30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

29. mál, móttökuskilyrði sjónvarpssendinga á fiskimiðunum

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason) :

Herra forseti. Á síðari hluta síðasta Alþ. flutti ég till. til þál. um bætt móttökuskilyrði fyrir sjónvarpssendingar á fiskimiðunum úti fyrir Vestfjörðum. Þessi till. fór á sínum tíma til hv. fjvn. til meðferðar, hlaut þar að vonum skjóta afgreiðslu og eins og efni stóðu til og mál stóðu þá viðunandi afgreiðslu, og var sú till., sem endanlegt kom upp úr þessu og var afgreidd í fjvn. á þeim tíma afgr. hér sem ályktun Alþ. hinn 14. apríl s. l. og hljóðaði svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna ítarlega skilyrði til móttöku sjónvarpssendinga á fiskimiðum umhverfis landið. Jafnframt verði gerð kostnaðaráætlun um úrbætur í þessum efnum, ef þeirra reynist þörf. Umræddri könnun og kostnaðaráætlun skal lokið fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Í framhaldi af þessu hef ég leyft mér að bera fram á þskj. 30 fsp. til hæstv. menntmrh. um það, hvort umræddri könnun, sem um getur í tilvitnaðri þál., sé lokið, ef svo er, hverjar séu niðurstöður þeirrar könnunar, og að lokum, hvort gerð hafi verið áætlun um kostnað af þeim úrhótum, sem talið yrði að þyrfti að gera, ef eitthvað er um að ræða í þeim efnum.