04.02.1974
Neðri deild: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

191. mál, málflytjendur

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Frv. þetta til l. um málflytjendur var lagt hér fram á síðasta þingi. Þá var því vísað til allshn., og sú n. leitaði umsagnar nokkurra aðila um frv. Í þeim umsögnum komu fram ýmsar aths., og ég tel líklegt, þó að ég geti ekki um það fullyrt, að það hafi m. a. valdið því, að frv. þetta stöðvaðist í n. og hlaut ekki afgreiðslu á síðasta þingi. Nú þegar frv. er lagt fram að nýju á síðara hluta þessa þings, vekur það athygli, að ekki hefur verið tekið tillit til þessara aths., sem komu frá umsagnaraðilum. Aðeins ein breyting er gerð á frv. frá því, sem það var á s.l. ári, en ýmsar aðrar aths. hafa ekki verið teknar til greina. Í því sambandi vek ég sérstaklega athygli á umsögn frá Lögmannafélagi Íslands, sem lagði fram brtt. í verulegum atriðum við fjölmargar greinar frv. Nú skal ég ekki leggja dóm á, hvort rétt sé að taka tillit til allra þeirra brtt., en þó sýnist mér, að margt sé í þeim, sem ætti fullt erindi inn í frv.

En ég ætlaði þó fyrst og fremst að fjalla um 13. gr., þá gr., sem hv. 5. landsk, gerði hér að umtalsefni og mótmælti, en í þeirri gr., eins og hann hefur rakið, er talið upp, hvað lögfræðingar þurfa að hafa gengið gegnum, hvaða leiðir þeir verða að fara til þess að öðlast málflutningsréttindi. Þetta ákvæði í frv. var mjög gagnrýnt af held ég öllum þeim, sem fjölluðu um frv. á s.l. ári og sendu inn umsagnir, enda þótt þeir hafi um leið lagt fram mismunandi brtt. En gagnrýnin beinist sem sagt að þessu ákvæði, sem hér hefur verið gert að umtalsefni, því að gert er ráð fyrir, að til þess að öðlast málflutningsréttindi þurfi ungir lögfræðingar að öðlast vissan reynslutíma með því að gerast fulltrúar hjá starfandi málflutningsmönnum. Nú var þessi gagnrýni, sem kom fram í umsögnunum, ekki endilega, ég held alls ekki byggð á þeim forsendum, sem hv. 5. landsk. gaf sér, heldur hins vegar þeim einföldu og augljósu sannindum, að það mun reynast erfitt fyrir unga lögfræðinga að komast að sem fulltrúar hjá málflutningsmönnum. Það er tiltölulega lítill hópur málflutningsmanna, sem tekur til sín fulltrúa á sína skrifstofu, og af þessum ástæðum sjá allir, að það er mjög takmarkaður hópur, sem öðlast þessi réttindi á hverju ári.

Hæstv. dómsmrh. vék hér að einni leið, sem hann taldi vel umhugsunarverða, þ.e.a.s. að stofna til framhaldskennslu í háskólanum, þar sem menn gætu sérhæft sig til málflutnings og öðlast viss réttindi með þeim hætti. En það er einmitt sú leið, sem umsagnaraðilar í fyrra bentu flestir á, og erindi mitt hér í pontu er nú að koma þessum umsögnum hvað þetta varðar til skila, vekja á þeim athygli og undirstrika, að ég tel það vera miklu æskilegri leið heldur en þá, sem gert er ráð fyrir í frv. Í umsögn Lögmannafélags Íslands er vikið að þessari 13. gr. Þar gerir Lögmannafélagið að vísu brtt., sem gengur í aðra átt, en þeir lögmennirnir gera ráð fyrir að 2. mgr. 13. gr. hljóði á þessa leið:

„Eigi má veita leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi, nema leitað hafi verið álits stjórnar Lögmannafélags Íslands og hún tjái sig samþykka leyfisveitingu.“

Það er a.m.k. ekki aðgengilegt fyrir hv. 5. landsk., að þetta vald sé einvörðungu í höndum Lögmannafélagsins. En síðan segir í umsögn Lögmannafélagsins:

„Rétt þykir að taka fram í þessu sambandi, að einnig kom fram á fundinum,“ — þ.e.a.s. fundi, sem lögmenn héldu um þetta frv., — „till. í þá átt, að umsækjendum um réttindi héraðsdómslögmanna yrðu sett sérstök prófskilyrði til viðbótar þeim skilyrðum, sem talin eru í 1.–15. tölul. 13. pr. frv. Yrði þar annaðhvort um að ræða málflutningsprófraun svipaða því, sem núgildandi lög gera ráð fyrir, eða sérstakt próf í þeim greinum, sem mest reynir á í framkvæmd í starfi lögmanna, og þá tengt sérstökum námskeiðum, að því leyti sem þær eru ekki kenndar til hlítar við lagadeild háskólans. Telur stjórnin þessa hugmynd athyglisverða.“

Þetta var úr umsögn Lögmannafélagsins. Leitað var einnig umsagnar Dómarafélags Íslands, og það gaf umsögn um þessa gr., svo hljóðandi:

„Enn fremur vill stjórn Dómarafélags Íslands vekja athygli á því, að þetta frv. takmarkar talsvert aðgang að lögmannastéttinni. Að svo miklu leyti sem það er gert í þeim tilgangi að lyfta lögmannastéttinni og skapa sem hæfasta og ábyggilegasta lögmenn, þá er það að sjálfsögðu góðra gjalda vert, og vill stjórn Dómarafélagsins síst draga úr gildi þess. Hins vegar gæti þetta ákvæði hugsanlega takmarkað um of aðgang manna að stéttinni, vegna þess að innkomuleiðirnar eru ekki nema tvenns konar, annars vegar að hafa verið fulltrúi lögmanns í 2 ár og hins vegar að hafa gegnt þeim störfum, sem upp eru talin í 7. tölul. 32. gr. l. nr. 86 1936. Af þessum sökum telur stjórn félagsins rétt að benda á þriðju innkomuleiðina í lögmannastétt, en hún gæti verið í gegnum sérstakt nám við lagadeild Háskóla Íslands, þar sem mönnum væri bæði kennt og þeir þjálfaðir í þeim störfum, sem lögmenn hafa helst með höndum. Ætti slík námsbraut að geta gert þeim mönnum kleift að komast inn í lögmannastétt, sem af einhverjum ástæðum hafa ekki getað komist þangað eftir hinum leiðunum, en hafa þó bæði hæfileika og löngun til lögmannsstarfa.“

Að lokum vitna ég til umsagnar frá Orator, félagi laganema við Háskóla Íslands, en almennur félagsfundur hjá Orator fjallaði um frv., og sagði m.a. í ályktuninni:

„Ef talið er, að lagamenntun við Háskóla Íslands sé ekki fullnægjandi undirbúningur undir þau störf, sem hér um ræðir, er það skoðun félagsins, að eðlilegast sé, að lögfræðingum verði gert kleift með frekara námi við lagadeildina að uppfylla þau viðbótarskilyrði, sem gerð verða til leyfisveitingar.“

Eins og heyra má af þessum tilvitnunum, ganga þessar umsagnir í aðalatriðum í sömu átt, gera ráð fyrir einhvers konar námskeiði eða kennslu við lagadeild háskólans, og ég vil fyrir mitt leyti taka undir þær ábendingar, um leið og ég gagnrýni, að þessi leið skuli ekki hafa verið athuguð og tekin inn í frv. nú, þegar það er endurflutt hér á Alþingi.