30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

23. mál, bætt aðstaða nemenda landsbyggðarinnar

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í tilefni ummæla síðasta ræðumanns. Þar sem hann lýsti undrun sinni yfir því, að Reykjavíkurborg taldi sér ekki fært að láta Tónabæ í té fyrir mötuneyti framhaldsskólanemenda utan af landi, þá vil ég taka það fram, að ástæðan er sú, að í Tónabæ hefur farið fram starfsemi fyrir aldraða og fyrir æsku þessa bæjar, starfsemi, sem Reykjavíkurborg sjálf kostar, að því er ég hygg, að öllu leyti og er mjög nauðsýnleg í borgarsamfélagi okkar, eins og því er háttað nú á dögum. Ég vísa því á bug þeirri gagnrýni, sem síðasti ræðumaður lét í ljós að þessu leyti gagnvart Reykjavíkurborg. Afgreiðsla af hálfu Reykjavíkurborgar var eðlileg og sjálfsögð vegna þess að umbjóðendur hennar áttu þarna skjól, sem ekki var unnt að taka af þeim.