koma við skipulegum vinnubrögðum og áætlunargerð um að ná settum áfanga í íbúðarbyggingum. Á þessu tímabili skal veita í viðkomandi sveitarfélagi sams konar lán og veitt er nú úr Byggingarsjóði ríkisins til íbúða, sem byggðar eru á vegum Framkvæmdanefndar byggingaráætlunar ríkisins í Breiðholtinu í Reykjavík. Þessi sérstöku lán á að veita öllum byggingaraðilum, bæði til byggingar eigin íbúða og leiguíbúða, hvort sem það eru einstaklingar, byggingarfélög eða viðkomandi sveitarfélag sjálft. Hin sérstaka aðstoð er fólgin í því, að lán þessi eru að upphæð 80% af byggingarkostnaði íbúða og eru til 33 ára, afborgunarlaus fyrstu 3 árin, en endurgreiðast síðan á 30 árum. Hér er um að ræða miklum mun betri lán en hin almennu lán Byggingarsjóðs ríkisins. Þau lán eru nú ákveðin 800 þús. á hverja íbúð, en nema naumast 40% af byggingarkostnaði meðalstórrar íbúðar og eru einungis til 25 ára og með engum afborgunarfresti.

Augljóst er, að fjármagn þarf til þess að gera mögulegt að veita þessa sérstöku tegund lána til þeirra byggðarlaga, sem efla þarf. Til að mæta þessari fjármagnsþörf Byggingarsjóðs ríkisins gerir þetta frv. ráð fyrir, að lögð sé sú skylda á Byggðasjóð að kaupa skuldabréf, sem veðdeild Landsbanka Íslands er heimilt að gefa út til öflunar fjár í Byggingarsjóðinn. Þessi skuldabréfakaup Byggingarsjóðs hljóta að nema verulegri fjárhæð á hverju ári, eins og málin standa nú, að ég ætla ekki undir 300–400 millj. kr., ef miðað er við, að íbúðarlán til eflingar byggðajafnvægi verði ekki til færri en 200–300 íbúða árlega. Með tilvísun til þess, sem ég hef hér greint um mikilvægi þessara aðgerða, getur ráðstöfunarfé Byggðasjóðs ekki verið betur varið miðað við tilgang sjóðsins en að standa undir því, sem sérstaklega er gert í húsnæðismálunum til eflingar jafnvægi í byggð landsins. Ef hins vegar kann að þykja nauðsynlegt að auka tekjur Byggðasjóðs í þessu skyni, þá er það aðgerð, sem að mínu viti krefst forgangs.

Ég sagði áðan, að þetta frv. gerði ráð fyrir verðtryggingu íbúða á þeim stöðum í landinu, sem sérstaklega þyrfti aðstoðar við til eflingar byggðajafnvægi. Þessi verðtrygging er til góða upphaflegum lántakendum, en nær ekki til eigenda íbúðanna, sem síðar kunna að verða. Er verðtryggingin í því fólgin, að Byggingarsjóði ríkisins er að beiðni lántakenda gert skylt að yfirtaka viðkomandi íbúð, ef 5 ár eru liðin frá lántöku og lánið er ekki greitt að fullu. Skal þá kaupverð íbúða nema byggingarkostnaði að viðbættri hækkun samkv. byggingarvísitölu að frádreginni fyrningu að mati dómkvaddra manna. Þessa verðtryggingu er ekki skylt að láta í té, ef sveitarfélag er lántakandi.

Ekki er gert ráð fyrir, að Byggingarsjóður ríkisins hafi eignarhald til frambúðar á þeim íbúðum, sem hann yfirtekur. Sjóðnum er gert skylt að selja þessar íbúðir á hæsta fáanlegu verði. Hins vegar er ekki heimilt, að söluverð þessara íbúða sé lægra en nemur byggingarkostnaði, nema sveitarfélag sé kaupandi. Með þessu ákvæði er sveitarfélaginu veittur sérstakur réttur fram yfir alla aðra byggingaraðila, og markast það af því, að hér er um opinbert fé að tefla, og ef Byggingarsjóðurinn kann að tapa á þessum aðgerðum, þá er það ekki óeðlilegt, að sveitarfélagið njóti þess, en ekki aðrir.

En til að mæta tapi, sem Byggingarsjóður kann að verða fyrir vegna mismunar á kaupverði og söluverði hinna verðtryggðu íbúða, kveður frv. svo á, að ráðstafa skuli fjárhæð, sem svarar tekjum af 1% lántökugjaldi, sem sjóðurinn tekur nú samkv. lögum af öllum útlánum sínum. Erfitt er af augljósum ástæðum að gera sér grein fyrir, hve miklu Byggingarsjóður kann að tapa við framkvæmd verðtryggingarinnar. Það hlýtur að fara mikið eftir árangri þeirra aðgerða, sem gerðar eru samkv. þessu frv. Ef vel tekst til, eru líkur fyrir því, að fólksflutningur til staða, sem njóta verðtryggingarinnar, stuðli þar að hækkun húsaverðs eða geti komið í veg fyrir óvenjulega lágt verðlag húsa. Hins vegar er nauðsynlegt að kveða á um, hvað heimilt er að verja miklu fjármagni vegna verðtryggingarinnar. Þess vegna legg ég til, að fjárhæð, sem svarar lántökugjaldi Byggingarsjóðsins, megi verja í þessu skyni.

Í bili þarf aftur á móti ekkert fjármagn vegna verðtryggingarinnar. Samkv. ákvæðunum um verðtryggingu getur hún ekki komið til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi eftir 5–6 ár frá því, að frv. þetta verður að lögum. Ekki or óvarlegt að reikna með, að það fjármagn, sem lántökugjaldið gefur á þessu tímabili, verði orðið samtals a.m.k. 100 millj. kr., þegar komið getur til útgjalda að ráði vegna verðtryggingarinnar. Nauðsyn ber hins vegar til að hafa hliðsjón af þessari nýju fjármagnsþörf vegna verðtryggingarinnar, þegar hinir almennu tekjustofnar íbúðarlánakerfisins verða efldir, eins og augljóslega þarf að gera, þótt hér séu ekki settar fram till. um það efni, þar sem enn þykir rétt að láta reyna á, hvort staðið verður við margítrekuð loforð um að gera það. En þau loforð voru gefin af fyrrv. félmrh., og ekki er svo langt um liðið, síðan núv. hæstv. félmrh. settist í ráðherrastól. að mér þyki hlýða að væna hann um, að ekki muni koma til efnda í þessu efni. En í því sambandi vil ég aðeins segja það, að nú þykir mér, að ekki megi dragast öllu lengur samt, að einhverjar till., einhver ráð fari að sjá dagsins ljós af hálfu hæstv. ráðh.

Ég hef nú rætt um þetta mál, sem fjallar um aðgerðir til eflingar byggðajafnvæginu. En eins og ég gat um í upphafi míns máls, þá felur þetta frv. í sér tvö önnur atriði, sem eru ekki eins mikil grundvallarbreyting og það, sem varðar verðtryggingu og mismunandi lán í landinu eftir því, hvar menn eru búsettir, en það eru grundvallarbreytingar. Þessi tvö atriði, sem ekki varða jafnvægi í byggð landsins, eru samt ákaflega þýðingarmikil, því að þau fela í sér stórkostlega eflingu á starfsemi Byggingarsjóðs verkamanna annars vegar og hins vegar stórkostlega hækkun á hinum almennu íbúðarlánum Byggingarsjóðs ríkisins.

Í meira en 40 ár hefur ríkissjóður greitt árlega framlag til Byggingarsjóðs verkamanna, sem verið hefur jafnhátt og samanlögð framlög sveitarfélaga til Byggingarsjóðsins hafa verið á ári hverju. Eftir að gagnger breyting var gerð á verkamannabústaðakerfinu árið 1970, komu í ljós erfiðleikar í fámennum sveitarfélögum á framkvæmd þessara mála. Kom það til af því, að byggingarframkvæmdum voru sett takmörk, sem miðast við framlag hlutaðeigandi sveitarfélags til Byggingarsjóðs verkamanna. Samkv. þessum ákvæðum mátti hámarksframlag sveitarfélaga ekki vera hærra en sem svaraði 400 kr. á hvern íbúa í viðkomandi sveitarfélagi. Þetta hámarksframlag reyndist vera of lágt í fámennum sveitarfélögum, til þess að við yrði komið nægilega miklum og hagkvæmum byggingarframkvæmdum. Til að bæta úr þessu lagði ég fram ásamt fleiri hv. þm. í þessari d. og þ. á. m. hæstv. yfirmanni þessara mála nú, hæstv. félmrh., frv um það að hækka hámark framlagsins úr 400 þús. kr. á hvern íbúa í 1200 þús. kr. Þetta frv. var samþ. Þannig standa málin nú, og að þessu hefur orðið veruleg bót.

En þrátt fyrir þessa bragarbót, sem þýddi, að möguleikar til framkvæmda þrefölduðust, hefur komið í ljós, að ekki var nóg að gert. Þar að auki hefur komið til, að sveitarfélögin hafa átt erfitt með að standa undir greiðslubyrði sinni vegna byggingar verkamannabústaða. Afleiðingin hefur orðið sú, að verkamannabústaðir hafa ekki verið byggðir í eins ríkum mæli og þurft hefði. Til þess að bæta úr þessu er ekki ráð að leggja þyngri byrðar á sveitarfélögin en gert hefur verið, miðað við óbreytta tekjustofna þeirra og verkefni. Þess vegna er lagt til í þessu frv., að Byggingarsjóður verkamanna verði fjármagnaður af ríkissjóði að 3/4 hlutum og af sveitarsjóðum að 1/4 hluta.

Þessi breyting felur í sér þreföldun á upphæð framlags ríkissjóðs miðað við óbreytta fjárhæð frá sveitarfélögunum. Þannig er á fjárl. þessa árs framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna ákveðið 100 millj. kr. gegn jafnháu framlagi frá sveitarfélögunum. Hér er því um að ræða 200 millj. kr. hækkun á framlagi ríkissjóðs miðað við óbreytta fjárhæð frá sveitarfélögunum. Þetta þýðir, að ráðstöfunarfé til byggingar verkamannabústaða gæti tvöfaldast, án þess að aukið sé framlag sveitarfélaganna.

Gera má ráð fyrir, að þessi breyting á hlutfalli framlaga til sjóðsins geti stóraukið byggingu verkamannabústaða, þar sem frumkvæði þessara framkvæmda er samkv. lögum á valdi sveitarstjórna. Með slíkum ráðstöfunum verður best unnið að húsnæðismálum láglaunafólks, þar sem lánakjör Byggingarsjóðs verkamanna eru þau langtum bestu sem völ er á.

Þá kem ég að lokum að því ákvæði þessa frv., sem gerir ráð fyrir stórhækkun á hinum almennu íbúðarlánum Byggingarsjóðs ríkisins. Það er ekki að ófyrirsynju, að gerð er till. um slíkt. Rifjum þetta mál upp aðeins í örfáum orðum.

Í lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins frá 1970 var fjárhæð lána úr Byggingarsjóði ríkisins ákveðin 600 þús. kr. Jafnframt var það nýmæli þá tekið upp í lög þessi, að húsnæðismálastjórn gæti að fengnu samþykki félmrh. breytt lánsfjárhæð þessari á tveggja ára fresti til samræmís við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar.

Eftir að lög þessi voru sett, hefur orðið mikil hækkun á byggingarkostnaðinum eins og allir vita og öllum er ljóst. Í maí 1970 var vísitala byggingarkostnaðar 439 stig. Tveim árum síðar eða í maí 1972 var þessi vísitala orðin 603 stig og hafði því hækkað um 37.4%. Enn hækkaði byggingarvísitalan 1. júlí 1972 í 683 stig og var orðin 55.6% hærri en í maí 1970. Svo var komið 1. nóv. 1972, að vísitala byggingarkostnaðar var orðin 689 stig, og var þar um að ræða 56.9% hækkun síðan lög um Húsnæðismálastofnun ríkisins voru sett í maí 1970.

Þrátt fyrir þessa miklu hækkun byggingarkostnaðar hafði upphæð íbúðarlána Byggingarsjóðs ríkisins verið óbreytt á þeim tíma. Augljóst var, að við svo búið gat ekki staðið. Ég flutti því á síðasta þingi þáltill. um hækkun lánsupphæðar úr 600 þús. í 900 þús. kr. Þessi till. hlaut ekki afgreiðslu, hlaut ekki náð fyrir augum valdhafanna, en þess skal getið, að hún kom samt hreyfingu á málið. Samkv. stjórnarfrv., sem lagt var fram síðar og samþ. var í apríl s.l., var sú breyting gerð á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, að lánsfjárhæðin má nú vera 800 þús. kr. í stað 600 þús. kr., sem áður var.

En hér var bæði of lítið og of seint að gert. Í apríl s. d. var byggingarvísitalan 708 stig og hafði því hækkað um 61.3% síðan í maí 1970, en lánsfjárhæðin hækkaði á sama tímabili aðeins um 33.3%,–61.3% á móti 33.3%. Þetta eru sláandi tölur. En auk þessa hefur nú komið til mikil hækkun byggingarkostnaðar, frá því að þetta var ákveðið, svo sem öllum er ljóst. Nú er vísitala byggingarkostnaðar orðin 913 stig eða hefur hækkað frá því í maí 1970 um hvorki meira né minna en 108%, en lánsfjárupphæðin aðeins um 33.3%.

Þetta eru ákaflega alvarlegar staðreyndir. Og fram hjá þessum staðreyndum verður ekki gengið, ef menn ætla að taka þessi mál, húsnæðismálin, föstum tökum. Og af þessu má að sjálfsögðu marka, að það er fullkomlega tímabært að leggja til, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, að lánsupphæðin á hinum almennu íbúðarlánum Byggingarsjóðs ríkisins verði hækkuð úr 800 þús. kr. í 1200 þús. kr. Og það er tæpast, að þetta fylgi eftir hækkun byggingarvísitölunnar. En ég verð að segja það, að ég mundi verða mjög ánægður, ef hv. Alþ. og þessi hv. d., sem ég vænti, að hafi forustu í þessu máli, fellst á þessa hækkun. Og ég sé raunar ekki, hvernig hægt er að hafna þessari till. Og þegar ég segi, að ég sjái það raunar ekki, þá segi ég það vegna þess, að ég tek alvarlega, vil taka alvarlega það, sem hæstv. ríkisstj. og sérstaklega hæstv. félmrh. segir um þessi efni.

Það verður ekki farið í neinar grafgötur með það, að hæstv. félmrh. segist vilja bæta hér úr. Ég lít svo á, að honum sé alvara. Hann hefur að vísu lagt meiri áherslu á aðra þætti á þeim stutta tíma, sem hann hefur farið með völdin, og ég á þar sérstaklega við félagslegar aðgerðir, svo sem byggingu leiguíbúða. Ég er honum algjörlega sammála um nauðsyn á byggingu leiguíbúða og ekki síst í þeim byggðarlögum úti á landi, sem í vök eiga að verjast og þarf að efla, þarf að styrkja til þess að efla byggðajafnvægi í landinu. En eins og kom fram í máli mínu áðan, eru leiguíbúðamálin aðeins einn þáttur, og það þarf að gera hliðstæðar ráðstafanir í sambandi við byggingu eigin íbúða og fyrir hvern sem í hlut á á þeim svæðum, sem við ætlum að efla. En hvað sem þessu líður, þá megum við ekki falla í þá gröf að leysa þessi mál, sérstöku mál, á kostnað hinna almennu íbúðarlána, sem meginhluti landsmanna nýtur góðs af. Við megum ekki halda svo á þessum málum, um leið og við sýnum viðleitni til að sækja fram á einstökum sviðum, að þá látum við það viðgangast, að þessi almennu lán, sem snerta langflesta í þjóðfélaginu, rýrni svo að notagildi, að þau svari hvergi nærri þeim þörfum, sem þeim var ætlað að svara, þegar síðasta endurskoðun laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins var gerð árið 1970. Slíkt væri algjör undansláttur.

Sannleikurinn er sá, að það er þörf á því fyrir okkur að sækja fram í þessum efnum, og fram til 1970 var okkur smám saman að miða áfram í þessu efni, þ.e.a.s. að íbúðarlánin hækkuðu ívið meira sem svaraði hækkun byggingarkostnaðarins, og það var raunar um allverulega fram. för að ræða í þessu efni. Þegar fyrrv. ríkisstj. lét af völdum, vorum við samt hvergi nærri komnir nógu langt í þessu efni, — hvergi nærri. Við vorum langt á eftir því, sem gerist í þeim löndum, sem væri ekki óeðlilegt að gera samanburð á í þessum efnum við okkur Íslendinga, svo sem á Norðurlöndum og öðrum helstu nágrannalöndum okkar, — langt á eftir. Það er þess vegna mikið áhyggjuefni, að nú skuli svo hafa til tekist frá því 1970, að hér hefur stigið svo mjög á ógæfuhliðina.

Ég sé ekki ástæðu að vera að fjölyrða um þetta. Það væri hægt að halda langa ræðu um það. Mér sýnist málið vera svo augljóst, að þess gerist ekki þörf. Og það er m.a. vegna þess, hve margt af því, sem lagt er til í þessu frv., þarf augljóslega að gera, að ég geri mér vonir um, að það fái vandaða meðferð og afgreiðslu sem fyrst úr þessari deild, svo að von geti orðið til þess, að einhver árangur af þessu frv. fáist á þessu þingi.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að máli þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. félmn.