06.02.1974
Neðri deild: 58. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

198. mál, tryggingadómur

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Það er gott að heyra, að það verði kannað nánar, hver kostnaður kunni að verða af stofnun tryggingadóms. En það er ljóst, að einhver aukakostnaður verður af þessu. Þetta er ný stofnun, sem á að koma hér á fót, og hlýtur af því að leiða kostnað fyrir ríkissjóð.

Varðandi kostnað fyrir þá, sem þurfa að sækja undir dómstóla, og tek ég undir það með hæstv. trmrh., að að sjálfsögðu ber að greiða götu þeirra sem best. Oft er um efnalítið eða efnalaust fólk að ræða, fátækt og rétt að taka þar engin réttargjöld og greiða fyrir því á annan hátt, að slíku fólki verði unnt að sækja sinn rétt. En það er auðvelt að gera, þó að mál heyri áfram undir venjulega dómstóla.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að kostnaður við tryggingadóm greiðist úr ríkissjóði. Þar er að sjálfsögðu átt við kostnaðinn við sjálfan dóminn, laun dómenda og annan slíkan kostnað, en ekki átt við t.d. þóknun aðila til lögmanna, geri ég ráð fyrir. Aðilar munu greiða þeim eftir sem áður, þótt þetta frv. verði samþykkt.

Ég tek undir það eindregið, að ráðstafanir er æskilegt að gera til þess að greiða sem mest fyrir þeim mönnum, sem þurfa að leita dómstóla út af tryggingamálum, og gera þeim málsóknina sem ódýrasta. En um hitt atriðið, hvort þetta mundi flýta málum, þá fæ ég ekki séð, að svo muni verða. Hér er ekki fækkað neinum dómstigum eða aðilum, sem til þarf að leita. Fyrst er gert ráð fyrir, að tryggingaráð kveði upp úrskurð, og síðan er sá úrskurður kærðum til tryggingadóms í stað héraðsdóms nú, og ef mönnum líkar ekki úrskurður tryggingadómsins, má skjóta málum til hæstaréttar, alveg eins og nú er. Hins vegar má segja, að að einu leyti geti þetta frv., ef að lögum yrði, tafið fyrir málum. Hér er m.a. gert ráð fyrir því að taka dómsvaldið úr höndum héraðsdómara og færa það allt saman til þessa dómstóls, sem á að vera í Reykjavík. Nú má vel vera, að eftir núgildandi l. þurfi yfirleitt að höfða slík mál gegn tryggingaráði eða Tryggingastofnun í Reykjavík, um það skal ég ekki fullyrða. En a.m.k. með þessu frv. er slegið föstu, að slík mál megi alls ekki höfða í héruðum, heldur þurfi að sækja þau öll til Reykjavíkur.

Loks vil ég endurtaka það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að mér finnst ekki hafa verið færð fram sannfærandi rök fyrir því, að nauðsynlegt sé eða æskilegt að stofna þannig nýjan dómstól. Þvert á móti bendir grg. til þess, að það séu of lítil verkefni, sem slíkum dómstóll séu ætluð, og þeim mun minni ástæða til þess að vera að koma á fót nýrri stofnun. Ég beini því til þeirrar n., sem fær málið, að athuga vandlega, hvort nokkur þörf er á slíkum dómi.