05.02.1974
Sameinað þing: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1990 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

402. mál, orkusala Landsvirkjunar til Norðlendinga

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. komst einhvern veginn þannig að orði, að ég hefði verið að leika mér að því að velta því fyrir mér hér, að það yrði ekki komin innlend orka til Norðurlands fyrr en árið 1978. Ég get fullvissað hann um, að ég er ekki að leika mér að neinu í þessum efnum. Það er enginn leikur, ef það verður, og það er fullkomin ástæða til þess að óttast það, — ég vil benda hæstv. ráðh. á það. Ég skal e.t.v. koma svolítið betur inn á það hér í þeim fáu orðum, sem ég get sagt núna um þetta mál.

Ég óska hv. 1. þm. Norðurl. e. til hamingju með að kalla það nöldur, ef einhverjir óttast, að það sé vá fyrir dyrum í orkumálum Norðlendinga, ég óska honum sannarlega til hamingju með þá — (Gripið fram í.) Það er nöldur í mér, já. En það getur verið nöldur í fleirum bv. þm., það getur orðið nöldur í fleirum, ef sá grunur minn er réttur og margra Norðlendinga, eins og ég fullyrti hér, að það væri fullkomin óvissa um það, — og ég hélt, að það hefði verið sameiginleg niðurstaða allra þm. Norðurl. e. á fundi, sem við héldum fyrir stuttu, — að það væri fullkomin óvissa um, að við fengjum innlenda orku fyrr en 1978.

En ég ætlaði að víkja hér að ýmsu fleiru. Það var rætt um, að það hafi verið algjörlega á ábyrgð fyrrv. ríkisstj., hvernig ástandið væri í orkumálum Norðlendinga. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. og þá, sem halda slíkri firru fram: Hvað á þessi hæstv. ríkisstj. að sitja lengi til þess, að hún beri yfirleitt ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut? Það var vitað mál. þegar hæstv. ráðh. settist í ráðherrastól, að það var yfirlýst stefna hans flokks á Norðurl. e., að það yrði ekki virkjað meira í Laxá en gert var, og jafnvel var sagt í málgögnum hans nyrðra, að það yrði aldrei hleypt vatni á þessar vélar Laxár, þannig að hann mátti vita það, að sú leið yrði ekki fær til að afla orku fyrir Norðlendinga. Og það var ekki fyrr en nokkru eftir að hann settist í ráðherrastól, sem hann tók ákvörðun um það að afla Norðurlandi orku með línu norður. Síðan hefur ekkert verið gert í þeim virkjunarmálum Norðurlands, sem hefðu komið að gagni á þessu tímabili. Það var tvívegis frestað að halda áfram rannsóknum á Kröflu, þrátt fyrir það að skýrslur lægju fyrir um það, að gufuvirkjanir væru hagkvæmar. Það var ekki tekið fjármagn til rannsókna á Kröflu árið 1972 og ekki 1973. Samt segir hæstv. ráðh., að það sé ekkert sér að kenna í orkumálum Norðurlands. Nei, nei, nei, það er fyrrv. ríkisstj. Og það á að vera talið nöldur í mér, þegar ég er að tala um þessa hluti.

Ég vil benda hv. 1. þm. Norðurl. e. og hæstv. ráðh, á, að það er fullkomin óvissa um, að hægt sé að koma háspennulínu norður á árinu 1975. Það er aðeins farið að athuga um efni í þá framkvæmd. Þarna er um 223 km að ræða, frá Hvalfirði og norður í land, og það hefur vafist fyrir mörgum minna verkefni en það að koma því upp á 11/2 ári og vera ekki farinn að undirbúa það að neinu ráði.

Um Kröfluvirkjun erum við alveg sammála, en ég held, að það sé alveg ljóst, að hún verður ekki komin upp fyrr en árið 1977 eða 1978. Hvaða aðrar leiðir ætlar hæstv. ráðherra að fara? Og hvernig er áshatt með raforku hér á Landsvirkjunarsvæðinu, þó að línan kæmist upp árið 1975? Það er vitað, eins og hann gat ekki annað en viðurkennt sjálfur, að það yrði ekki örugg orka með þeirri línu veturinn 1975–1976 til Norðurlands. Það er ekkert nöldur, sem ég er að fara með hér, þetta er stóralvarlegt mál, og ég vil biðja a.m.k. hv. 1. þm. Norðurl. e. að hugleiða það mjög rækilega.