05.02.1974
Sameinað þing: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (1801)

193. mál, eignaraðild útvegsmanna að fiskiskipaflotanum

Fyrirspyrjandi (Bjarni Guðnason):

Herra forseti. Þessar fsp. voru bornar fram til þekkingarleitar af minni hálfu, því að mér skilst, að eitt mesta vandamálið í íslenskum efnahagsmálum og undirstaðan sé rekstrargrundvöllur útgerðarinnar. Það hagar svo til, að þetta stóra mál rekstrargrundvöllur útgerðarinnar, er alltaf í óvissu. Jafnvel þegar afurðaverð er hærra en nokkru sinni fyrr í sögu þjóðarinnar, virðist útgerðin berjast í bökkum. Mér virðist að þetta stóra mál sé látið lönd og leið áratug eftir áratug og ekki reynt að kryfja það til mergjar, hvað veldur þessum erfiðleikum útgerðarinnar, og þarf íslenska þjóðin að standa fyrir reglubundnum gengisfellingum til þess að bjarga útgerðinni alltaf öðru hverju. Hver er hinn raunverulegi vandi útgerðarinnar? Ég hygg, að það væri vert að reyna að taka þessi mál nýjum tökum, því að meðan hagar eins og nú er, virðist ekki unnt að reka hér heilbrigðan rekstur í útgerð nema með alls konar óheillavænlegum ráðstöfunum eins og gengisfellingum öðru hverju.

Ég ætla að íhuga þessar tölur nánar og vita, hvort ég get ekki innan skamms komið fram með till. eða ábendingar um það, hvernig megi e.t.v. laga þessi mál, hvort það sé ekki vert að reyna að rannsaka ofan í kjölinn raunverulegan rekstrargrundvöll útgerðarinnar. Það er gefið mál, að þegar menn fá 90–95% lán í skipi, þá er um engan rekstrargrundvöll að ræða. Það þarf engan speking til að sjá það. Og þá er spurningin þessi, hvort Fiskveiðasjóður ætti þá ekki að vera eignaraðili að rekstri skipsins, að útgerðinni, a.m.k. um nokkurt skeið, þar til útgerðarmenn eða bæjarfélög hafa greitt a.m.k. stærri hluta í eign skipsins.