06.02.1974
Neðri deild: 58. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2029 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

198. mál, tryggingadómur

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Haustið 1971 var lagt hér fram á Alþingi frv. til l. um breyt. á almannatryggingalögum, og í frv, voru svo hljóðandi ákvæði um stofnun tryggingadóms:

„Í tryggingadómi eiga sæti 3 menn: læknir, lögfræðingur og tryggingafræðingur, skipaðir af hæstarétti til 4 ára í senn. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Tryggingadómur sker úr ágreiningi um bótarétt milli einstaklinga og Tryggingastofnunar ríkisins eða sjúkrasamlaga. Tryggingadómur setur sér sjálfur starfsreglur.“

Þetta ákvæði hlaut ekki samþykki Alþ. Þess í stað var samþ. breyting á 2. mgr. 6. gr., svo hljóðandi:

„Risi ágreiningur um bætur, leggur tryggingaráð úrskurð á málið. Þeim úrskurði má áfrýja til tryggingadóms, sem sett verði um sérstök löggjöf.“

Þannig var ákvæðið staðfest sem lög nr. 96 hinn 27. des. 1971, og þar með var ríkisstj. falið að láta semja sérstakt frv. um tryggingadóm. 20. jan. 1972 skipaði ég því n. til að semja frv. til l. um tryggingadóm. N. þessi skilaði áliti í febr. 1973. Hafði hún þá samíð frv. til l. um tryggingadóm, sem síðan var sent nokkrum aðilum til umsagnar. Umsagnir bárust aðeins frá endurskoðunarnefnd þeirri, sem starfar við athugun á almannatryggingakerfinu. Þær athugasemdir þóttu vera til bóta að ýmsu leyti. Voru þær breyt. því felldar inn í hina upphaflegu gerð frv., og er það þannig lagt fram nú.

Okkur er tamt að gera samanburð við önnur Norðurlönd, einkum á sviði almannatryggingamála, enda hefur samvinna á því sviði verið náin og samræming reglna sömuleiðis. Gagnkvæm réttindi þegna þessara landa við dvöl eða búsetu utan heimalands kalla á ákveðna lágmarkssamræmingu í reglum og í túlkun þeirra og framkvæmd. Þess vegna hefur Alþ. með fyrrnefndum l. talið nauðsynlegt, að settur yrði á fót tryggingadómur hér á landi, eins og verið hefur um skeið í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Lög um trygginga dóm í þessum löndum eru hins vegar mjög mismunandi, eins og rakið er í þeirri ítarlegu grg., sem fylgir frv., og við höfum orðið að fara okkar eigin leiðir, þótt að vísu sé að nokkru stuðst við þær reglur, sem Norðmenn fylgja, að því er einstök ákvæði varðar.

Menn kann að greina á um, hvert eigi að vera verksvið dómsins, og sá ágreiningur kom upp í n. Form. n., sem frv. samdi, Auður Þorbergsdóttir, taldi, að hlutverk dómsins ætti að vera að dæma í málum, sem rísa vegna ágreinings um úrskurði tryggingaráðs, en öðrum málum ekki. Aðrir nm., Erlendur Lárusson og dr. Snorri Hallgrímsson, vildu hafa verksvið dómsins víðara og láta það ná til ágreinings um bætur og hótarétt samkv. tryggingum almannatrygginga, lífeyrissjóða, sjúkrasjóða og eftirlaunasjóða, svo og á tryggingum á lífi og heilsu eða gegn líkamstjóni, sem teknar eru hjá almennum tryggingafélögum. Bæði þessi sjónarmið hafa mikið til síns máls. Spurningin er aðeins, hvaða stefnu eigi að marka. Till. sú, sem hér er lögð fram um þetta í 2. gr. frv., er málamiðlun þeirra tveggja sjónarmiða, sem komu fram í n. 2. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verkefni tryggingadóms er að dæma í málum, sem rísa vegna úrskurðar tryggingaráðs Tryggingastofnunar ríkisins, varðandi bætur og bótarétt einstaklinga samkv. l. um almannatryggingar. — Þar fyrir utan skal tryggingadómur dæma í málum, sem með l. verða lögð undir dóminn .“

Það er sem sagt gert ráð fyrir því, að verksvið þessa dóms geti orðið víðtækara en ráðgert er í þessu frv., ef Alþ. gerir um það sérstakar samþykktir í sambandi við aðra þætti tryggingamála. Þessi málamiðlun virðist vera nothæf leið, sem ekki tekur af skarið núna, heldur felur Alþ. að víkka starfssvið dómsins.

Mér er engin launung á því, að ég teldi ekki óeðlilegt að hafa þann hátt á, sem Erlendur Lárusson og dr. Snorri Hallgrímsson lögðu til, en þetta er, eins og ég sagði áðan, matsatriði. Alþ. getur skorið úr um það núna, hvort breyta á frv. að því er þetta atriði varðar, eins og raunar önnur, eða hvort það vill hafa þann hátt á, sem þarna kemur till. um, að starfssvið dómsins verði vikkað samkv. reynslu, ef þörf þykir á því síðar.

Þessu frv. fylgir ítarleg grg., sem er að mestu samin af tryggingadómsnefndinni, og svo er einnig um aths. við einstakar greinar. Þar sem grg. með frv. er bæði ýtarleg og skýr, sé ég ekki ástæðu til að rekja hana nánar, en leyfi mér að vísa til þess, sem þar er sagt. Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og trn.