06.02.1974
Neðri deild: 58. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

198. mál, tryggingadómur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör þeirra um það, að það muni verða athugað, hvaða kostnaður muni hljótast af þessu frv., ef það verður samþ. Ég álít, að það sé mjög nauðsynlegt, að slíkir útreikningar liggi fyrir, ekki aðeins um þetta mál, heldur önnur mál. en um það þarf ekki að fara mörgum orðum, að ríkiskerfið hefur mikla tilhneigingu til þess að þenjast út, og þess vegna er nauðsynlegt að vera þar á varðbergi.

Annars kvaddi ég mér nú hljóðs jafnframt vegna þess, að hv. sessunautur minn, 12. þm. Reykv., sem er fróðari um tryggingamál en ég, benti mér á, að það hefði gætt nokkurs misskilnings í fyrri ræðu minni, þannig að ákvæðið um stofnun tryggingadóms sé ekki að finna í lögum frá 20. apríl 1971, heldur l. frá 27. des. 1971, og vil ég leiðrétta þetta.