06.02.1974
Neðri deild: 58. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

198. mál, tryggingadómur

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðherra tók fram, byggist það frv., sem hér liggur fyrir, á ákvæði í almannatryggingalögunum, þar sem segir, að sett skuli sérstök löggjöf um tryggingadóm, sem settur skuli á fót. Eins og hv. þdm. ef til vill muna, kom þetta ákvæði inn í l. á sínum tíma vegna þess, að ákvæði um tryggingadóm í því frv., sem þá lá fyrir til núgildandi tryggingal., var ákaflega fljótræðislega úr garði gert og ekkert um það fjallað, hvernig þessi dómur ætti að starfa né heldur hvaða reglum hann ætti að hlíta yfirleitt. Það mun því fyrst og fremst byggjast á því, að í l. þessum stendur, að sett skuli vera sérstök löggjöf um dómstólinn, sem þetta frv. er fram komið. Nm. hafa talið nauðsynlegt að leggja fram einhvers konar nál. eða nauðsynlegt væri að frv. kæmi fyrir Alþingi um þetta efni. Náttúrlega má segja, að ef ekkert frv. hefði fram komið, þá hefði það út af fyrir sig ekki verið brot á tryggingalögunum. Þetta ákvæði stóð aðeins í tryggingalögunum til þess, að lögð væri áhersla á, að um heilan sérdómstól í landinu yrði að gilda sérstök löggjöf, ef sá dómstóll yrði á annað borð settur á fót. Hitt var annað mál, hvort mönnum að athuguðu máli kæmi saman um, að nauðsynlegt væri að setja slíkan dómstól á fót.

Það fyrsta, sem þarf þá á að líta á í þessu máli, er, hvort raunverulega er þörf fyrir dómstólinn. Sú þörf verður vitanlega að vera alveg ljós, annars á þetta frv. engan rétt á sér. Við sjáum, að innan n., sem undirbjó frv., voru uppi ákaflega skiptar skaðanir, og ég vil taka það fram, að mér finnast sjónarmið form. n., Auðar Þorbergsdóttur, vera langeðlilegust í þessu sambandi. Það er í raun og veru hennar álit, virðist mér, sem ræður því, að verkefni tryggingadóms samkv. frv. er aðeins bundið við úrskurði tryggingaráðs. Aðrir nm. voru þeirrar skoðunar, að e.t.v. bæri að fela þessum dómstóli mun víðtækara verkefni, ýmiss konar ágreiningsefni milli almennings og hinna ýmsu tryggingafélaga. Ef að því ráði yrði horfið, yrði þarna um að ræða miklu flóknara og viðameira verkefni heldur en til stendur samkv. þessu frv. Það er sérstaklega þetta atriði, að verkefnið yrði að þessu leyti miklum mun víðtækara, sem ég vil mæla gegn. Ég tel óráðlegt, að farið verði út í að láta sérstakan dómstól fjalla um ágreiningsmál — við skulum segja þeirra, sem orðið hefðu fyrir slysum og gerðu stórar skaðabótakröfur á hendur tyggingafélögum. Hinir almennu dómstólar í landinu hafa orðið mikla æfingu í meðferð slíkra mála. Þeir hafa rétt til þess að kveðja til sérfróða meðdómendur um hin ýmsu mál. Á það ber að líta, að oft þarf menn með mismunandi sérþekkingu sem meðdómendur í skaðabótamálum. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að meðdómendur í tryggingadómi yrðu læknir og tryggingafræðingur. Það er í sjálfu sér í ákaflega mörgum tilvikum nauðsynlegt og ágætt. En sérþekking þeirra manna hrekkur oft ekki til í þeim málefnum, sem ýmis deilumál gagnvart tryggingafélögum fjalla um. Auk þess er svo sú ástæða, að deilumál gagnvart tryggingafélögunum fjalla oftast nær um stórar eingreiðslur bóta, og atvik til bótaréttarins eru oft mjög óljós og umdeild, svo að rannsókn þeirra kann að taka langan tíma. Það er að mínu viti alls ekki slíkt verkefni, sem tryggingadómstóll á að fjalla um.

Ég viðurkenni fyllilega, að að mörgu leyti er verkefni það, sem tryggingadómi væri falið samkv. þessu frv., ef samþ. yrði, mjög eðlilegt. Það getur hugsanlega komið sér vel fyrir bótaþega Tryggingastofnunar ríkisins að geta snúið sér til dómsstigs, sem væri mun fljótvirkara en önnur dómstig í réttarkerfinu. Það hefur að vísu ekki skeð enn þá mér vitanlega, að komið hafi til hinna almennu dómstóla mál um úrskurði tryggingaráðs. En skýringin á því þarf ekki endilega að vera sú, að það sé ekki þörf á slíku dómsstigi, heldur getur einmitt verið um það að ræða, að það fólk, sem hér á í hlut, er oft mjög illa sett fjárhagslega og á einmitt þess vegna oft rétt á bótum frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá eru upphæðirnar, sem um er að ræða, oft tiltölulega litlar á mælikvarða almennra dómsmála, ef svo má segja, fjárhæðir, sem eru e.t.v. veittar mánaðarlega bótaþegum til framfærslu, og þola þess vegna litla bið og ekki heldur flókna málsrannsókn. Þetta finnst mér vera höfuðrökin fyrir því, að sérstakur tryggingadómstóll gæti fullnægt vissri þörf, sem fyrir hendi kann að vera. Ef þessi þörf er ekki fyrir hendi, sýnist mér ekki vera nein ástæða til þess að setja upp sérdómstól í tryggingamálum. Þess vegna get ég ekki fallist á það, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að það væri vegna samræmingar á þessum sviðum við reglur á öðrum Norðurlöndum, sem lög um tryggingadóm yrðu sett. Eins og hæstv. ráðh. sjálfur tók fram, eru l. um hina ýmsu tryggingadómstóla á Norðurlöndum afskaplega mismunandi innbyrðis. Auk þess er hér allt miklu smærra í sniðum en þar. Ýmsar aðrar ástæður liggja til þess, að það er engin samræmingarnauðsyn norræn, til þess að slík löggjöf yrði sett hér á landi, heldur þvert á móti þessi ástæða ein, sem ég gat hér um áðan, að þarna gæti verið fljótvirk leið til þess að leysa úr ágreiningsmálum, sem vörðuðu tiltölulega litlar fjárhæðir félítils fólks. Þá væri nauðsynlegt, að tryggingadómur, sem takmarkaður væri við þetta verkefni, gæti veitt kærendunum meiri handleiðslu en almennir dómstólar. Það væri þá gert á þann hátt, að við dóminn starfaði e.t.v. sérstakur lögfr., sem tæki að sér að leggja málin fyrir dómstólinn með einföldum og skýrum hætti, þannig að skjólstæðingurinn gæti átt það víst, að honum væri tryggt með því fyllsta öryggi og öll þau atvik kæmu fram í málflutningi, sem hann annars kæmi ekki sjálfur auga á. Bæði er það, að slíkur málflutningur væri skjólstæðingnum of kostnaðarsamur hjá hinum almennu lögmönnum, miðað við það, að um tiltölulega lágar fjárhæðir væri að ræða, og svo hitt, að lítill tími yrði hjá þeim að annast þessi mál með öðrum, sem fyrir lægju, og einfaldast væri því, að sérstakur lögfræðingur annaðist þessar leiðbeiningar í sambandi við tryggingadómstólinn. Þetta er í raun og veru í samræmi við það álit, sem í grg. segir, að hafi komið fram hjá form. n., þar sem hún segir, að betra og hagkvæmara hefði verið að koma á fót upplýsingastofnun, þar sem sérmenntað starfsfólk veitti borgurum upplýsingar um ítrasta rétt þeirra í tryggingamálum almennt. En hún bætir við því áliti sínu, form. n., að e.t.v. hefði slíkur upplýsingaveitandi getað komið í veg fyrir, að þörf væri fyrir sérdómstól sem þennan. En hvort sem horfið verður að því ráði að setja á fót sérstakan dómstól í þessum málum eða ekki, má telja nauðsynlegt, að sérstakur lögfræðilegur ráðgjafi starfi í tengslum við dóminn eða Tryggingastofnun ríkisins.

Þá er annað atriði, sem sérstaklega má benda á, að erfitt er að koma auga á, að það sé nauðsynlegt, að dómurinn sé skipaður á þann hátt, sem greinir í frv., að þar séu 2 lögfræðingar, læknir og tryggingastærðfræðingur. Þetta er að vísu ágætt, svo langt sem það nær, en heimild þyrfti að vera einnig til þess, að hægt væri að kveðja til sérfróða meðdómendur á öðrum sviðum. Um ýmis önnur atvik getur verið að ræða, sem sérstaka þekkingu þarf á. T.d. þyrfti stundum þekkingu manns, sem væri fróður heima í héraði þess, sem í hlut á, e.t.v. um atvinnuaðstæður eða slíkt.

Þessi atriði, sem ég hef bent hér á, komu öll fram í umr. um þetta mál á fundi tryggingaráðs nú í morgun og eru í samræmi við álit, sem form. tryggingaráðs, Gunnar Möller, skrifaði fyrir hönd ráðsins um þetta efni. Ég vil aðeins leyfa mér að skýra í nokkrum atriðum fleirum frá því, sem kom fram í þessu áliti og ekki var gerður ágreiningur um í tryggingaráði. Hins vegar skrifuðu einstakir ráðsmenn ekki undir þetta, þar eð svo stendur á, að 3 alþm. eiga sæti í tryggingaráði. Þeim fannst öllum eðlilegra, að þeir hefðu óbundnar hendur í meðferð þessa máls hér á Alþ. Ég vil láta þessi atriði koma fram strax nú við 1. umr., vegna þess að undirbúningur þessa máls hefur verið talsvert ræddur manna í meðal og rétt er, að alþm. kynnist þessu í aðalatriðum.

Ég hafði þegar bent á tvö atriði í sambandi við skipun dómsins og meðdómendur og hins vegar lögfræðilegan ráðgjafa. í sambandi við verkefni dómsins eru ýmis vafaatriði í 2. gr. Þar er sérstaklega tekið fram, að tryggingadómur geti dæmt í málum, sem „með lögum verða lögð undir dóminn.“ Þetta segir sig náttúrlega sjálft, og ég get ekki séð ástæðu til að taka þetta fram. Þar við bætist, að ef tryggingadómi verða með lögum falin ný verkefni, þá er það auðvitað eðlileg aðferð, að slíku verði bætt inn í þessi lög, en ekki gert ráð fyrir, að því verði dreift út um hina og þessa lagabálka.

Í 2. gr. var tekið fram, að verkefni væru að öðru leyti einskorðuð við úrskurð Tryggingastofnunar ríkisins. Það mætti hugsanlega bæta verkefni við varðandi atvinnuleysistryggingar, þótt ekki væri farið inn á það verkefni, sem ég mælti gegn áðan, að taka að sér ágreiningsmál gagnvart tryggingafélögum. Einnig mætti spyrja um það, hvort hugsanlegt væri, að tryggingaráð gæti borið undir dóminn ýmis atriði í sambandi við heimildarákvæði tryggingalaganna, en svo stendur nú, að í tryggingalöggjöfinni eru milli 20 og 30 heimildarákvæði, þar sem ævinlega er komið undir úrskurði tryggingaráðs, hvernig með skuli fara. Margt af þessum heimildarákvæðum varðar einfaldlega framfærslusjónarmið, og get ég ekki séð, að þau ákvæði ættu nauðsynlega heim heima í slíkum dómstóli eða úrskurður um þau. Hins vegar eru stundum uppi lögfræðileg vafaatriði, sem stuðningur gæti verið að geta skotið til dómsins.

Enn er eitt atriði, sem ég held, að sé mjög mikilvægt gagnvart bótaþegum og ekki gengur ljóslega fram af þessu frv., hvort dómurinn á að fjalla um. Það er örorkumat. Ég held, að það séu fá atriði í tryggingakerfinu, sem eru eins viðkvæm og orsaka jafnmikinn vafa eða stundum óánægju hjá bótaþegum og sjálft örorkumatið. Eins og frv. er úr garði gert, getur dómurinn ekki haggað því, enda verður varla séð, að það sé æskilegt, eins og gert er ráð fyrir að hann verði skipaður. En á hitt mætti benda, að eins og örorkumati er núna komið fyrir, fjallar einungis læknir Tryggingastofnunarinnar um það. Grundvelli örorkumatsins mætti vissulega breyta, þannig að það færðist yfir á breiðari grundvöll og næði til fleiri atriða en aðeins læknisfræðilegra, því að örorka manns getur verið háð fleiru en aðeins helsufari hans. Inn í það dæmi geta komið fleiri þættir, eins og atvinnuaðstæður og atvinna, sem viðkomandi maður hefur stundað áður, atvinna, sem völ er á í hans byggðarlagi og svo ýmsar félagslegar aðstæður. Það gæti vel verið ástæða til þess, að fleiri aðilar fjölluðu um örorkumat heldur en nú er. En ég vil taka fram, að með þeim orðum er ég að taka undir álit formanns tryggingaráðs, sem lagt var fram í tryggingaráði nú í morgun, að ekki væri æskilegt, að dómurinn fjallaði um sjálft örorkumatið.

Loks er eitt atriði enn, sem ég vil taka fram og enginn ágreiningur var gerður um í tryggingaráði, og það atriði varðaði úrskurðarvald tryggingadóms, að það yrði endanlegt. Við gerum ráð fyrir, að tryggingadómur muni fjalla um tiltölulega lítil og fljótleg mál og þá muni skynsamlegra vera, að úrskurðir verði endanlegir. Frv. gerir hins vegar ráð fyrir, að þarna verði um millidómsstig að ræða, en þá verður e.t.v. ekki um mikinn sparnað að ræða, hvorki í fé né tíma. Ef að því ráði verður horfið, að úrskurður dómsins verði endanlegur, þyrfti að styrkja dóminn betur lögfræðilega en gert er ráð fyrir í frv. T.d. sætu þá í honum 3 lögfræðingar, sem hefðu minni takmörkun á rétti til þess að kveðja til sérfróða meðdómsmenn.

Ég held, að það hafi ekki verið fleiri atriði, sem ég taldi nauðsynlegt að vekja athygli á nú við I. umr., en vil mega vænta þess, að þeir hv. alþm., sem hafa áhuga á þessu máli og hugleiða þessi atriði, taki þessi atriði til skoðunar. Ég tek fram, að öll þessi atriði eru byggð á nákvæmum athugunum, sem gerðar hafa verið af form. tryggingaráðs fyrir tryggingaráð.