04.02.1974
Neðri deild: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

144. mál, vínveitingar á vegum ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af síðari ræðu hv. 2, þm. Vestf. Ég sé, að hann er þarna inni, þannig að hann heyrir mitt mál. Hann vék að því, að það væri ekki síður ástæða kannske til þess að banna reykingar, þær væru skaðvaldur, og ég tek undir það með honum. Ef honum verður eitthvað hugarhægra við það, þá skal ég ásamt honum beita mér fyrir því, að sú n., sem um þáltill. fjallar í sambandi við vínveitingar, gerði þá brtt. og bæti við, að tóbaksreykingar séu einnig bannaðar í opinberum veislum. Ég skal gangast fyrir því með honum, er honum verður hugarhægra við það.

En út af tóbaksreykingunum annars vegar og áfengisbölinu hins vegar þá veit ég, að hv. 2. þm. Vestf. þekkir það miklu betur en ég, að það er tiltölulega auðveldara fyrir einstaklinga að venja sig af tóbaksreykingum heldur en af áfengisneyslu. Það þekkir þessi hv. þm. miklu betur en ég. Ég held einnig, að menn séu almennt sammála um, að áfengisbölið og áfengisdrykkja sé miklum mun meiri skaðvaldur fyrir miklu fleiri heldur en bara þann einstakling, sem neytir áfengisins, því að það hefna áhrif á miklu fleiri einstaklinga, sú — liggur mér við að segja öfugþróun og sá ömurleiki sem í mörgum tilfellum skapast við það, að einn einstaklingur innan t.d. fjölskyldu er orðinn áfenginu að bráð. Það er ekki bara sá einstaklingur, sem drekkur vínið, sem verður fyrir barðinu á þessu, það er líka og kannske ekki síður allir aðstandendur innan fjölskyldunnar og miklu fleiri, þannig að í mínum augum er áfengisvandamálið og áfengisdrykkja miklu meira vandamál heldur en þó tóbaksreykingar, þó að ég taki undir það með hv. 2. þm. Vestf., að það mætti að skaðlausu bæta þessu við og taka upp baráttu gegn þeim líka.