04.02.1974
Neðri deild: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

191. mál, málflytjendur

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég tel sjálfsagt, að hv. allshn. taki til athugunar þau sjónarmið, sem hér hafa verið sett fram. En út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, vil ég að sjálfsögðu geta þess, að þær umsagnir, sem fram komu í fyrra, lágu fyrir höfundi frv. og þeim, sem nú gerði breyt. og hafa verið skoðaðar af honum og hefur það verið skoðun hans, að ekki væri ástæða til að taka þær til greina fremur en hér er gert. Ég bendi á, að hann hefur mikla reynslu, ekki aðeins sem lögmaður, heldur einnig sem dómari, og hefur kynnst þessu máli frá tveim hliðum, ef svo má segja.

Í öðru lagi vil ég segja þetta út af því, sem hv. 5. landsk. sagði um takmarkaðan aðgang að stéttinni. Ég get verið honum sammála að meginstefnu til, að það sé æskilegt, að það séu ekki settar óeðlilegar takmarkanir á möguleika manna til að komast inn í stéttina. Hins vegar er það náttúrlega um fleiri en lögfræðinga, að þótt þeir hafi lokið háskólaprófi, er krafist tiltekins reynslutíma af þeim, t.d. að læknakandidatar hafi starfað á spítölum, til þess að þeir öðlist fullkomin réttindi. Annars hélt ég satt að segja, að það hefði ekki kveðið mjög mikið að takmörkunum í lögmannastéttinni að undanförnu. Það hafa allmargir öðlast lögmannsréttindi. Jafnvel hefur það sætt nokkurri gagnrýni, að allmargir hafa öðlast þessi réttindi og hafa starfað nokkuð að þessu, án þess þó að lögmannsstarf hafi verið þeirra aðalstarf. Ég held þess vegna, að það sé ekki hægt að segja nú, að það sé neinn hörgull á málflutningsmönnum. Ég held satt að segja, að jafnnauðsynlegt sem það er, að nægilegur fjöldi lögmanna sé fyrir hendi, þá sé álíka óheppilegt, að þeir séu of margir, sem fást við þessi störf. Bæði er nú það, að það gæti kannske skapað freistingu fyrir þá að fara a.m.k. á ystu nöf stundum með að ráðleggja mönnum að fara í mál, þar sem ekki væri ástæða til, og svo er hitt, að það er mjög nauðsynlegt, eins og ég sagði reyndar í þeim fáu orðum, sem ég sagði áðan, að almenningur geti borið traust til þessara manna, ekki aðeins að þeir kunni sitt fag og flytji sitt mál þannig, að ekki verði til tjóns fyrir aðila, heldur líka er vert að hafa það í huga, að þarna er oft og einatt um mikla fjárvörslu um að ræða, þeir hafa tíðum mikið fé undir höndum vegna skjólstæðinga sinna, og þess vegna er óhjákvæmilegt að gera til þeirra nokkuð verulegar kröfur.

Hv. þm. gagnrýndi það, að með þessum hætti væri verið að gera ákveðinn þjónustutíma hjá lögmönnum að skilyrði, verið að hefta það, að menn gætu komist inn í stéttina, og verið að hefta það með þeim hætti, að það væri í raun og veru verið að leggja það að verulegu leyti á vald lögmannanna sjálfra. En það er nú kannske í reyndinni minni munur á þessu og viðteknum hætti heldur en fljótt á litið gæti virst. Reglan er sú, að menn verða að afla sér 4 prófmála og flytja þau. Í langflestum tilfellum hafa ungir lögfræðingar ekki annan kost til þess að afla sér þessara mála, heldur en að snúa sér til einhvers eða einhverra lögmanna og eiga það undir góðvild þeirra, að þeir fái mál hjá þeim til meðferðar, vegna þess að eins og eðlilegt er, þá snúa menn sér fyrst og fremst til þeirra lögmanna, sem hafa öðlast réttindi, eru þekktir jafnvel og hafa opnar skrifstofur, en síður að þeir leiti til algerra nýgræðinga, sem engin mál hafa flutt. Þess vegna held ég, eftir þeirri þekkingu, sem ég hef á þessu, að langoftast sé það svo, að hinir ungu lögfræðingar, sem hafa verið að öðlast málflutningsréttindi með flutningi þessara prófmála, hafi orðið að fara þessa leið: að snúa sér til lögmanna eða lögmannsskrifstofu og fá málin hjá henni. Þess vegna hygg ég, að það sé ekki hægt að segja, að í reyndinni sé verið að leggja þetta meir í vald lögmanna en hefur í raun og veru verið. Lögmenn hefðu getað verið það tregir til að láta unga lögfræðinga fá mál að þeir hefðu getað stöðvað aðgang að stéttinni. Ég held, það sé ekki hægt að segja um þá. Ég held þvert á móti, að starfandi lögmenn hafi yfirleitt verið liðlegir í þessum efnum.

En eins og ég sagði áðan, er það fyrirkomulag á þessu, sem er í frv., sjálfsagt ekki það einasta, sem kemur til greina, og ég hef síður en svo á móti því, að það séu athugaðar fleiri leiðir í þessu efni, og treysti hv. n. til að íhuga þetta og íhuga þær ábendingar. sem fram hafa komið hjá þm. um það.