05.02.1974
Sameinað þing: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2003 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

404. mál, rækjuveiðar og rækjuvinnsla á Húnaflóasvæðinu

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðh. Í svörunum kemur greinilega fram, að rn. hefur ekki sett aðrar takmarkanir við veiðar á Húnaflóasvæðinu en heildaraflamagn, og í öðru lagi, að rn. telur sér ekki heimilt að koma í veg fyrir, að reistar verði fleiri vinnslustöðvar á svæðinu. Það seinna skil ég vel. Fyrra atriðið sýnist mér hins vegar, að ekki sé eins auðskilið með tilliti til takmarkana, sem settar hafa verið á öðrum rækjusvæðum, og ég minntist lauslega á áðan, að komið hafa fram till. um skiptingu afla á þessu svæði á milli vinnslustöðva. Það er rétt, að það náðist ekki samkomulag með íbúum þessa svæðis þar um, en ég harma, að rn. hefur ekki séð sér fært að klippa þarna á og ákveða sjálft. Ég vil leyfa mér enn að lesa úr bréfi Hafrannsóknastofnunarinnar um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Við fjölgun vinnslustöðva, eins og fyrr greinir, hófst á vertíðinni 1972–1973 gegndarlaust kapp milli verksmiðja um að ná sem stærstum hluta af þeim 1700 lestum, sem leyft var að veiða. Með þessu móti nýtist rækjan verr en skyldi, nýtingarprósentan fellur stórleka og þar með arðsemi veiðanna, auk þess sem hér er um mjög óskynsamlega nýtingu stofnsins að ræða, sem ekki verður unað við til frambúðar.

Rækjuveiðimönnum og verksmiðjueigendum á Húnaflóa var strax á þessu ári ljós sá vandi, sem hér var á ferð, og óskuðu beinlínis eftir því, að komið væri á skiptingu afla milli vinnslustöðva. Með því fyrirkomulagi hefði hver verksmiðja sinn ákveðna hlut úr aflanum, og mætti þá haga veiði og vinnslu á skynsamlegastan og arðvænlegastan hátt og forðast óhóflegt dráp smárækju. Því miður hefur Strandamönnum og Húnvetningum ekki tekist að ná samkomulagi um skiptingu afla sín á milli, þótt sáralítið bæri á milli.

Til þess að forða frá hinu stjórnlausa kappi, sem ekki hefur í för með sér neina heildaraukningu, heldur aðeins lakari nýtingu stofnsins og aflans, ber algera nauðsyn til að sett séu ákvæði um aflamagn á verksmiðju fyrir komandi vertið, enda er það í samræmi við óskir þeirra, sem hlut eiga að máli.“

Hafrannsóknastofnunin undirstrikar það og leggur áherslu á það aftur og aftur, að skipting aflamagns á milli verksmiðja sé algjör nauðsyn og forsenda þess, að veiðarnar geti verið skynsamlegar. Ég verð því að endurtaka það, að ég harma, að svo hefur ekki verið gert, þrátt fyrir það að sáralítið bar á milli þeirra till., sem þarna komu fram. Ég vil benda á það, að þessum hámarksafla, 1700 tonnum, verður að öllum líkindum náð nú um miðjan þennan mánuð, og þá munu allir þeir aðilar, sem þarna eiga hlut að máli, — ég er ekki að draga neinn einstakan undan, — sannarlega hafa af því verulegt tjón, atvinnuleysi við rækjuvinnslustöðvarnar líklega í um það bil tvo mánuði, jafnvel þótt einhver aflaaukning komi til.

Ég veit, að það er orðið of seint fyrir þessa vertíð að gera þarna nýtt átak, en mér sýnist, að nauðsynlegt sé að taka þessi mál til endurskoðunar fyrir næstu rækjuvertíð.

Um seinna atriðið, þ.e.a.s. byggingu vinnslustöðva, vil ég aðeins segja, að rn. hefur að vísu þann möguleika að heimila ekki bátum veiðar fyrir aðrar vinnslustöðvar en þegar eru komnar á fót á svæðinu. Svo sýnist mér a.m.k. með tilvísun til þess, sem ég las áðan upp úr lögunum. Hitt mun vera rétt, að enginn aðili getur bannað, að byggðar séu slíkar vinnslustöðvar, sérstaklega, eins og í sumum tilfellum mun vera og ef til vill þessu, ef fjármagnsfyrirgreiðslu er ekki þörf og því ekki leitað til lánasjóða, ekki til Framkvæmdastofnunar eða Byggðasjóðs um lánafyrirgreiðslu. Ég mun því beita mér fyrir því, að með lögum verði veitt heimild til að stöðva eða koma í veg fyrir byggingu vinnslustöðva, þegar orðið er meira en nóg af þeim fyrir það veiðimagn, sem rn. að mati fiskifræðinga ákveður.