05.02.1974
Sameinað þing: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1981 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

186. mál, ábyrgð vegna mistaka við hönnun hafnarmannvirkja

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 333 fsp. í tveim liðum til hæstv. samgrh. Fsp. er svo hljóðandi:

„1. Hverjar eru helstu niðurstöður nýútkominnar skýrslu danskra sérfræðinga um burðarþol og hagnýtt gildi nýrra hafnarmannvirkja við Oddeyrartanga á Akureyri?

2. Hyggst ráðh. láta kanna til hlítar, hver beri ábyrgð á mistökum við hönnun mannvirkjanna, svo að réttur aðili beri kostnað, sem af þeim stafar?“

Á árinu 1969 var hafist handa við að byggja nýja vöruhöfn á Akureyri, en þá hafði Eimskipafélag íslands mjög sóst eftir því að bæta aðstöðu sína þar í samræmi við þá stefnu að auka þjónustu sína í umhleðslu vara á nokkrum höfnum á landsbyggðinni. Fyrsti áfangi vöruhafnarinnar skyldi vera 350 m viðlegukantur sunnan Oddeyrartanga, og var Eimskipafélaginu þegar í stað ætluð lóð á uppfyllingu ofan við vöruhafnarbryggjuna. Vita- og hafnamálastjóri áætlaði byggingarkostnað 1, áfanga 15 millj. kr., og fékkst loforð um lánsfé frá atvinnumálanefnd ríkisins og Norðurlandsáætlun til þess að hefja framkvæmdir þegar í stað, en gert var ráð fyrir fjárveitingum frá Alþ. fyrir ríkishlutanum á næstu árum. Rekstraráætlanir sýndu, að hafnarsjóður gat staðið undir þessu að sínum hluta. Ákveðið var í maí 1969 að hefjast þegar handa.

Síðan kom í ljós, að þessar áætlanir reyndust strax helmingi of lágar, en nánar verður ekki farið út í þá sálma hér.

Hafnarstjórn Akureyrar taldi ekki óeðlilegt að fela vita- og hafnamálastjóra að annast alla hönnun bryggjunnar, og tók hann það verk að sér. Að loknum jarðvegsrannsóknum var gerður samanburður á kostnaði við bryggjusmíðina eftir því, hvort hún væri gerð úr forspenntum steinsteypuhlutum eða stálþili, og var skýrsla um þetta atriði lögð fyrir hafnarstjórn, og að fengnum meðmælum hafnamálastjóra var ákveðið, að bryggjan skyldi gerð úr strengjasteypuhlutum framleiddum á Akureyri, enda var sú lausn ekki talin dýrari en stálþilslausnin í ráðurnefndum skýrslum.

Í árslok 1969 hafði verið lokið við landvegg bryggjunnar og gengið frá grjótfláa framan við hann, og vorið 1970 hófst framleiðsla á strengjasteypuhlutum í bryggjuna eftir teikningu frá vita- og hafnarmálastjóra. Þegar framkvæmdir voru hafnar aftur í apríl 1970, kom í ljós, að undirstöður vöruskálans og landveggur bryggjunnar höfðu sigið verulega þá um veturinn. Var viðkomandi verkfræðingum tilkynnt um þetta, og kallaði Eimskipafélag Íslands á sérfræðing frá Norsk Geoteknisk Institut sér til ráðuneytis, og kom hann til Akureyrar 29. apríl, en þá var m.a. unnið við staurarekstur. Er sérfræðingurinn hafði kynnt sér teikningar að bryggjunni, lét hann þegar í stað ljós efasemdir um, að burðarþol hennar væri nægjanlegt, og í bréfi, sem hann skrifaði, taldi hann vanta verulega á, að svo væri. Hann taldi, að hurðarþol hvers staurs væri vart meira en 100 tonn í stað 300 tonna, sem nauðsynlegt væri. Hafnarstjórinn á Akureyri leitaði eftir því við verkfræðinga vita- og hafnamálastjóra, að þeir ræddu við sérfræðing Norsk Geoteknisk Institut um hönnun bryggjunnar, en hann fór af landinu, án þess að af því yrði.

Þrátt fyrir það að hafnarstjórn Akureyrar hefur alla tíð talið vita- og hafnamálastjóra ábyrgan fyrir hönnun verksins, leitaði hún álits Norsk Geoteknisk Institut á hönnun þeirri, sem fyrir lá á bryggjunni. Álit þessarar stofnunar kemur fram í mörgum bréfum, sem hún skrifaði hafnarstjórn Akureyrar, og var vita- og hafnamálastjóri beðinn um að kynna sér innihald bréfanna og tjá sig um málið. Álit hans kemur fram í bréfi, dags. 11. ágúst 1970, en í þessu bréfi kemst hafnamálastjóri að þeirri niðurstöðu að ótvírætt sé, að hafnargerðinni verði haldið áfram samkv. fyrri áætlunum, og var það gert. Í bréfi Norsk Geoteknisk Institut, dags. 14. júlí 1971, er látið að því liggja, að burðarþol stauranna undir bryggjunni væri e.t.v. ekki nema 50–60 tonn, en þyrfti að vera 300 tonn. bskaði hafnarstjórn þá eftir því við hafnamálastjóra, að hann tæki afstöðu til efnis þessa bréfs, og mætti hann á fundi hafnarstjórnar 16. ágúst það ár. Á þessum fundi kom fram sú afstaða vita- og hafnamálastjóra, að þetta mundi rétt vera hjá Norsk Geoteknisk Institut. Fékk hann til ráðuneytis við sig danska sérfræðinga, sem hafa nú skilað áliti til hafnarstjórnar, en verkið hefur legið niðri þennan tíma. Er það erindi mitt með fsp. að fá fram, hvað í þessari skýrslu dönsku sérfræðinganna sé að finna um þetta mannvirki, og jafnframt að fá úr því skorið, hvort ráðh. hyggist beita sér fyrir því að kanna lagalega hlið þessa máls.