05.02.1974
Sameinað þing: 51. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

188. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Að undanförnu hafa farið fram miklar umr. um orkuskort á Norðurlandi. Það er ekki hugmynd mín hér að upphefja deilur um það mál. Hvort tveggja er, að það hefur mikið verið rætt í blöðum að undanförnu, og eins hefur málið verið til umr. hér á hv. Alþ., bæði í Ed, og eins hér í Sþ. í dag. Meginatriði málsins er líka það, að við flm. þessarar þáltill. um virkjun Fljótaár annars vegar og Svartár hins vegar höfum flutt þessi mál til þess að hafa áhrif á það, að bráður bugur verði undinn að því að hæta um í raforkumálum Norðurlands, en alls ekki til þess að upphefja hér rifrildi. Ég vil líka strax geta þess, að hæstv. iðnrh. hefur þegar í umr. í Ed. gefið vilyrði um það, að Siglufjarðarkaupstað verði heimilað að virkja Fljótaá, en virkjun Fljótaár er næsta mál á dagskrá, og ræði ég það mál þá frekar.

Við flm, þessara tveggja till. erum hæstv. iðnrh. að sjálfsögðu þakklátir fyrir það, að hann skyldi bregðast skjótt við, er till. þessar höfðu verið fluttar, og láta að nýju hefja athugun á hagkvæmni Fljótaárvirkjunar. En þeir, sem til þekkja, vita, að þar er um hagkvæma framkvæmd að ræða.

Á hinn bóginn taldi hæstv. iðnrh. í umr, í Ed. ýmis vandkvæði vera á um virkjun Svartár í Skagafirði, vegna þess að landeigendur væru ósammála um þá framkvæmd. Önnur rök hygg ég ekki, að hann hafi fært fram gegn þeirri framkvæmd við þessar umr. Nú liggur það hins vegar fyrir, að landeigendur allir hafa lýst yfir, að þeir fallist á þessar framkvæmdir af sinni hálfu. Ég er hér með í höndum yfirlýsingu landeigenda og vil lesa hana upp, með leyfi forseta. Hún er bókuð í fundargerðarbókum raforkumálanefndar Norðurl. v. 11. okt. 1969 og hljóðar svo:

„Lýstu bændur því yfir, að þeir væru virkjuninni hlynntir og mundu leyfa virkjunina, þ.e. nýtingu fallsins, alla mannvirkjagerð og yfirferð yfir lönd þeirra, enda komi fullar bætur fyrir allt tjón og greiðsla fyrir nýtingu vatnsaflsins. Bætur verði ákveðnar með samkomulagi, ef það næst ekki, þá af dómkvöddum mönnum.“

Undir þessa bókun skrifa allir þeir bændur, sem hlut eiga að máli, en þeir eru Indriði Jóhannesson, Reykjum, Kristinn Jóhannesson, Reykjum, Sigmundur Magnússon, Vindheimum, og Pétur Pétursson, Reykjavöllum. Af bókun þessari má sjá, að bændur voru tilbúnir til þess að semja um málið eða láta fara fram mat dómkvaddra manna. Andstaða gegn virkjun Svartár við Reykjafoss getur þess vegna ekki byggst á því, að hændur séu framkvæmd þessari andvígir. Þvert á móti hafa þeir allir lýst yfir, að þeir séu framkvæmdum samþykkir.

Þá er þess að geta, að fiskræktarmennirnir, sem byggt haf stiga í Svartá og leitast við að rækta ána, hafa haft uppi andmæli gegn virkjunarframkvæmdum. Þó er rétt að upplýsa, að þessir aðilar hafa verið reiðubúnir til samninga, og mun liggja fyrir till. af þeirra hálfu um lausn málsins. Vissulega hef ég samúð með sjónarmiðum fiskræktarmanna, enda sjálfur í þeirra hópi. En því miður hafa tilraunir til ræktunar Svartár gengið verr en menn vonuðu. Enn er enga fiskgengd að finna ofan Reykjafoss. Segir mér raunar svo hugur um, að helsta leiðin til þess að rækta Svartá sé einmitt sú, að virkjun verði framkvæmd og samvinna virkjunarmanna og fiskræktarmanna leiði til þess, að unnt verði að flytja fisk upp fyrir Reykjafoss og rækta þar upp fallegt og skemmtilegt veiðivatn. Ég hygg, að naumast verði á færi einstaklinga að framkvæma það, en í samvinnu við virkjunina mætti áreiðanlega gera þar veiðivatn, líkt og gert hefur verið við Elliðaárnar, sem allir þekkja.

Orkuskortur á Norðurl. v. er svo mikill, að á s.l. ári var dísilkeyrsla heldur meiri en vatnsaflsorkuframleiðsla. Orkuframleiðsla dísilvéla var 11.5 millj. kwst., en vatnsaflsframleiðslan 11.3 millj. Þetta á við um Skagafjarðar- og Húnavatnssýslur. Hins vegar var ástandið miklu betra á Skeiðsfosssvæðinu, þar sem Siglufjarðarkaupstaður sér um orkuframleiðslu, en þar var vatnsaflsorkan 11.8 millj. kwst., en dísilframleiðsla hins vegar aðeins 0.6 millj. kwst.

Mjög er nú um það rætt, að húshitun þurfi að auka með raforku, þar sem ekki er um að ræða jarðvarmahitun. Á svæði því, sem hér um ræðir, þ.e. í Húnavatnssýslum, Skagafirði Siglufirði og Ólafsfirði, eru íbúar alls um 11098. Af þessum fjölda hafa 3228 þegar fengið hitaveitu, þ.e.a.s. Sauðárkrókur, Ólafsfjörður og Hvammstangi. Hugsanleg er hitaveita fyrir Siglufjörð og Blönduós, en þá fengju 2840 íbúar jarðvarmaveitu. Auk þess eru í einstökum bæjum 220 íbúar, sem hitaveitu hafa, þannig að hitaveita er nú komin til rúmlega 3400 íbúa í þessum landshluta. Alls gæti hitaveita hugsanlega náð til 6270 íbúa eða um það bil á þessu svæði, en rafhitunar þyrftu þá við nær því 5000. Lauslega áætlað má segja, að um 50 gwst. þyrfti til þess að útvega öllu þessu fólki rafhitun. Svartárvirkjun mundi framleiða nálægt 16 gwst. en Fljótaá hins vegar um 9 gwst. Virkjun þessara tveggja fallvatna mundi þess vegna sjá um það bil helmingi þess fólks, sem ekki á kost á hitaveitu, fyrir rafmagnshitun. Þótt ráðist yrði í báðar þessar framkvæmdir, yrði þess vegna að sjá helmingi þeirra íbúa, sem rafhitun þurfa, fyrir orku með öðrum hætti. Og síðan vantar að sjálfsögðu hina almennu orku, sem nú er að meiri hluta til framleidd með dísilorku í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum.

Af þessu sést glögglega, að brýn þörf er á að virkja Svartá og Fljótaá. Sumum kynni kannske að finnast einkennilegt að ráðast í tvær tiltölulega litlar virkjanir á sama svæðinu samtímis. En sannleikurinn er samt sá, að brýn þörf er á þessum framkvæmdum, eins og ljóst er af því, sem áður hefur verið sagt. Þess er líka að gæta, að þessar virkjanir eru hagstæðar. Virkjun Svartár mun kosta í kringum 165 millj. kr., en hún er milli 3.5 og 3.8 MW.

Talsvert hefur að undanförnu verið rætt um samtengingar orkuvera, og auðvitað verður sú niðurstaðan, um það er lýkur, að landið verður meira og minna tengt saman. Hins vegar er fráleitt að hugsa sér, að allur vandi í orkumálum verði leystur með þeim hætti. Þvert á móti ber brýna nauðsyn til þess að hafa orkuframleiðslu víða um land, þannig að ekki skapist neyðarástand, þótt truflun verði á orkuflutningi, sem ætíð hlýtur að verða hér í okkar veðráttu. Raunar mun víða erlendis við það miðað, að hver eining í orkuframleiðslu sé ekki stærri en svo, að unnt reynist að komast hjá vandræðum, þótt ein eða fleiri einingar í orkuframleiðslunni fari út, sem kallað er, bili með einhverjum hætti.

Sannleikurinn er sá, að þær tvær smávirkjanir, sem hér eru til umr., nægja ekki á orkuveitusvæði Norðvesturlands, heldur þarf að byggja þriðju virkjunina á vesturenda svæðisins, þar sem þeirri framkvæmd yrði á komið, og skal ég ekki fara nánar út í þá sálma. En mergurinn málsins er sá, að fljótvirkasta leiðin til þess að bæta úr brýnum rafmagnsskorti í þessum landshluta er virkjun Svartár og Fljótaár í Skagafirði. Báðar þessar virkjanir eru fullhannaðar og unnt að hrinda þeim í framkvæmd á skömmum tíma. Ljóst er, að báðar eru þær hagkvæmar og ekkert það í veginum, sem á að hindra þessar framkvæmdir. — Eins og ég áðan gat um, eru landeigendur við Svartá sammála um að heimila framkvæmdir, og ekki verður þar um að ræða nein náttúruspjöll.

Með hliðsjón af þessum staðreyndum leyfi ég mér að treysta því, að þm. veiti máli þessu brautargengi. Virkjunarframkvæmdir við Svartá kosta minna en einn lítill skuttogari, en þær mundu leysa úr mjög brýnni þörf íbúa þessa byggðarlags fyrir raforku. Þess vegna má engan tíma missa. Till. þessa þyrfti að samþykkja hið bráðasta, þannig að framkvæmdir væri unnt að hefja.