05.02.1974
Sameinað þing: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

403. mál, skipun formanns stjórnarnefndar ríkisspítalanna

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hv. þm. Bjarni Guðnason virðist ekki hafa áttað sig á því, sem ég var að segja áðan. Þegar upp koma álitamál um meðferð á sjúklingum á sjúkrahúsum t.d., þá er það landlæknir, sem fjallar um slík mál, skv. lögum. Ráðuneytisstjóri er hins vegar til þess að framfylgja ákvörðun rn. um stefnumörkun framkvæmda, m.a. hjá þeim stofnunum, sem undir rn. heyra. Þetta er, eins og ég rakti áðan, ákaflega stór, kostnaðarsöm og mikilvæg stofnun, ríkisspítalarnir, og það er orðin ákaflega mikil nauðsyn á því, að þar verði reynt að koma upp fastari stjórn en verið hefur. Erlendis, þar sem ég þekki til. er það orðið alveg sérhæft fag að stjórna ríkisspítölum, það er hægt að mennta sig í slíku starfi, og ég hygg, að þar eigum við ákaflega mikið ólært. Þessi aðgerð mín átti að stuðla að því marki, að þarna gæti orðið um fastari stjórnun og hagkvæmari og öflugri rekstur að ræða. Að í þessu birtist skortur á tilfinningu fyrir lýðræði, vísa ég algerlega á bug. Ég rakti það í orðum mínum hér áðan, að einmitt hin nýja skipan stjórna fyrir spítölum í landinu tekur nútímalegt mið af lýðræðislegum hugmyndum, þar sem starfsmennirnir hafa ekki aðeins rétt til að koma á framfæri sínum sjónarmiðum, heldur einnig til þess að taka þátt í ákvörðunum. Og það eru ekki ýkjamargar stofnanir á Íslandi, þar sem þeirri skipan hefur verið komið á. Með hinum nýju lögum, sem tóku gildi um áramót, er einmitt verið að tryggja mun víðtækari og lýðræðislegri stjórn þarna en verið hefur.

Herra forseti. Fsp. á þskj. 341 um rækjuveiðar og rækjuvinnslu á Húnaflóasvæðinu, er í fyrsta lagi borin fram með tilvísun til l. um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni, en skv. þeim l. er ráðh. heimilt að veita veiðiheimildir í fiskveiðilandhelginni til sérstakra veiða, eins og greint er frá í 10. gr. þeirra l., sem nýlega hafa verið samþ. hér á hinu háa Alþingi. Þar segir svo m.a. um rækjuveiði: „Ráðh. getur veitt undanþágu til þess að stunda rækjuveiðar á tilteknum svæðum. Skal binda leyfin þeim skilyrðum, sem nauðsynleg þykja.“ Jafnframt er fsp. lögð fram með tilvísun til þeirrar staðreyndar, að íbúar þessa svæðis, Húnaflóasvæðisins, eru mjög uggandi um hag sinn vegna mikils kapps, sem þar ríkir um rækjuveiðar, og sýnist líklegt, að rækjustofninum verði ofgert, og öruggt, að þetta getur haft hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir atvinnulíf á þessu svæði.

Ráðh. hefur veitt heimild til rækjuveiða víða um land, þó sérstaklega á Vestfjörðum. Þessar heimildir eru bundnar ýmsum skilyrðum, og má segja, að á tveimur öðrum svæðum í því kjördæmi, þ.e.a.s. Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði, sé þetta núorðið nokkuð fastmótað. Bátafjöldi er að vísu æðimikill, en náðst hefur þar samkomulag um aflamagn á hvern bát á viku hverri, sem heimamenn sætta sig sæmilega við. Sömuleiðis hefur verið fylgst þar allvel með veiðunum, og veiðar hafa verið bannaðar á ákveðnum hlutum þessara svæða, þar sem fiskifræðingar hafa talið, að um rányrkju að einhverju leyti væri að ræða, sérstaklega seiðadráp. Svipað hefur í raun og veru verið gert einnig hér á Suðvesturlandi, kringum Eldey, þar sem rækjuveiðar hafa verið mikið takmarkaðar.

Á Húnaflóasvæðinu hins vegar hefur rækjuveiðin fyrst og fremst verið takmörkuð með því einu að ákveða heildarmagn rækju, sem þar má veiða. Er þar nú miðað við 1700 tn. Þetta er aðeins um 41% af heildarafkastagetu rækjuvinnslustöðvanna.

Rækjuvinnsla á Húnaflóasvæðinu hófst að ráði kringum 1965, og voru það Strandamenn, sem þar riðu fyrst og fremst á vaðið, að nokkru af illri nauðsyn. Eins og mönnum er kunnugt, hvarf þorskveiðin að mestu á Húnaflóasvæðinu á árunum 1963-1964. Ég held, að það hafi verið árið 1964, að allir bátar á Hólmavík voru til sölu. Úr þessu rættist sem betur fer að nokkru leyti, þótt þetta yrði ákaflega mikið áfall fyrir atvinnulíf þar, með þeim rækjuveiðum, sem hófust 1965. Þær hafa síðan þróast jafnt og þétt, og fyrst og fremst hafa þær byggst á veiðum Strandamanna. Aðrir hafa aðeins hlaupið þar til, fyrst og fremst bátar frá Skagaströnd og eitthvað frá Hvammstanga, en framan af var þar eingöngu um skemmri tíma veiði að ræða.

Ég hef undir höndum bréf frá Hafrannsóknastofnuninni, sem skrifað er til Framkvæmdastofnunar ríkisins, 13/8 1973. Þar segir svo m.a., með leyfi forseta:

„Með þeim undantekningum, sem fyrr eru nefndar, hafa Strandamenn að mestu einir sinnt rækjuveiðum við Húnaflóa fram til haustsins 1972, er Húnvetningar hófu að marki rækjuveiðar í flóanum. Veturinn 1971–1972 var rækjuafli á Húnaflóasvæðinu 816 lestir og takmarkaðist af vinnslugetu í landi. 9 bátar stunduðu veiðar þennan vetur. Fram til haustsins 1971 er öll rækja skelflett í höndum, en það haust eru teknar í notkun 2 danskar vélar jafnhliða handvinnslunni. Haustið 1972 eru vélarnar frá Hólmavík fluttar að Drangsnesi, en ný og afkastamikil vél er tekin í notkun á Hólmavík. Önnur vél er sett upp á Skagaströnd sama haust og sú þriðja á Hvammstanga vorið 1973. Veturinn 1972–1973 margfaldaðist þannig vinnslugetan í landi, og samhliða henni eykst bátafjöldinn úr 9 í 19.“

Einnig er hér að finna upplýsingar um afkastagetu eða framleiðslugetu, og kemur þar í ljós, að á þeim 5 stöðum, sem rækja er nú pilluð með vélum á Húnaflóasvæðinu, er framleiðslugetan samtals 4125 tonn á ári. Leyfileg veiði er hins vegar 1700 tn., eins og ég gat um áðan, en á síðasta ári mun þetta hafa farið nokkuð fram úr, þ.e.a.s. á haustvertiðinni nú fyrir áramótin var veitt meira en gert var ráð fyrir. Samtals varð veiði um 2 300 tn. á árinu 1973.

Ég sé, að ég hef ekki tíma til að rekja þetta nánar, en staðreyndin er sú, að nú er um það rætt, m.a. komið í fjölmiðlum, að til standi að setja upp 2 rækjupillunarvélar á Blönduósi. Er mönnum þar að sjálfsögðu ljóst, að afkastagetu eða veiðigetu á svæðinu er ofgert með öllu. Því hef ég lagt fram þá fsp., sem er að finna á umræddu þskj.