05.02.1974
Sameinað þing: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1994 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

193. mál, eignaraðild útvegsmanna að fiskiskipaflotanum

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 341 fsp. til sjútvrh. um raunverulega eignaraðild útvegsmanna að fiskiskipaflotanum. Hér er um tvær fsp. að ræða:

„1. Hver var vátryggingarfjárhæð alls íslenska fiskiskipaflotans 31. des. 1973?

2. Hve hárri fjárhæð samtals námu skuldir meðlima Landssambands ísl. útvegsmanna 31. des. 1973, sem tryggðar voru með veðum í sama fiskiskipaflota og nefndur er í fyrri spurningunni?“

Ástæðan fyrir fsp. er þessi: Mismunurinn á þeim tölum, sem þarna koma fram, á að gefa til kynna, hvort L.Í.Ú. sé rétti aðilinn til að kveða upp um það, hvort fiskiskipaflotinn sé látinn liggja í höfn í byrjun vertíðar eða ekki. Tölur þær, sem þarna koma fram, mundu einnig leiða í ljós, hvort eignarheimild fiskiskipaflota landsmanna sé ekki í höndum skakkra aðila, þar sem meðlimir L.Í.Ú. eru annars vegar og lánardrottnarnir hins vegar, þ.e.a.s. að stærsta hluta opinberir sjóðir eða m.ö.o. almannafé.