04.02.1974
Neðri deild: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1972 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

144. mál, vínveitingar á vegum ríkisins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að flytja hér langt mál. Þó ég get ekki stillt mig um það í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr. og fyrri flm. var að fylgja úr hlaði, að nefna það, að á siðasta þingi var flutt till. til þál. um afnám vínveitinga á vegum ríkisins. Sú till. hlaut ekki afgreiðslu á síðasta þingi, og hún var endurflutt aftur á þessu þingi og vísað til n. Þessi till. er mjög stutt og skorinorð, flutt af miklum bindindisfrömuðum í öllum flokkum þingsins, og er á þá leið, að Alþ, ályktar að skora á ríkisstj. að hætta vínveitingum í veislum sínum. Má segja, að að sumu leyti sé þetta frv. nokkru hóflegra, því að flm. þess ganga ekki lengra en að það skuli gæta hófs í veitingum áfengra drykkja í gestaboðum og öðrum samkvæmum á vegum ríkisins og að íslenska ríkinu sé, samkv. þessu frv., óheimilt að standa fyrir sérstökum vínboðum eða cocktail- boðum hér á landi, en aftur heimilt að veita vín í opinberum matarveislum.

Það er nokkur munur á þáltill. og þessu frv. Ég fyrir mitt leyti get mjög vel fallist á það og lít ekki svo á, að það þyrfti að festa í lög, að þessi leiðinlegu cocktail-boð væru lögð niður með öllu, og að því leyti get ég verið flm. þessa frv. algerlega sammála. En þetta frv. gerir aðeins ráð fyrir því að gæta hófs í vinveitingum í gestaboðum og öðrum samkvæmum á vegum ríkisins og leggja niður cocktail-boð á vegum ríkisins, en nær t.d. ekki til sveitarfélaga. Nú mun þessi háttur vera nokkuð á hafður hjá sumum sveitarfélögum. Önnur sveitarfélög hafa aldrei veitt vín í sínum veislum eða móttöku. Ef þetta á að lögfesta hvað snertir ríkið og í veislum ríkisins, væri þá ekki réttara að láta þetta ná til sveitarfélaganna, sem eru einnig opinberar stofnanir.

Mín skoðun er sú, að bæði þáltill. og eins þetta frv. gangi ákaflega skammt og hafi lítið að segja. Ég get alveg tekið undir þau orð hv. fyrra flm. þessa frv., að þetta hafi ekki mikið að segja, þegar litið er á þá óhóflegu víndrykkju, sem á sér stað í lendinu og alltaf er að aukast, eins og hann færði sönnur á. Ég held, að aðgerðir, sem Alþ. hefur gert í þessum efnum, hafi verið ákaflega veigalitlar, og menn hafa litið á, að það megi engu breyta, sem hefði kannske orðið til hins betra. Það eru ekki mjög mörg ár síðan samþ. var þáltill. á Alþ. Um áfengisvandamálið, sem var árangur af starfi mþn. Þegar sú till. kom hér til umr., var um hana fjallað í n., sem ég átti sæti í, og það var mikið rætt um, hvort væri ekki rétt að færa aldursmörk niður, en þá voru þau miðuð við 21 árs aldur, — enginn mátti neyta áfengis undir þeim aldri, en er nú 20 ára aldur. Ég leyfði mér þá að halda því fram í þeirri n., að það væri rétt að færa þennan lögaldur neðar, niður í 17 ár, jafnvel 16 ár, og þá man ég eftir því, að nokkrir þm. voru hneykslaðir á því að láta slíkt viðgangast, að ætla að færa áfengisaldurinn niður og leyfa allt að 16 ára unglingum að neyta víns. Skoðun mín var sú, að með því að færa aldurinn niður ætti að taka upp harða og sterka baráttu gegn vínneyslu innan við þennan aldur. En nú er það almennt viðurkennt, að unglingar eru farnir að neyta víns langt innan við 16 ára aldur, og löggæslan ræður ekki við þessa hluti, því að hún á að hafa hemil og ná til allra, sem neyta víns og eru 20 ára eða yngri.

Ég held, að það, sem hefur verið gert í þessum efnum, hafi yfirleitt verið máttlaust, og það, sem verið er að leggja til hér á hv. Alþ., er ákaflega lítils virði að mínum dómi. Ég held, að það sé áhrifaríkast að berjast gegn vaxandi vínneyslu barna og unglinga og koma því inn hjá þjóðinni almennt, að það sé glæpur að láta það viðgangast, að börn og unglingar neyti áfengra drykkja.

Á sama tíma og menn eru uppi með tilburði um það að banna cocktail-boð hjá ríkinu eða afnema vínveitingar í veislum ríkisins, er lagt alltaf meira og meira upp úr því, að íslenska ríkið byggi meira á því, að þjóðin drekki í auknum mæli, og hafi meira fé út úr landsmönnum með hagnaði af Áfengisverslun ríkisins. Við vorum rétt fyrir jólin að afgreiða fjárlagafrv., og þar er byggt á, að ríkissjóður hafi um 600 millj. kr. meiri tekjur af Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir, sem lagt var fram í þingbyrjun. M.ö.o.: þeir, sem ráða þjóðfélaginu, eru alltaf að byggja meira og meira á því, að þjóðin bæti við drykkjuskapinn. Það er ekki svo, að með hækkun áfengis, sem gerð var nú eftir síðustu áramót, eigi að ná þessum auknu tekjum inn, heldur er einnig í þessari áætlun reiknað með því, að hver og einn drekki eða innbyrði meiri vínanda en áður. Ég segi, að hjá þeim þm., sem byggja afkomu þjóðfélagsins á því að selja landsmönnum meira brennivín, á meiri vínneyslu en áður, sé það hræsni að flytja till. eins og þá að afnema einhver cocktail-boð eða vinveitingar á vegum ríkisins, það er alger hræsni. Ég skora á þessa menn og þá hv. n., sem fær þetta frv. til meðferðar, að skoða áfengisvandamálið í ljósi staðreynda og í því ljósi að minnka drykkjuskapinn. Getum við þá ekki alveg eins orðið sammála um að loka Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins algerlega og hafa hér algert bann á vínneyslu? Ég álít, að þessar till. séu fyrst og fremst hræsni, þar er ekkert gert til þess að minnka drykkjuskapinn, á sama tíma og þeir, sem hafa áhuga á þessum málum, eru að flytja hækkunartill. við fjárl. um, að ríkið hafi meiri tekjur af brennivínssölunni en áður og byggja það á því, að þjóðin innbyrði meiri vínanda en áður.