04.02.1974
Neðri deild: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1967 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

144. mál, vínveitingar á vegum ríkisins

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. í sambandi við þetta frv. vil ég strax í upphafi benda á þrjú meginatriði.

1) Helsta nýmæli þessa frv. er það, að lagt yrði bann við því, að ríki og ríkisstofnanir, þar með taldir ríkisbankar svo og Alþingi, standi fyrir þeim sérstöku vínboðum, sem nefnd eru cocktail-boð. Höfuðnýmæli frv. yrði þannig bann við cocktail-boðum á vegum hins opinhera. Þetta er höfuðnýmæli frv. og meginatriði þess.

2) Sú almenna stefna yrði mörkuð, að gæta skuli hófs í veitingum áfengra drykkja á vegum ríkisins og þeirra aðila, sem frv. setur á sama bekk og ríkið. Þessi almenna stefnumörkun þýðir það, að ef opinberir gestgjafar hafa vín um hönd í veislum sínum skuli vínveitingar vera í hófi.

3) Það er ljóst af frv., að opinberum aðilum yrði heimilt að veita vín í matarveislum, en það leiðir af því, sem ég sagði áður, að ef og þegar hið opinbera neytir þessarar heimildar, þá ber að veita vín í hófi. Fráleitt er að skilja þetta ákvæði svo, að hér sé verið að skylda opinbera aðila til þess að veita vín í matarveislum. Frv. felur ekkert slíkt í sér, enda fjarri flm, að leggja slíkt til.

Í framhaldi af þessum orðum vil ég svo endurtaka það, sem segir í grg. fyrir frv., að frv. hefur þann tilgang að draga úr vínveitingum hins opinbera og tryggja, svo sem unnt er, eins takmarkaða neyslu áfengis og tök eru á, ef áfengi annars er um hönd haft í opinberum veislum.

Herra forseti. Það er ekki nýtt, að miklar umr. eigi sér stað hér á landi um áfengismál eða ástand í þeim efnum. Má miklu fremur segja, að áfengismál séu sígilt umræðuefni á Íslandi og oft og einatt býsna mikið hitamál. Sagan sýnir einnig, að á ýmsu hefur gengið um ástand áfengismála í landinu. Það er söguleg staðreynd, að hér hefur verið meira drukkið og verr drukkið í einn tíma en annan. T.d. virðist drykkjuskapur hafa verið hálfgerð landplága á 18. öld, í ofanálag á pestar og óáran og margs kyns vesöld, sem þá herjaði landsfólkið. Drykkjuskapur var einnig útbreiddur ófögnuður á ofanverðri síðustu öld. Góðtemplarareglan átti mikinn þátt í að draga úr þessum ófögnuði með bindindisprédikun og ýmiss konar félagsstarfsemi. Góðtemplarareglan gekk svo hart fram í bindindismálum, að samþykkt var áfengisbann í þjóðaratkvgr., sem fram fór árið 1909. Þetta áfengisbann mátti teljast talsverður viðburður, því að það var þá einsdæmi í Evrópulöndum, en þekkt úr nokkrum ríkjum Bandaríkja Norður-Ameríku. Áfengisbannið á Íslandi stóð fremur stutt. Það var afnumið í tveimur lotum 1922 og 1935 og þá að afstaðinni þjóðaratkvgr. Getur varla heitið, að bannstefnan hafi verið á dagskrá síðan sem úrræði í áfengismálum, nema ef vera skyldi, að henni sé að vaxa fylgi nú á allra síðustu mánuðum, og nefni ég þá í því sambandi, að fulltrúafundur Landssambandsins gegn áfengisbölinu ályktaði svo á síðasta ári, að tími sé kominn til að reyna algert vínbann á Íslandi, t.d. eitt ár. Nú verð ég að segja fyrir mig, að ég tel hugmyndina um algert vínbann ekki raunhæfa. Ég hef einnig takmarkaða trú á því, að mögulegt sé að taka eið af hverjum Íslendingi um algert vínbindindi. Það eru ýmsar ástæður, sem því valda, að ég er andvígur svo róttækum aðgerðum í áfengismálum. En höfuðástæðan er sú, að slíkt bann er í andstöðu við almenningsálitið og yrði aldrei virt í reynd, nema ef til kæmi öflug lögregluherferð, sem öllum yrði hvimleið og andstyggileg.

Hitt er annað mál, að öllum ábyrgum mönnum er skylt að gera sér grein fyrir ástandi áfengismálanna á hverjum tíma. Sérstaklega er nauðsynlegt, að ráðamenn þjóðarinnar, fyrst og fremst alþm., geri sér grein fyrir þessum málum. Einkum finnst mér nauðsynlegt, að stjórnmálamenn viðurkenni fyrir sjálfum sér og öðrum, að áfengismál eru meðal mikilvægustu þjóðfélagsmála og þar af leiðandi beint viðfangsefni stjórnmálamanna. Hins vegar verð ég að efast um það, að allir, sem við stjórnmál fást, þ. á m. alþm., sýni þessum málum verðugan áhuga. Það stafar, að ég held, af því, að menn hafa þá ekki gert sér fulla grein fyrir mikilvægi þessa málaþáttar. Auk þess ber oft við, að umr. um áfengismál fara út í öfgar, m.a. vegna þess að allt of margir hafa öfgafullar fyrirframskoðanir, nánast rétttrúarskoðanir, á áfengismálum. Ég tek sem dæmi umr., sem orðið hafa innan og utan Alþingis um það, hvort leyfa ætti sölu áfengs öls í landinu. Þá sjaldan einhver gerist svo framtakssamur hér á Alþ. að flytja till. um slíka heimild, þá er ekki einasta, að slíkur þm. sé úthrópaður fyrir siðleysi, heldur upphefst í landinu þess háttar vargagangur með undirskriftasöfnunum, fundarsamþykktum og annarri áróðursplágu og móðursýki, að ekki er viðlit að ræða málin í ró og skynsemi.

Nú er ég ekki að mæla með því, að heimilt verði að selja áfengt öl hér á landi. Ég er því andvígur. Ég hef ekki trú á því, að það sé til bóta. En mér er ókunnugt um, að þeir, sem hallast að öndverðri skoðun í ölmálinu, hafi lakari siðgæðisvitund en ég og mínir skoðanabræður, né heldur að þeim sé í mun að auka áfengisvandamálið. Þvert á móti veit ég, að það er einlæg skoðun fjölmargra ágætra manna, að sala áfengs öls mundi minnka áfengisvandamálið. Ég get vel viðurkennt ærlegheit þessara manna, þótt ég aðhyllist ekki röksemdir þeirra og skoðanir. Meginástæðan til þess, að ég er andvígur sölu áfengs öls, er sú, að ég óttast, að áfengt öl mundi auka drykkjuskap á vinnustöðum, sem vissulega yrði meiri háttar vandræðaástand.

En ég var að tala um það, að nauðsynlegt sé, að alþm. og aðrir ráðamenn þjóðarinnar geri sér grein fyrir áfengismálunum og ástandi þeirra. Það er auðvitað skyldast að kynna sér þessi mál, eins og þau eru á hverjum tíma. Samtíðin stendur okkur næst og kemur okkur mest við. Ég nefndi það líka, að drykkjuskapur hefði keyrt úr hófi á 18. öld og einnig á ofanverðri 19. öld. Ég held, að ef litið er til samtímans, komi eitthvað svipað í ljós, áfengisneysla hafi vaxið mjög á síðustu 10–12 árum og breiðst út til lægri aldursflokka en áður, að því er líkur og athuganir benda til. Neysla áfengis á mann miðað við 100% áfengi var 2.88 lítrar árið 1973, en var 1.71 lítri árið 1960. Árið 1963 var þessi tala 1.93. Skýrslur um áfengisneyslu á mann ná aftur til ársins 1881. Því miður hef ég ekki tölu fyrir það ár. Hins vegar hef ég upplýsingar um, að meðaltal áfengisneyslu á mann á árabilinu 1881–1885 var 2.38 lítrar. Þetta met var ekki slegið fyrr en árið 1967, en þá var neyslan einnig 2.38 .lítrar. En síðasta ár, árið 1973, er þó algert metár með sína 2.88 lítra af hreinum vínanda á mann. M.ö.o.: drykkjuskapur er nú um þessar mundir útbreiddari og algengari á Íslandi en hann hefur verið síðustu 95–100 ár, og e.t.v. er drykkjuskapur nú meiri en nokkru sinni fyrr í 1100 ára sögu þjóðarinnar. Þetta er staðreynd, sem nauðsynlegt er, að menn þekki.

Það er ekki síst nauðsynlegt, að hv. alþm. viti þetta. Það er að vísu nokkur huggun og einnig nauðsynlegt, að menn viti, að drykkjuskapur mældur á þennan hátt er miklu meiri í flestum öðrum löndum, einkum vínyrkjulöndum og meðal bjórdrykkjuþjóða. Hjá þessum þjóðum eru borðvín og öl stór liður í daglegri neyslu manna, auk þess sem þeir neyta sterkra drykkja í meira eða minna magni. Sé svona mælt og miðað við önnur lönd, verður harla lítið úr drykkjuskapnum á Íslandi þrátt fyrir allt.

En hvað sem líður þessum samanburði við áfengisneyslu í öðrum löndum, þá kem ég aftur að því, að drykkjuskapur hér á landi fer vaxandi ár frá ári og er nú meiri en fyrr í manna minnum. Það er einnig margra álit, að Íslendingar eigi við að stríða margs konar vandamál vegna áfengisneyslu. Ég minnist þess t.d., að aðalfundur Læknafélags Íslands, sem haldinn var á Blönduósi í júní 1972, ályktaði í þá átt, að áfengisneysla landsmanna væri réttnefnt áfengisböl. Taldi fundurinn, að sérstakra aðgerða væri þörf til þess að koma í veg fyrir neyslu áfengis, og ályktaði svo, að ekki yrði komist hjá því að takmarka sölu áfengra drykkja. Luku læknarnir ályktun sinni með beinni áskorun á viðkomandi yfirvöld, eins og þeir segja, „að hefja nú þegar aðgerðir til að diaga ár sölu áfengra drykkja“. Þetta var allt aðalfundar Læknafélags Íslands 1972.

Það er eftirtektarvert, að læknarnir tala um ástandið í áfengismálum sem áfengisböl. Það eru því ekki einungis stúkumenn og aðrir bindindispostular, sem taka svo stórt upp í sig að kalla drykkjuskapinn í landinu áfengisböl. Læknastéttin, sem ætti að þekkja þessi mál öðrum betur, hefur kveðið upp þann dóm, að drykkjuskapur sé þjóðarböl á Íslandi. Því miður hef ég lítil tök á að greina nákvæmlega frá því, hvernig áfengisbölið lýsir sér. Ég get sagt það eitt, að það birtist í ótal myndum og oftast hryggilegum. Þúsundir manna eru haldnir drykkjusýki á ýmsu stigi, þannig að ætla má, að ofdrykkja eða drykkjusýki sé meðal útbreiddustu sjúkdóma í landinu. Ég hef jafnvel heyrt því haldið fram, að Íslendingum kunni að vera hættara til alkóhólisma en öðrum þjóðum. Ég skal ekkert um það dæma, en vel má vera, að eitthvað sé til í þessu.

Heimilisböl og fjölskylduvandræði, sem fylgja ofdrykkju og annarri misnotkun áfengis, eru miklu algengari hér á landi en menn vilja oft viðurkenna. Halldór Laxness sagði fyrir rúmum 30 árum í frægri grein um drykkjuskapinn í Reykjavík, að ekki væri til sú fjölskylda, sem ekki hefði eitthvað af ofdrykkjufólki að segja. Hafi þetta átt við rök að styðjast fyrir 30–40 árum, þá mun það ekki síður satt nú á dögum. Áfengisbölið er einnig fólgið í vinnutapi og eignatjóni og ekki síst í margs konar afbrotum og spilltu eða andfélagslegu líferni. Auk þess held ég, að það fari ekki á milli mála, að drykkjuskapur er næstum að segja þungamiðja skemmtanalífsins í landinu. Ég hugsa, að ég sé ekki einn um þá skoðun, að hvergi í heiminum sé ferlegri drykkjuskapur á samkomum en hér á landi, þegar fólki tekst virkilega vel Upp. Það er sannkölluð stórdrykkja, enda umhverfast samkomuhús hér stundum í alger vitfirringahæll. Öll höfum við séð þetta fyrir okkur og sjálfsagt tekið þátt í þessu mörg hver, enda stundum örðugt um vík að koma þar hvergi nærri. Í þessu sambandi dettur mér í hug, hvort lögregla á nokkru byggðu bóli sé jafnupptekin af því að eltast við ölóða menn eins og í Reykjavík. Mér finnst óhugnanlega áberandi, hversu mikið af fréttum frá lögreglunni fjallar um afskipti hennar af beinu ölæði fólks. Og ég kemst ekki hjá að nefna það, sem mér finnst mjög áberandi við drykkjuvenjur okkar Íslendinga, en það er ölvun á almannafæri, svo sem á götum úti, í almenningsfarartækjum og afgreiðslustöðum. Ef ölvun á almannafæri leiðir til vandræða, þá er augljóst, að það er refsivert athæfi. En svo er fyrir að þakka, að Íslendingar eru umburðarlyndir og íslenskir dómarar ekki refsiglaðir, enda er lítið lát á því, að menn auglýsi þann hegðunarmáta sinn að veltast meira og minna drukknir á almannafæri.

Allt það, sem ég hef nefnt, er þáttur í áfengisvandamálinu, og flest af því þess eðlis, að það hlýtur að teljast áfengisböl. En margt er þó enn ósagt í þessu máli. Ég hef lítið rætt um drykkjuskap unglinga og drykkjutísku skólaæskunnar. Hygg ég þó, að í þeim efnum hafi orðið hvað mest breyting á síðustu árum. Athuganir benda til þess, að aukning meðaltalsdrykkjunnar í landinu síðustu ár stafi að verulegu leyti af því, að fólk byrjar nú að drekka miklu yngra en áður og að kvenfólk drekkur meira og almennara en áður var. Það fer ekki á milli mála, að skólarnir í landinu eiga við mikið áfengisvandamál að etja. Drykkjutíska er nú faraldur meðal skólaæskunnar. Þannig er ég ekki í neinum vafa um það, að ástandið í áfengismálum þjóðarinnar er slæmt um þessar mundir, og það er nauðsynlegt, að ráðandi menn í landinu leiði hugann að áfengisbölinu, reyni að gera sér skynsamlega grein fyrir orsökum þess og afleiðingum og hvað verða megi til þess að bæta þar nokkuð úr. Ég er að vísu vantrúaður á allar patentlausnir í þessu máli eins og öðrum málum. Ég hef t.d. enga trú á algeru aðflutningsbanni á áfengi eða öðrum ámóta ráðstöfunum. En ég held, að það sé nauðsynlegt að hugleiða í fullri alvöru, hvernig draga megi úr sölu og veitingum áfengra drykkja, eins og Læknafélagið lagði til, og leitast við að vara fólk við neyslu áfengis og innræta mönnum það, sem varla er hægt að deila um, áfengi er meira og minna hættulegt eiturlyf, sem haft getur alvarleg áhrif á líkams- og geðheilsu manna. Einnig mætti leiða mönnum það fyrir sjónir, að óhófsdrykkja, í hvaða formi sem er, er smekkleysi og menningarskortur, svo að ég vísi til þess, sem sagt er í grg. fyrir þessu frv.

Það frv., sem hér er til umr., er fjarri því að vera nokkur allsherjarlausn á áfengisvandamálinu, enda er því ekki ætlað að vera það. Þetta frv. fjallar aðeins um afmarkað efni og tiltölulega þröngt svið. Frv. hefur þó þann tilgang að draga úr vinveitingum hins opinbera, og skapa þannig fordæmi fyrir aðra, sem vissulega er mikils virði. Við flm. teljum það verulega bót og einnig auðframkvæmanlegt, að ríkið afleggi cocktail-boð. Þetta er tiltölulega nýtt form gestamóttöku og hefur varla unnið sér neina órofahefð. Ég sé ekki, að neinum geti verið eftirsjá í cocktail-boðum. Það eru til ótal leiðir til þess að veita gestum góðan beina án þess að hella í þá viskíi og öðrum vínblöndum á 11/2 eða 2 klukkutímum. Það væri mikilsvert fordæmi, ef ríkið gengi á undan og legði niður cocktail-boð, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég er ekki í neinum vafa um það, að því yrði víða fagnað í landinu, ef sú yrði niðurstaðan, og gæti auk þess haft víðtæk áhrif í þá átt að draga úr vínveitingum annarra aðila, svo sem sveitarstjórna og einkafyrirtækja. Cocktail-boð eru hreinar drykkjuveislur. Þar er tæpast annað veitt en áfengi. Drykkjuskapur er þar aðalafþreyingin. Hér er um að ræða tískusið, sem við höfum apað eftir öðrum. Með cocktail-boðum er verið að efna til hópdrykkju, sem lukkan ein ræður, hvar enda muni. Það er ekkert, sem tryggir það, að áfengis sé ekki neytt í óhófi í slíkum drykkjuveislum. Að dómi okkar flm. ætti hið opinbera að ganga á undan Um að afleggja þennan sið.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta mál öllu fleiri orðum, enda skýrir frv. sig langbest sjálft. Tilgangurinn með frv. er augljós, og ég vona, að sú stefna, sem frv. er ætlað að marka, eigi meirihlutafylgi að fagna hér í hv. þd. og almennt meðal þm.

Að svo mæltu, herra forseti, vil ég leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr, vísað til 2. umr. og allshn.