05.02.1974
Sameinað þing: 51. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2007 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

140. mál, verðlækkun á húsnæði

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það eru nú liðnar nokkrar vikur síðan mál þetta var lagt fram, en ég verð að segja, að með hverri vikunni, sem liðið hefur síðan, hef ég orðið æ sannfærðari um nauðsyn þess, að mál þetta fái greiðan framgang. Þessi till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þeim tilgangi að undirbúa verðlækkun á húsnæði ályktar Alþingi að fela ríkisstj. að láta gera nákvæma skýrslu um þann hluta byggingarkostnaður, sem fólginn er í ýmiss konar gjöldum til ríkisins. Á grundvelli þeirrar skýrslu láti ríkisstj. gera tillögur um niðurfellingu eða verulega lækkun þeirra gjalda.“

Ég ætla að rekja rökin til flutnings þessarar till., sem ég geri mér vonir um, að velflestir hv. þm. geti fallist á.

Forsenda þessarar till. er sú alkunna staðreynd, að húsnæðiskostnaður fólks almennt er of hár miðað við það fé, sem það hefur til ráðstöfunar sér til framfærslu. Ég tel óþarft að hafa mörg orð til þess að færa sönnur á þá staðhæfingu. Vísitala húsnæðiskostnaðar, sem ætti að öðru jöfnu að vera mælikvarði á þennan kostnað, segir ekki um þetta neina sögu, sem á er byggjandi. Húsnæðisþáttur framfærsluvísitölunnar er í raun og veru allfjarri réttu lagi. Við getum litið á það, að árið 1968 vó húsnæðisliður framfærsluvísitölunnar 16.1%, en nú mun húsnæðisþátturinn í framfærsluvísitölunni talinn 12.5%. A-liður Framfærsluvísitölunnar, sá liður, sem mælir verðlag vöru og þjónustu, hefur hækkað um 134% frá árinu 1968, en húsnæðisliðurinn aðeins um 64%. Eftir þeirri tölu mætti ætla, að nú væri húsnæði hlutfallslega mun ódýrara en þá var. En það er öðru nær. Þessi niðurstaða hlýtur að líta einkennilega út í augum hinna fjölmörgu, sem eru að sligast undan húsnæðiskostnaði, annað hvort byggingu, afborgunum eða leigugjöldum.

Við getum hugsað okkur hjón, 27 ára gömul bæði. Segjum, að þessi hjón eigi tvö börn, tveggja ára og 6 ára. Þau eru að byggja yfir sig þokkalega, rúmgóða íbúð fyrir framtíðina, konan á von á þriðja barninu, skulum við segja, og menn geta talað af yfirlæti og vorkunnsemi um hégóma og lífsgæðakapphlaup þess fólks, sem leggur allt að því nótt við dag í vinnu til að koma sér upp húsnæði. En hvað sem við segjum um það, þá er tilhneigingin til og nauðsynin á því að búa um sig og sína jafngömul mannabyggð, og allt tal um nýtt gildismat breytir því ekki, að fólkið þarf húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína og á Íslandi, meira að segja hlýtt, hjart og gott húsnæði.

Það er líklegt, að þessum hjónum, sem ég nefndi, þyki einkennileg niðurstaðan, sem fæst með samanburði húsnæðisvísitölunnar við hinn raunverulega kostnað. Það er líklegt, að hækkanir, sem orðið hafa á húsnæðisvísitölu, vanmeti í raun og veru hækkanir á húsnæðiskostnaði vísitölufjölskyldunnar, eins og þessarar fjölskyldu, sem ég nefndi, og þetta vanmat stafi af tveimur mikilvægum ástæðum. Önnur ástæðan er sú, að það er líklegt, að hjón á þessum aldri búi yfirleitt í nýrra húsnæði eða standi fremur í byggingum heldur en eldra fólk og hafi þess vegna meiri fjármagnskostnað. Hins vegar er líklegt, að tiltölulega stærri hluti fólks á þessum aldri en meðaltalið í heild sé í leiguhúsnæði, en húsaleiga kemur nánast ekki inn í það dæmi, sem er reiknað út um húsnæðisvísitöluna. Á þetta má benda, þegar vitnað er til breytinga á húsnæðisvísitölu í sambandi við framfærslukostnað. Sönnu nær er varðandi þennan aldursflokk fólks að mæla kostnaðinn eftir byggingarvísitölunni, eftir vísitölu byggingarkostnaðar, því að hún mælir miklu fremur raunverulegan húsnæðiskostnað þeirra, sem eru í broddi lífsins eða í blóma sins starfsaldurs.

Ég mun ekki hafa miklu fleiri orð um það, hve mjög þessi kostnaður hefur vaxið á undanförnum árum, heldur reyna að snúa mér að því að gera grein fyrir, af hverju hann hefur vaxið svona. Sannleikurinn er sá varðandi þetta eins og svo margt fleira í verðbólgunni, að orsakirnar eru ekki síst innlendar. Í nýjasta heftinu, sem við höfum fengið frá hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins, hefti nr. 4, er þess getið á bls. 35, að af rúmlega 28% heildarverðhækkun vöru, þjónustu og húsnæðis á árinu 1973 hafi erlend verðhækkun á innfluttum neysluvörum valdið beint um 4% af 28% heildarverðhækkun, og síðar segir, að innflutningsverðhækkanir eigi drjúgan þátt í hinni öru verðbólgu að undanförnu, en að meiri hluta eigi verðhækkanirnar sér þó innlendar orsakir.

Það hlýtur að verða að ræða þetta mál, sem hér liggur fyrir, í ljósi þessa þáttar íslenskra stjórnmála, sem má segja, að með nokkrum hætti hafi öðlast eilíft líf, þ.e.a.s. efnahagsmálanna. Einhvern veginn er það svo, að þau hefur, hvort sem okkur finnst það ljúft eða leitt, alltaf borið hæst í umr. um stjórnmál á okkar landi á undanförnum árum. Og óneitanlega er það ekki síst á þeirra sviði, sem vandinn liggur í sambandi við byggingarkostnaðinn.

Þau mál, sem fjallað hafa um húsnæðisvandann hér á Alþ. í vetur, hafa fyrst og fremst snúist um það, að útvega þyrfti fé í Byggingarsjóð ríkisins til þess að geta staðið undir lánsfjárþörfinni. Þetta mál. sem hér liggur fyrir, dregur í engu úr því, sem þar hefur verið sýnt fram á. Á það má meira að segja benda, að þær upplýsingar, sem fyrir jól lágu fyrir um lánsfjárþörf Byggingarsjóðs ríkisins, munu að öllum líkindum breytast mjög til hækkunar á næstunni. Sannleikurinn mun vera sá, að raunveruleg þörf sé jafnvel mun meiri en þegar hefur komið fram. Þessu veldur miklu meiri verðhækkun en ætlað hefur verið og enn meiri þörf fyrir húsnæði. Og það segir sig sjálft, að eftir því sem húsnæðiskostnaðurinn er meiri og eftir því sem byggingarkostnaðurinn er meiri, því meira fé þarf í húsnæðislánakerfið. Það er því geysilegt hagsmunamál fyrir húsbyggjendur í landinu og ég vil segja hvert einasta mannsbarn í landinu, að húsnæðiskostnaðurinn geti með einhverjum hætti lækkað.

Í lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins frá 1970, þar sem framlag ríkisins til íbúðabygginga var stóraukið og Byggingarsjóði skapaðir fastir tekjuliðir og ákveðið, að lán skyldu hækkuð, var ákveðið, — og það var raunar í fyrri lögum um Húsnæðismálastofnunina líka, — að Húsnæðismálastofnuninni skyldi falið að vinna að ýmsum umbótum í byggingarmálum og lækkun byggingarkostnaðar. Hefur nokkuð verið að því unnið að veita fé til ýmiss konar rannsóknastarfsemi til þess að geta gefið upplýsingar um hagkvæmni og gæði ýmissa byggingarefna. Hefur verið veitt fé til þess að vinna að ýmiss konar stöðlun í byggingariðnaði. Öll þessi atriði ásamt ýmsum öðrum, sem húsnæðismálastjórn hefur einnig unnið að, hafa tvímælalaust verkað talsvert til sparnaðar. Einhvern veginn er það samt svo, að allt tal um sparnað í húsbyggingum hefur ekki borið þann árangur, sem ætla hefði mátt. Má í því sambandi minna á eina stétt manna, sem ég held, að gæti haft gífurleg áhrif til að valda sparnaði í húsbyggingum, og það eru arkitektar. Vafalaust gæti aukið samstarf þeirra við ýmsa byggingaraðila og húsnæðismálastjórn orðið til þess, að enn frekar væri unnið að sparnaði í húsbyggingum. En það er alveg augljóst mál, að þessi atriði duga ekki til, og það er svo fjarri því, að nægilegt fé hafi verið veitt í húsnæðislánakerfið. Það er líka fjarri því, að við sjáum fram á það í náinni framtíð, að svo verði gert.

Þegar svo stendur, að vísitala byggingarkostnaðar er 913 stig og hefur hækkað frá því í maí 1970 um 108%, en lánsfjárhæðin aðeins um 33%, þá sjáum við, hve óralangt á í land, að endar náist saman, að það sé nokkuð nálægt því, að lánsféð eða lánsfjáraukningin standi í nokkru sambandi við aukningu kostnaðarins. En ef vel á að vera, þarf það vitanlega að vera svo, að framlög ríkisins í lánakerfið standi a.m.k. í beinu hlutfalli við hækkun byggingarvísitölunnar. Það er því augljóst, að það verður að nálgast lausn þessa máls frá báðum hliðum þess, ekki aðeins með því að veita aukið fjármagn í lánakerfið, heldur líka með því að lækka kostnaðinn. Það er jafnvel enn nauðsynlegra að lækka kostnaðinn vegna þess, að það mundi aftur hafa svo víðtæk áhrif víða í þjóðfélaginu vegna þeirra miklu áhrifa, sem byggingarkostnaðurinn hefur á vísitölu. Það er því eins og snjóholti, sem hleður utan á sig, þegar ríkið sjálft gerir ýmis konar ráðstafanir í formi skattheimtu, sem verða til þess að hækka byggingarkostnaðinn, og þarf svo að standast ýmsar kröfur, sem til þess eru gerðar vegna hins hækkaða byggingarkostnaðar. Manni sýnist því, að fyllilega sé athugandi sú leið, að ríkið sjálft dragi úr aðgerðum sínum, sem verða til hækkunar, og þá um leið geti að einhverju dregið úr þeim kröfum, sem ella yrðu gerðar til þess um að hjálpa fólki að standa undir þeim gífurlegu hækkunum, sem orðið hefðu.

Í grg. till. höfum við látið fylgja lauslega ágiskun um skiptingu byggingarkostnaðar í verðþætti íbúðarhúsa í Reykjavík, og þar kemur fram, að opinberar álögur eru um það bil 15–20% af byggingarkostnaðinum. Þar af fara til ríkisins um það bil 11–15%. Ef við lítum á það, að hér er aðeins um að ræða byggingarefnið sjálft, sjáum við, að þessi tala gæti jafnvel verið enn hærri. Ef tekið væri t.d. tillit til þeirra sjónarmiða, sem stundum hafa komið fram, að æskilegt væri, að aðflutningsgjöld á vélum, sem vinna byggingarefni hér innanlands, væru ekki hærri en gjöldin á byggingarefninu sjálfu. Þetta er eitt þeirra atriða, sem þyrfti að taka tillit til í þeirri skýrslu, sem till. þessi fjallar um. Ef við lítum til þess, hve mikill hluti af ríkistekjunum hefur komið inn sem aðflutningsgjöld eða söluskattur af byggingarefni, sjáum við, að þar er um stórar fjárhæðir að ræða. En við nánari athugun sjáum við kannske líka, að það gæti allt að því borgað sig fyrir ríkið að lækka þessar stóru fjárhæðir og jafnvel fella þær niður.

Á bls. 25 í ritinu, sem ég nefndi hér áðan, Þjóðarbúskapnum, 4. hefti, segir, að miðað við verðlag ársins 1973 sé áætlað, að fjármunamyndun í íbúðarhúsum nemi 7 milljörðum 650 millj. og byggingar og mannvirki hins opinbera muni nema 7 milljörðum og 700 millj. Heildarfjármunamyndunin er 27 milljarðar 770 millj., þannig að við sjáum, að þessir tveir þættir, íbúðarhúsin og byggingar og mannvirki hins opinbera, nema helmingi af allri fjármunamyndun í landinu. Við þetta bætist, að í annarri fjármunamyndun en þessari, þ.e.a.s. ýmiss konar fjármunamyndun atvinnuveganna og stórvirkjana, er sitthvað, sem má teljast til opinberrar fjárfestingar, þannig að við sjáum, að mikill hluti af þessu er í raun og veru færsla fjármuna ríkisins úr einum vasa í annan. Það liggur alveg ljóst fyrir í sambandi við byggingar og mannvirki hins opinbera, rafvirkjanir og rafveitur, hita- og vatnsveitur, samgöngumannvirki og byggingar hins opinbera, skóla, sjúkrahús o.s.frv. Með því einu að fella niður eða þótt ekki væri nema að lækka til muna aðflutningsgjöld og önnur opinber gjöld af byggingarefni til þessara framkvæmda gæti sú aðgerð ein orðið til þess að draga stórlega úr þenslunni almennt í efnahagsmálum þjóðfélagsins. Hún mundi lækka byggingarkostnað um 11–15% a.m.k. Sýnist liggja í augum uppi, að sú leið muni vera sjálfsögðu að því er varði byggangar og mannvirki hins opinbera, þar sem um er að ræða færslu á fjármunum úr einum vasa í annan, og hún muni líka vera sjálfsögð í sambandi við byggingarkostnað íbúðarhúsa. Eftir því sem byggingarkostnaðurinn hækkar op lánakerfið þenst út, aukast kröfur á hið opinbera um fjármagn í lánakerfið, auk annarra áhrifa, sem vísitöluhækkunin hefur á hin mörgu svið þjóðlífsins. Þetta verður óneitanlega drjúgur partur af eilífðarmálunum í íslenskum stjórnmálum, efnahagsmálum. Mér sýnist, að hér geti verið um aðgerð að ræða, sem sé meira en ómaksins vert fyrir ríkið að reyna.

Að því er varðar opinberu gjöldin af byggingarefni í íbúðarhús, yrðu þau samkv. upplýsingum frá Framkvæmdastofnuninni fyrir utan aðflutningsgjöld og opinber gjöld af viðlagasjóðshúsunum um 700–800 millj., með opinberum gjöldum af byggingarefni í byggingar og mannvirki hins opinbera yrðu þau talsvert yfir milljarð. Mér sýnist augljóst, að þarna hljóti að vera um mál að ræða, sem er mjög athugandi fyrir ríkið að kanna nákvæmlega, hvernig snertir hina ýmsu þætti bæði byggingarkostnaðar og svo annarra þátta efnahagsmálanna. Það er talsvert flókin rannsókn, til þess að óyggjandi niðurstöður fáist, en búast má við, að niðurstöðutölur verði alla vega ekki undir þeim lauslegu ágiskunartölum, sem við höfum látið fylgja í grg. þessarar till.

Ég vil mega leggja áherslu á, að ég er þeirrar skoðunar, að slík aðgerð sem þessi muni áður en langt um liður færa mönnum heim sanninn um það, að hér hafi verið um hlut að ræða, sem ekki var aðeins ómaksins verður, heldur hafi einnig hreinlega borgað sig og verið sjálfsagður. Ég sé ekkert eðlilegra en að ríkið sjálft taki sig til og reki ofan af þessum hnykli, sem það sjálft hefur staðið að því að vinda.