05.02.1974
Sameinað þing: 51. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2012 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

165. mál, virkjun í Skjálfandafljóti við Aldeyjarfoss og Íshólsvatn

Flm. (Jónas Jóasson):

Herra forseti. Á þskj. 238 hef ég leyft mér að flytja eftirfarandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta þegar á árinu 1974 hefja forrannsóknir og hagkvæmniskönnun á virkjunarmöguleikum í Skjálfrandafljóti við Aldeyjarfoss og Íshólsvatn.“

Ég vil í upphafi framsöguræðu fyrir þessari þáltill. færa fram eftirfarandi ástæður fyrir því, að ég hef flutt sérstaka þáltill. um rannsóknir á virkjunarmöguleikum í Skjálfandafljóti, þar sem ætla mætti að óreyndu, eð það gæti farið um þær aðrar virkjunarrannsóknir almennt að það þyrfti ekki að flytja um þær sérstaka þáltill. En hér er um sérstöðu að ræða, og vil ég rökstyðja það nokkuð.

Í fyrsta lagi er orkuástandið í landinu þannig, að það verður að hraða öllum virkjunarrannsóknum, bæði á fallvötnum og háhitasvæðum og öðrum hitasvæðum eftir föngum.

Í öðru lagi er orkubúskap á Norðurlandi, sérstaklega nú, þannig háttað, að sérstök ástæða er til að kanna þar alla vænlega kosti til virkjunar og það svo skjótt sem tök eru á. Á það bæði við um vatnsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir og bæði um stórar og meðalstórar vatnsvirkjanir.

Í þriðja lagi er sérstök ástæða til að leggja áherslu á það, að næsta stóra virkjun fallvatna verði utan Þjóraársvæðisins. Fyrir því eru rök, og má fyrst nefna öryggisástæður. Þjórsárvirkjanir eru allar á sama svæði jarðfræðilega og í mikilli nánd við virkasta eldfjall landsins, Heklu, og gætu þær í einum náttúruhamförum allar eyðilagst. Á sama hátt mundi landskjálfti á þessu svæði geta orðið þessum virkjunum hættulegur. Í þriðja lagi má benda á, að veðurfarslega séð er það öruggara, að virkjanir séu í mismunandi landshlutum, þær virkjanir, sem byggt er á til orkuöflunar og veita orku um landið, og allra síst er það vænlegt til öryggis, eð þær séu allar í sama vatnsfalli, eins og virkjanir í Þjórsá og Tungnaá mundu vera. Og enn má benda á, að það er mikið jafnvægisatriði fyrir landið, að virkjanir séu ekki allar á sama stað.

Nú er það svo, að hönnun næstu stórvirkjunar þarf að hefjast ekki síðar en árið 1976, og þess vegna má ekki láta deigan siga við forrannsóknir og ákvörðun um næsta virkjunarstað. Að öðru leyti vil ég um þetta atriði vísa til grg, með þáltill, á þskj. 49 um undirbúning að næstu stórvirkjun.

Í fjórða lagi vil ég benda á, að af jafnvægisástæðum er mjög æskilegt, að virkjað verði við næstu stórvirkjun vatnsfall norðanlands eða austan, en ekki sunnanlands. Virkjun í Skjálfandafljóti væri mjög æskilega staðsett að þessu leyti. Hún er í lítilli fjarlægð frá höfuðþéttbýlisstöðum norðanlands, og hún er tiltölulega nálægt Austurlandi, þannig að þangað yrði auðvelt að leggja línur frá henni. Hún liggur líka þannig, að hvergi yrði auðveldara að tengja saman virkjanir, sem væru sín hvorum megi við aðalhálendi landsins. Það eru aðeins tæpir 200 km. á milli hugsanlegs virkjunarstaðar í Skjálfandafljóti og Sigölduvirkjunar. Lega hennar yrði alveg einstaklega hagkvæm fyrir byggðirnar norðanlands, og þar hagar einnig þannig til, að þessi virkjunarstaður er þannig, að þar er mjög lítil hætta á tjóni á náttúruverðmætum eða óþægindum fyrir nærliggjandi byggðir. Það mun vera vandfundin sú aðstaða í landinu, þar sem hægt er að koma fyrir á jafnhægan og eðlilegan hátt virkjum, sem yrði með tiltölulega stóru miðlunarlóni fast við virkjunarstaðinn. Virkjunin yrði í byggð, en miðlunarlónið í óbyggðum, og undir það mundi ekki fara veruleg dýrmætt land, en svo mun víða haga til um virkjunarlónin, eins og menn hafa reynslu af og valdið hefur deilum,að ákaflega er hætt við því, að þessi virkjunarlón leggi undir sig dýrmætt land. Svo er ekki í þessu tilfelli.

Í sjötta lagi má benda á það, að virkjunarrannsóknir hafa ekki verið stundaðar jafnmarkvisst utan Suðurlandssvæðisins og hefur verið gert á orkuveitusvæði Landsvirkjunar, og er sérstök ástæða að hafa nákvæma könnun á fleiri en einum valkosti í þessu tilfelli. Rannsóknir hafa að vísu verið gerðar allmiklar á Jökulsá á Fjöllum, og vonandi verður þeim haldið áfram af fullum krafti, og vonandi er, að þær verði árangursríkar, þannig að unnt reynist að byggja þar stórvirkjun og það þá næstu, sem þjóðin ræðst í. En áður hefur komið fyrir, að það hefur orðið að hverfa frá fyrirhugaðri virkjun á Jökulsá á Fjöllum vegna tæknilegra vandamála, og það mun ekki enn þá vera séð fyrir endann á þeim, þannig að ef einungis yrði lögð áhersla á rannsóknir á virkjunarmöguleikum Jökulsár á Fjöllum, yrði frá þessum sjónarmiðum öllu hætt á eitt spil, og þá er hætt við því, að útkoman gæti orðið sú, að það yrði að snúa sér að virkjun Hrauneyjarfoss næst.

Í sjöunda lagi tel ég ríka ástæðu til þess, að Alþ. álykti sérstaklega um, að þessir virkjunarmöguleikar verði rannsakaðir, vegna þess að í opinberri yfirlýsingu frá Orkustofnun, þeim aðila, sem annast og á að annast virkjunarrannsóknir og rannsóknir á orkunýtingu, hefur komið fram neikvæður dómur á virkjunarmöguleikum í Skjálfandafljóti, sem nú má telja fullvíst, að ekki fáist stoðist. Það, sem hnekkir þeim dómi, eru nánari og ítarlegri athuganir en áður höfðu verið gerðar. Og athuganir þær en byggðar á skoðunum og mælingum á staðnum, en slíkar mælingar höfðu ekki farið fram áður. Athuganir þessar voru gerðar á s.l. sumri uf verkfræðifyrirtækinu Virki í Reykjavík og Electro-watt í Sviss, og niðurstöður þessara athugana eru á þann veg, að það hlýtur að teljast glapræði að rannsaka þessa möguleika ekki nánar. Í bréfi, sem þessi fyrirtæki hafa skrifað, þar sem þau bjóða fram þjónustu sína til ítarlegri rannsóknar, kemur m.a. þetta fram, og mun ég lesa það, með leyfi forseta. Bréf varðandi orkumál á Norðurlandi:

„Á vegum verkfræðifyrirtækjanna Electrowatt og Virkis leyfum við okkur hér með að senda yður stutta skýrslu um athugun okkar á mögulegri virkjun í Skjálfandafljóti við Íshólsvatn. Byggt á niðurstöðum úr mælingarferð á staðinn síðsumars hefur okkur tekist að afla gagna til mats á hinum geysilegu möguleikum til beislunar vatnsorku, sem þetta svæði býr yfir. Frumniðurstöður þessa mats er að finna í hjálagðri skýrslu. Sé haft í huga ástand í orkumálum norðanlands og austanlands í dag, er skoðun okkar sú að Íshólsvatni verði að gefa náinn gaum í leit að úrbótum. Helstu niðurstöður athugana okkar eru sem hér segir:

Hið margbreytta landslag staðarins gefur fjölmarga möguleika á valkostum um stærð og tilhögun virkjunar. — Orkuframleiðslugeta hinna mismunandi valkosta virðist vera frá 170 þús. gwst. á ári af ódýrri grunnorku og upp í 480 þús. gwst. á ári. = Stofnkostnaður þeirra valkosta, sem hér hafa verið athugaðir, virðist vera á bilinu 5–6.6 kr. á kwst. á ári, eða lægra en við Sigölduvirkjun (um 7 kr. kwst. á ári.)

Tilgangur bréfs þessa er að bjóða þjónustu okkar við frekari rannsóknir og áætlanir til gerðar á heildarhagkvæmnisathugun fyrir virkjunarsvæðið. Enn fremur er mælt með því, að nauðsynlegur undirbúningur slíkrar athugunar hefjist hið allra fyrsta.

Frekari upplýsingar um þessar athuganir vorar eru fyrir hendi, ef óskað er.“

Til frekari glöggvunar fer ég nú nokkrum orðum um Skjálfandafljót og aðstæður til virkjunar þess við Íshólsvatn og hugmyndir manna um Skjálfandafljótsvirkjanir.

Skjálfandafljót er eitt af mestu vatnsföllum lands okkar, hvernig sem á það er litið. Það er blandað vatnsfall að eðli, myndað af mörgum lindám, nokkrum dragám og jökulvatni. Það er þriðja eða fjórða lengsta á landsins, 178 km, og koma þar á eftir Þjórsá og Jökulsá á Fjöllum og Hvítá og Ölfusá, ef þær eru taldar saman. Einnig er það með fjórða stærsta vatnasvið ánna, 3860 ferkm, og kemur það þar á eftir sömu ám. Af þeim ám, sem koma til greina til virkjunar, mun það einnig vera með fjórða mesta meðalrennsli, um 80–90 rúmmetrar á sekúndu.

Skjálfandafljót kemur, svo sem flestum er kunnugt, sem jökulvatn undan Vatnajökli og Tungnafellsjökli. Það er þó athyglisvert, að af vatnasviði þess, 3860 ferkm, eru aðeins 140 ferkm. undir jökli, eða 3.6%, en þær ár, sem hafa vatnasvið undir jöklum, eru ekki eins jafnvatna og hinar, sem hafa vatnasvið jökullaust. Lindárnar, sem í þær renna, koma undan Ódáðahrauni og eru því jafnvatna, og eru þær 6, sem renna í fljótið austanvert, þær heita Hrauná, Öxnadalsá, Krossá, Sandmúladalsá, Sandá og Suðurá. Suðurá er þeirra langstærst og er reyndar allfræg í sögunni, því að hún var svo álitleg til virkjunar, að menn munaði í hana til að flytja hana, sem frægt er, austur í Mývatn og síðan til virkjunar í Laxá. En það er önnur saga.

Nyrst á hálendinu rennur fljótið mjög lygnt eftir um það bil 15 km löngum dal, sem Krókdalur nefnist. Í þessum dal hefur áður verið stöðuvatn, og er það kostur, vegna þess að botn dalsins er þar með þéttaður af framburði, sem sest hefur að í vatninu. Þetta vatn, sem var í dalnum, hefur verið stíflað upp við svokölluð Hrafnabjörg, en síðan hefur þröskuldurinn rofist af vatninu, og þar eru nú gljúfur, og þar er ákjósanleg aðstaða til stíflugerðar og yrði þá myndarlegt lón, sem næði eftir dalnum endilöng eða um 15 km langt. Örskammt vestan Krókdals er annar dalur. Sá er enn fullur af vatni, það er Íshólsvatn, sem er Um 5 km langt og liggur á milli lágra hæða. Það er í um 365 m hæð yfir sjó, en dalbotninn í Bárðardal hjá Mýri, sem þar er mjög skammt frá, er í 264 m hæð. Þarna er frá náttúrunnar hendi 100 m fall á tiltölulega skammri vegalengd. Með nokkurri stíflu mætti þarna fá miklu meira fall, og hefur verið talað um fall frá 114 m. En þarna mætti fara hærra samkv. þeim hugmyndum, sem uppi voru, þegar flytja átti Skjálfandafljót og Suðurá austur í Laxá. Þá hefði orðið að stífla þetta upp í 400 m hæð, sem gæfi þá töluvert á annað hundrað metra fallhæð niður í Bárðardalinn. Fljótið yrði stíflað við Hrafnabjörg og því veitt inn í Íshólavatn, og væru þá komin tvö miðlunarlón af verulegri stærð, og mun, eins og áður hefur verið sagt, óvíða vera möguleiki að fá svo mikla miðlun svo nærri sem þetta lón yrði. Menn geta minnst þess frá því í vetur, að erfiðleikarnir við Búrfellsvirkjun stöfuðu af því, að langt var frá Þórisvatni og niður að virkjun, og þar myndaðist krap í ánni og olli stórkostlegum skaða. Slíkt mundi aldrei gerast á þessu svæði.

Það mun hafa verið Tómas Tryggvason jarðfræðingur, sem fyrstur benti á hagstæða virkjunarmöguleika á þessum stað. Tómas var uppalinn fremst í Bárðardal og þekkti vel landslag og allt háttalag náttúrunnar á þessu svæði. Auk þessa var hann glöggur jarðfræðingur og reyndur í jarðfræðistörfum við undirbúning virkjana. Hann annaðist m.a. jarðfræðirannsóknir við Sogsvirkjanir. Hann fór síðasta sumarið, sem hann lifði, til átthaganna og rannsakaði fljótið frá Þingeyjarfossum og fram á Krókdal og lýsti þeirri skoðun sinni við marga heimamenn, að þarna væri mjög ákjósanlegt til virkjunar, en því miður fór það þannig, að um viku eftir að hann kom suður úr þeirri ferð lést hann skyndilega, og því munu hvergi hafa verið færðar á blað þær hugmyndir, sem hann hafði um virkjunina.

Hitt vita menn svo vel í Bárðardal fremst, að þangað hafa ekki komið menn til athugunar á jarðfræði eða mælinga frá Orkustofnun eða öðrum virkjunarrannsóknarmönnum utan það, að boraðar voru tvær holur í námunda við Svartárvatn, þegar átti að flytja Suðurána austur. Og þær lýsingar á jarðfræði þarna eru allar miðaðar við það að flytja vötnin austur yfir Fljótsog Mývatnsheiðar. En það mundi ekki hafa farið fram hjá mönnum í Bárðardal, ef þarna hefðu verið stundaðar aðrar virkjunarrannsóknir. Og þetta vita menn ekki, að hafi verið gert, fyrr en verkfræðingar komu frá Virki og ElectroWatt á síðasta sumri og framkvæmdu mælingar, sem þeir byggja svo sínar athuganir á. Það þykir því mörgum allfurðulegt, þegar hægt var að gefa út allþykka skýrslu um virkjunarmöguleika í Skjálfandafljóti, án þess að þar hefði farið fram nokkrar rannsóknir, en þessi skýrsla var gerð af Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, og henni var skilað til Orkustofnunar í jan. 1973. í þeirri skýrslu kemur fram, að ályktanir eða athuganir eru gerðar á grundvelli uppdrátta, svo nefndra USAMS uppdrátta eða uppdrátta, sem ameríski herinn hefur gert og eru í mælikvarðanum 1:50 000, en þeir munu víða hafa reynst ónákvæmir og ekki gott á þeim að byggja. Í þeirri skýrslu kemur einnig fram, að einu jarðfræðiathuganirnar, sem gerðar hafa verið, eru, eins og ég hef nefnt áður, gerðar í því augnamiði að kanna, hvernig mætti flytja vötnin austur.

Eins og fram kemur í grg., sem er með þessari þáltill., gerði Virkir þarna verulegar mælingar. Hagkvæmnisathuganir, sem þeir hafa gert, eru gerðar af sama verkfræðifyrirtækinu og annaðist hönnun Sigölduvirkjunar og notaðar sömu kostnaðartölur til áætlunar um einstaka verkþætti, þannig að menn geta tæplega dregið í efa, að þessi aðili hafi ekki reynslu og hafi ekki nokkuð tryggar tölur að byggja á. Af þessu virðist mér sem fyrst og fremst megi draga þá ályktun, að hér sé frekari rannsóknar þörf, og þess vegna er þessi þáltill. flutt.

Auðvitað er ekki hægt að svo stöddu máli að fullyrða neitt um umhverfisáhrif þessarar virkjunar, hver þau kynni að verða, og það er augljóst, að þau verða einhver, og það mundi nokkurt land fara undir vatn, nokkurt afréttarland, en það mætti græða þar land í staðinn, þannig hagar til. Einnig þarf að gefa gaum, hvaða áhrif þetta hefði á fiskiræktarmöguleika í Skjálfandafljóti. Þau eru ugglaust einhver, en að margra dómi yrðu þau jákvæð. En þetta þarf auðvitað að rannsaka og hver þau kynnu að verða. Það hefur jafnvel verið varað við því, að miðlun í fljótinu kynni að valda því, að í það kæmu minni flóð og það kynni að valda því, að framburður mundi hlaðast upp niðri á láglendi og fljótið ekki hreinsa sig eins fram og það nú gerir. Þetta þarf allt saman að rannsaka.

Orkumál hafa verið mikið hér til umr. að undanförnu og síðast í dag og eru viðkvæm, og sérstaklega reynast þetta viðkvæm mál á Norðurlandi. Ég ætla ekki að fara að rekja hér sögu orkumála á Norðurlandi, hún verður ábyggilega skráð síðar og þykir merkileg eftirkomendum okkar. Ég held, að örlögin hafi í þeim málum ráðist í kringum 1962–1966. En á þeim árum var ákaflega mikið barist fyrir því, að rannsakaðir yrðu virkjunarmöguleikar í Jökulsá á Fjöllum með Dettifossvirkjun í huga. Það var kölluð

Dettifosshreyfing á þeim tíma, og það var stefna þessarar hreyfingar, Dettifosshreyfingar, að koma því fram, að fyrsta stórvirkjun landsins yrði í Dettifoss eða við Dettifoss í Jökulsá á Fjöllum. Það má nefna það, að 8. júlí 1962 komu saman til fundar á Akureyri 20. þm., allir þm. svæðisins frá Hrútafjarðará og austur að Skeiðará, og þar voru einnig mættir fulltrúar 16 bæjar- og sveitarfélaga. Allir þessir fulltrúar fólksins á Norður- og Austurlandi kröfðust þess, að undirbúningur Dettifossvirkjunar yrði látinn ganga fyrir öðrum virkjunarundirbúningi og ekki yrði tekin ákvörðun um stað fyrir fyrstu stórvirkjunina í landinu, fyrr en áætlanir um Dettifossvirkjun yrðu fullgerðar. En á þennan fund komu aðrir menn. Það komu tæknimenn og fagmenn að sunnan, orkumálastjóri og formaður stóriðjunefndar, og þeir, þessir kappar, lögðu að velli á einum fundi hugmyndina um Dettifossvirkjun. Í staðinn fyrir þetta fengu Norðlendingar áætlun um svonefnda Gljúfurversvirkjun, og allir þekkja þá sögu. Sú áætlun bar dauðann í sjálfri sér. Það var augljóst, það sáu menn strax, þegar þeir gátu dregið fram þá áætlun. Þegar heimamenn loksins fengu að sjá áætlun þessa, vissu þeir, hvernig var. En það var ekki búið að hafa fyrir því að kynna hana fyrir þeim. Því fór sem fór, og þetta var örlagastundin. Það átti að bæta upp Norðlendingum það, að þeir fengu ekki stóru virkjunina í Dettifossi, með þessari Gljúfurversáætlun. En villu sína sáu yfirmenn orkumála of seint, og fyrrv. ríkisstj., sem hafði möguleika til að leysa Laxárdeiluna á miklu hagkvæmari hátt á ákveðnum tíma, hagkvæmari hátt frá sjónarmiði virkjunar og raforkuframleiðslu, þekkti ekki sinn vitjunartíma og lét málið halda áfram að reyrast í harðari hnút. Það varð svo auðvitað hlutverk núv. ríkisstj. að leysa hnútinn, og lausnin gat ekki orðið önnur en hún reyndist. Það var augljóst mál, m.a. kannske vegna þess, að á þessum tíma, sem leið frá því að ráðh. og aðrir forráðamenn orkumála höfnuðu þeirri lausn, sem stóð til boða vorið 1970, að semja um 18 m stíflu, fóru fram nánari athuganir og m.a. umhverfisog líffræðilegar rannsóknir á þessu svæði, og þær renndu styrkum stoðum undir það, að rangt væri að hrófla við Laxá, það væri raunverulega glæpur við íslenska náttúru að gera það, og þess vegna þurfum við kannske ekkert að harma þetta, og þess vegna er rétt að ræða ekki meira þessi mál. Það má minna á það, að Norðlendingar hafa einu sinni fallið á því, að þeir settu allt á eitt spil. Þó að þeir hefðu samstöðu 20 þm. á Akureyrarfundinum, voru þeir allir lagðir að velli, vegna þess að það var hægt að sýna fram á, að það væri á ýmsan hátt auðveldara að virkja við Búrfell heldur en Dettifoss. Nú vil ég meina, að það eigi að byggja þetta á traustari grunni og hafa um fleiri kosti að velja.

Ég vil taka það sérstaklega fram, að þessi þáltill. er ekki flutt til þess, að dregið verði úr öðrum virkjunarrannsóknum, hvorki í Jökulsá á Fjöllum né Blöndu eða annars staðar, þar sem það kann að þykja álitlegt, heldur til þess að tryggja, að það verði þó álitlegur virkjunarstaður fyrir hendi. Þá vil ég einnig undirstrika það til að fyrirbyggja misskilning að hún er ekki flutt til að draga úr því, að hraðað verði sem kostur er rannsóknum á gufuvirkjun í Kröflu, Námafjalli eða Þeistarreykjum. Það eru þrjú mikil háhitasvæði í Suður-Þingeyjarsýslu, sem ugglaust eru öll mjög vel virkjanleg og búa yfir geysimikilli orku, það er aðeins að velja eitt þeirra og hefja síðan framkvæmdir. Ég vil einnig undirstrika það, að þetta er ekki flutt til þess að telja úr því, að orkuveitusvæðin verði tengd saman. Það rennir styrkum stoðum undir Íshólsvatnsvirkjun, að þó að komi byggðalína, sem tengir Norðurland að vestan við orkuveitusvæði, þá vitum við, að ein lína getur brostið, og þá er öryggi í því, að það liggi líka lína yfir hálendið, og sú lína mundi eðlilega koma frá Sigölduvirkjun og að þessari virkjun um Sprengisand, þar sem reynslan sýnir, að er öruggasta leiðin á milli landshluta.

Ég vildi þá aðeins fara nokkrum orðum um samanburð á þessum tveimur athugunum, þ.e.a.s. athugun Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen og verkfræðifyrirtækisins Electro-Watt, og taka fram, að það er að sjálfsögðu ekki verið að leggja neinn dóm á það hvort verkfræðifyrirtækið sé hæfara til þessara hluta, en það er augljóst, að þau hafa mismunandi aðstöðu að byggja á. Hið fyrra hefur aðeins kort til að fara eftir, en hið síðara gerði mælingar á staðnum og kannaði þær aðstæður, nokkrar jarðfræðiathuganir o.s.frv. Þá má einnig benda á það, að síðara fyrirtækið hugsar sér nokkuð aðrar lausnir á þessu máli. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen reiknar með jarðgangagerð, en þarna er móberg á ferðinni, þó að þetta sé í austurjaðri blágrýtissvæðisins, og það er vægast sagt mjög erfið reynsla af jarðgangagerð í móbergi, og það segja virkjanamenn nú, að þar hafi verið gerðir rangir hlutir, þ.e. að byggja allt á jarðgangagerð, en það muni frekar eiga að gera skurði ofanjarðar, því að til þeirra hluta er móbergið betur fallið, það er auðvelt að vinna það þannig.

Þá vil ég einnig benda á, að það mælir með frekari rannsóknum á þessum virkjunarmöguleika, að þar gæti komið í ljós, að eftir stærð markaðarins á þessum tíma væri heppilegra að virkja virkjun af þessari stærð, sem mætti kralla kannske millistærð af virkjunum, þ.e.a.s. 50–70MW virkjun, heldur en að þurfa að virkja stórvirkjun eins og Jökulsá á Fjöllum eða kannske Blöndu. Það má benda á, að það er mjög heppilegt að láta vinna saman jarðgufuvirkjun eins og væntanlega yrði komin í Kröflu og vatnsvirkjun, sem hefur verulega miðlunarmöguleika. Jarðgufuvirkjunin vinnur jafnt og þétt, vatnsvirkjunin getur tekið toppana, en vatnið geymist á bak við stífluna, þegar þess er ekki þörf. Og það er staðreynd, að það er óvíða hægt að fá hlutfallslega jafnmikla miðlunarmöguleika og þarna.

Þá er sagt, að Íshólsvatnsvirkjun yrði einföld og auðveld í hönnun, hún er öll ofanjarðar, og hún er nálægt byggð. Þar eru aðfærsluleiðir auðveldar, þyrfti ekki að flytja tæki og mannafla upp í óbyggðir, og þar er veðurfar stillt, þegar svo innarlega er komið í landið, sem er fremst í Bárðardal. og þarna er tiltölulega stutt til góðra hafna á Húsavík og Akureyri, og er því á margan hátt mjög auðvelt að vinna eð þessari virkjun. Má geta þess, að það skiptir ekki litlu máli, ef um orkuflutninga er að ræða, að hafa flutningaleiðirnar sem skemmstar, en eins og ég hef áður getið, er mjög skammt á milli Sigölduvirkjunar og hugsanlegrar Íshólsmatasvirkjunar. Við orkuflutninga verður alltaf nokkurt orkutap, og er rétt að taka það með í reikninginn.

Ég vil svo aðeins að lokum undirstrika það, að það, sem mikilvægast er í þessu máli, er, hvort takist að sjá svo til, að næsta stórvirkjun fallvatna verði utan Þjórsársvæðisins, því að eins og ég hef áður getið, þyrfti ekki nema lítið að bregðast við Dettifoss eða í Blönduvirkjun, og þá væri ekkert til undirbúið annað en virkjun Hrauneyjarfoss, þar sem hönnunin bíður tilbúin. Það er svo aðeins eftir að geta þess, að það má hugsa sér, eins og reyndar hefur oft komið fram, að lausnin á orkumálum Norðlendinga yrði í þessari röð: Lína um byggðir, sem ætti að geta komið seint á árinu 1975, síðan gufuvirkjun, 50–55 MW, sem ætti að geta komið á árunum 1977–1978, og síðan þyrfti að hefja undirbúning að vatnsvirkjun eða taka ákvörðun um vatnsvirkjun ekki síðar en á árinu 1976 til þess að geta lokið henni í kringum 1980 eða 1982.

Ég vil svo aðeins að lokum undirstrika það, að þeta er ekki hugsað sem nein staðbundin orkupólitík, heldur einn liður í því að skapa öruggar og hagkvæmar virkjanir fyrir landið.