06.02.1974
Neðri deild: 58. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2043 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fjh: og viðskn. þessarar d. hefur fjallað um þetta frv. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 351, voru ofurlitið skiptar skoðanir í n. um einstök atriði málsins. 4 nm., auk mín þeir Þórarinn Þórarinsson, Gylfi Þ. Gíslason og Matthías Á Mathiesen, leggja til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, að ríkisstj, verði einnig heimilað að ábyrgjast lán til kaupa á skipi til flutninga fyrir Vestmannaeyjar. Flyt ég sem formaður n. brtt. um þetta. Aðrir nm. hafa óbundnar hendur um þessa brtt.

Þá kom fram í n. af hálfu Gylfa Þ. Gíslasonar, Matthíasar Á. Mathiesen, Karvels Pálmasonar og Matthíasar Bjarnasonar veruleg gagnrýni á þá málsmeðferð að fella saman í eitt frv. ábyrgðarheimíldir annars vegar fyrir fiskiskip og hins vegar fyrir ferjuskip, og tveir nm., þeir Karvel Pálmason og Matthías Bjarnason, eru efnislega andvígir þeirri breytingu, sem gerð var á frv. í Ed., en styðja málið eins og það var upphaflega lagt fyrir Alþ. Breytingin, sem gerð var í Ed., er, eins og öllum hv. dm. er kunnugt, að þar var bætt í heimild til þess að ábyrgjast lán vegna kaupa á skipi til ferða á milli Reykjavíkur og Akraness.

Þetta frv. er stjfrv., og sú breyting, sem gerð var í Ed., var gerð í samræmi við tilmæli ríkisstj., sem bárust fjh.- og viðskn. þeirrar d. í bréfi. Afgreiðslan í Ed. mun hafa verið ágreiningslítil eða ágreiningslaus, svo er að sjá af atkvgr., ég hlýddi ekki á umr. og hef ekki lesið þær. Gagnvart Akranesskipinu, ábyrgðarheimildinni vegna þess, urðu töluverðar umr. í þessari hv. d. við 1. umr. málsins.

Nú er þess að geta, að til fjh: og viðskn. þessarar d. bárust tilmæli frá ríkisstj. um að bæta hér inn ábyrgðarheimild vegna kaupa á skipi til flutninga á milli Vestmannaeyja og lands og þá fyrst og fremst milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar.

Ég gat um það áðan, að í n. og raunar einnig við 1. umr. málsins hafi komið fram nokkur gagnrýni á því, að það skyldi vera fjallað um ábyrgðarheimildir fyrir þessar tvær skipagerðir í sama frv. Ég vil segja út af þessu, að ég held, að þessi gagnrýni sé ósköp ástæðulítil. Það er ekki talið þurfa að hafa nema eina gr. í fjárl. yfir marga tugi ábyrgðarheimilda fyrir ríkisstj. Og svipað þessu; alveg hliðstæð atvik um samtengingu mála í einu frv., um þau má finna fjölmörg dæmi í þingsögunni, bæði fyrr og síðar, svo ,að ég held, að það sé ástæðulaust að gera mikið úr þessu. Þetta er frekar smekksatriði en það skipti nokkru minnsta máli í sambandi við meðferð málsins.

Eins og ég sagði áðan, er alger samstaða um ábyrgðarheimildir vegna kaupa á fiskiskipunum eða loðnuskipunum, eins og þau hafa stundum verið nefnd, enda hefur nú verið góð loðnuveiði síðustu dagana. Það er kannske ekki hægt að segja um líkur fyrir því, hvort þessi heimild verði notuð að fullu eða ekki, en eins og stendur hygg ég, að aðeins hafi verið ákveðið að nota hana að því er varðar kaup á tveimur skipum.

Þá vil ég víkja að ferjuskipunum. Eins og áður hefur komið fram, var heimildin um ábyrgð vegna Akranesskipsins tekin inn í hv. Ed. Akraborgin, sem verið hefur í förum milli Reykjavíkur og Akraness, er orðin nokkuð gamalt skip, nálægt 20 ára gömul. Það líður að nokkuð dýrri flokkunaraðgerð á því skipi, og er dómur þeirra allra, sem koma nálægt rekstri þess skips, að það sé orðið æskilegt og enda nauðsynlegt að hefjast nú handa og skipta um skip, m.a. af þessum sökum, en einnig af fleiri ástæðum.

Viðkomandi aðilar, þ.e.a.s. hlutafélagið Skallagrímur, sem hefur rekið Akranesskipið lengi, hófu snemma í sumar eftirgrennslanir á skipamarkaði erlendis. Þeirra óskaskip mun vera eitthvað lítilsháttar minna en það, sem þeir að lokum fundu, sú ferja, sem hér var rætt um við 1. umr. og ráðgert hefur verið að kaupa frá Noregi. Þetta er ekki alveg nýtt skip, og það er að sjálfsögðu ákaflega mikill verðmismunur á þessu skipi og á nýsmiðuðu skipi, ef í það væri farið. Það er vert að vekja athygli á því, að einmitt á þeim tíma, sem liðinn er frá því, að þessar eftirgrennslanir voru komnar svo langt, að skilyrðisbundinn kaupsamningur var gerður, og þangað til nú í dag, hafa orðið mjög verulegar hækkanir á verði skipa á heimsmarkaði. Ég hygg, eð fyrirtækið hagnist á því að hafa gert þann skilyrðisbundna samning, sem það gerði á sínum tíma.

Þeir, sem að þessum málum hafa unnið, telja þetta sem sagt hagkvæm kaup eftir atvikum. Siglingamálastofnunin gaf fyrst bráðabirgðaumsögn um skipið, og hún hefur legið fyrir hjá fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. Þegar svo á þeirra vegum hafði fram farið skoðun á skipinu var send lokaumsögn um það, þar sem Siglingamálastofnunin samþykkir fyrir sitt leyti, að þetta skip sé keypt til landsins með skilyrðum um tilteknar breytingar á skipinu, sem ekki eru stórvægilegar og áreiðanlega ekki það kostnaðarmiklar, að þær út af fyrir sig ráði úrslitum um það, hvort kaupin eru skynsamleg eða ekki.

Um þetta mál virðist vera mjög góð samstaða þar efra. Að útgerð Akranesskipsins hafi ekki staðið aðeins Akraneskaupstaður eða aðilar þar, heldur er hlutafélagið Skallagrímur uppbyggt með þátttöku frá Akranesi, frá Borgarnesi og úr Mýra- og Borgarfjarðarsýslum. Þetta hlutafélag hefur starfað lengi og er sem sagt byggt upp á nokkuð breiðum grunni. Virðist vera samstaða um að ráðast í þessar framkvæmdir nú hjá öllum þessum aðilum, og hefur verið unnið að því að auka nokkuð hlutafé félagsins.

Þeir telja það sérstaklega mæla með því að ráðast í breytingu nú og kaupa nýtt skip, að komið er að nokkuð dýrri flokkunarviðgerð á Akraborginni. Þeir telja það einnig mæla með því að ráðast í þessa breytingu nú, að á síðustu misserum hefur nýting Akraborgarinnar verið með langmesta móti og síðasta ár er eitthvert besta rekstrarár skipsins. Bílaflutningar og raunar aðrir flutningar hafa aukist verulega. Og það er vert að gefa því gætur, að aukning bílaflutninganna verður þrátt fyrir þá annmarka, sem eru á því að flytja bíla með Akraborginni.

Ég held nú, að það séu allir eða nær allir a.m.k. ásáttir um það, að ekki sé rétt og raunar komi ekki til mála að leggja niður sjóferðir á milli Akraness og Reykjavíkur. Ég segi fyrir mig, að það eitt, að þeir aðilar, sem rekið hafa þetta skip, félagið, sem byggt er upp á jafnbreiðum grunni og ég lýsti áðan, — það eitt að þessir aðilar telja það mikið hagsmunamál að styrkja og efla þennan samgönguþátt, það finnst mér ráða úrslitum um það, að ekki komi til mála að leggja þessar ferðir niður. Þess vegna er raunveruleg spurningin aðeins um það, á hvern hátt framhaldið á þessum rekstri skuli vera, og það er þá fyrst og fremst það, hvort eigi að halda áfram að reka Akraborgina þrátt fyrir þetta, sem ég nefndi áðan, eða hvort það á að ráðast í að kaupa nýtt skip. Og þá er auðvitað spurningin, hvort menn vilja byggja alveg nýtt skip, sem þá væri sniðið nákvæmlega við þær þarfir, sem menn álíta vera, ellegar kaupa notað, eins og hér er ráðgert. Þá hljóta menn auðvitað að bera saman verðlagið, en vafalaust er þarna mjög mikið á munum.

Það hefur sem sagt orðið ofan á hjá forustumönnum Skallagríms og fengið meðmæli ríkisstj. og raunar Ed. Alþ. að fara þá leiðina að ráðast í kaup á nýlegu skipi, þótt ekki sé það alveg nýtt.

Ég vil aðeins minnast að lokum í sambandi við Akranesferjuna á aðstöðuna í höfnunum. Það hefur ekki enn þá verið tekin endanleg ákvörðun um, hvernig það mál verði leyst, og ákvörðun um það út af fyrir sig felst ekki í þessu lagafrv. Hins vegar fylgir það auðvitað samþykkt frv., að þetta verður að leysa á einn eða annan hátt. Það er unnt í fyrstu lotu að nota skipið til nokkurra bílaflutninga með gamla laginu með því að hífa bíla nm borð, en það er ekki það, sem verður til frambúðar, því að þá mundu kostir skipsins ekki nýtast nema að litlu leyti. Hafnamálið verður því að leysa, eins og ég sagði, á einn eða annan hátt.

Það liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um mismunandi valkosti nú, en það er hins vegar ljóst, að um mismunandi útbúnað getur verið að ræða í þessu sambandi. Það hefur verið vitnað hér í hugmyndir sem fram koma í skýrslu svokallaðrar Hvalfjarðarnefndar um þetta mál, og þar mun vera miðað við dýrasta og vandaðasta útbúnað. En hins vegar eru möguleikar á því að leysa þetta mál á annan hátt. En ég vildi rétt víkja að þessu, ég er ekkert að draga fjöður yfir það, að þetta úrlausnarefni hlýtur að koma til meðferðar, þó að ekki sé um það fjallað í þessu frv. um ríkisábyrgðirnar.

Þá er það Vestmannaeyjaskipið. Eins og ég gat um áðan, hef ég flutt brtt., sem 4 nm. ég gleymdi að taka það fram áðan, að einn nm., Gils Guðmundsson, var fjarstaddur, þegar málið var afgreitt, — ég hef flutt brtt., sem 4 nm. styðja, um það, eins og segir á þskj. 352, að ríkisstj. sé heimilt gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar, að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 80% af kaupverði skips til flutninga fyrir Vestmannaeyjar, enda gangist bæjarstjórn Vestmannaeyja fyrir stofnun félags, sem eigi skipið og annist rekstur þess. Þetta mál er nokkuð skemmra á veg komið heldur en mál þeirra, Akurnesinga eða öllu heldur Skallagrímsmanna. Vestmannaeyjar hafa ekki áður haft sérstakt skip, sem heimaaðili hefur haft eignarhald á og ráðið, þó að einstök skip Skipaútgerðar ríkisins hafi annast meiri þjónustu fyrir Vestmannaeyjar en önnur skip og þá Herjólfur alveg sérstaklega. En hér er um það að ræða, að þeir eignist sinn flóabát, ef svo mætti segja, sem hefði það meginverkefni að tengja Vestmannaeyjar og meginlandið við Þorlákshöfn með tíðum ferðum. í Vestmannaeyjum er í undirbúningi að stofna félag um þetta, og það liggur t.d. þegar fyrir einróma samþykkt bæjarstjórnarinnar um að beita sér fyrir slíkri félagsstofnun.

Það má geta þess í sambandi við hafnarmál þarna, að hafnirnar í Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum hafa þegar verið hannaðar með tilliti til svona skips. Það fer sem sagt fram, jafnhliða því sem verið er að undirbúa heima fyrir stofnun félags og fjáröflun af hálfu heimamanna í sambandi við skipakaup, athugun á heppilegri stærð og gerð og könnun á, hvað kosta mundi að byggja sérstakt skip til þessara nota. Eins og fram mun hafa komið áður, kemur Viðlagasjóður nokkuð inn í þessa mynd. Vestmanneyingar telja það mjög mikilsvert, ef nú mætti takast að fá þessa langþráðu samgöngubót. Og mér finnst rétt að vekja athygli á því, að þarna er í raun og veru um að ræða einn þátt í því viðreisnar- og endurbyggingarstarfi, sem nú fer fram úti í Vestmannaeyjum eftir eldgosið, — viðreisnarstarfi, sem öll þjóðin stendur á vissan hátt að. Eins og augljóst er, þá er hér um að ræða heimildir fyrir ríkisstj., sem hún getur ekki notað, nema að uppfylltum tilteknum skilyrðum, þ.e.a.s. stofnun aðila heima fyrir til þess að kaupa og reka skipið. Hún getur að sjálfsögðu fylgst með málinu og sett ýmis önnur skilyrði í sambandi við stærð og gerð skipsins, þar sem hér er aðeins um heimild að ræða.

Í sambandi við þetta mál langar mig aðeins að víkja að því að lokum, að það hafa vaknað spurningar og komið fram gagnrýni varðandi þjónustu Skipaútgerðar ríkisins við strandbyggðirnar, og umr. um hana hafa m.a. farið fram í fjh: og viðskn. Ég vil strax segja það, að ég er algerlega samþykkur ýmsum þeim atriðum, sem komið hafa fram í þessari gagnrýni og þessum umr. Ég skal aðeins nefna þrjú af þessum atriðum.

Það er bent á, að tvö vöruflutningaskip til að annast vöruflutninga á ströndina frá Hornafirði til Patreksfjarðar sé of litið. Þetta verður strax ljóst, ef við gerum okkur grein fyrir því, að a.m.k. á annatímum hafa þessi skip fullt að gera, þótt þau séu bæði í gangi. Nú er það alkunnugt, að í strandsiglingum og raunar í öðrum siglingum, en alveg sérstaklega í þeim, verður stundum tjón á skipum, þannig að þau detta út úr áætlun tíma og tíma. Það er kunnara og auðvitað enn fastara lögmál, að þessi skip þarf öðru hverju að taka í slipp, stundum til skamms tíma, en stundum til lengri tíma til stærri viðgerða. Og úr því að nú er fullt að gera fyrir skipin, þegar þau eru bæði á ferðinni, má svo sem nærri geta, hvernig ástandið verður, þegar annað skipið er af einhverjum ástæðuan úr leik. Þá verður hreint öngþveitisástand í strandsiglingunum. Og eins og ég sagði, það þarf ekki til neitt svona. Ég skal nefna aðeins dæmi því til sönnunar, hvernig ferðir svona öðru hverju, þótt þessi tvö skip séu í gangi, eru í raun og veru allt of strjálar. Ég skal bara nefna eitt einstakt dæmi frá síðustu áramótum. Þá er það svo, að síðasta ferð austur um land fyrir jól er 6. des. úr Reykjavík og fyrsta ferð austur um land eftir áramót er 5. jan. og þá raunar aðeins farið austur til Seyðisfjarðar, svo að Norðausturlandið fær enga þjónustu úr þeirri ferð. Það má að vísu geta þess, að Hekla fer vestur 11. des., þ.e. 5 dögum síðar en bitt skipið fór austur. En hún flytur lítið austur á firði, þegar hún er búin að koma við í öllum Vestfjarðahöfnum, svo að í raun eru það hvorki meira né minna en 30 dagar, sem þarna eru á milli vöruflutningaferða héðan úr Reykjavík á allt Austurlandið. Á þessum tíma eru engir aðrir möguleikar í raun og veru nefna mjög stopular flugferðir. Þetta er auðvitað algerlega óviðunandi, og maður skilur ekki, að þetta skuli þurfa að eiga sér stað, þegar ekki hafa orðið sérstök forföll hjá skipunum, en þetta er svona samkvæmt hinni föstu áætlun.

Þá hefur einnig verið bent á það, og það er annað atriðið, sem ég vildi minnast á í þessu sambandi, að það sé nauðsynlegt að finna heppilegri skipan á ferðirnar en nú á sér stað. Hringferðafyrirkomulagið hefur verið mjög gagnrýnt. Að vísu hefur forstjóri Skipaútgerðar ríkisins bent á ýmsa tiltekna kosti þessara ferða, og ég skal ekkert dæma um það út af fyrir sig með þessar hringferðir. En svo mikið er víst, að það er nánast ómögulegt að trúa því, að ferðirnar þurfi að vera skipulagðar á þann hátt, að á mesta annatíma, sem ég tel vera um háveturinn, þurfi að líða 30 dagar á milli ferða sbr. þetta dæmi, sem ég nefndi áðan um beinar ferðir úr Reykjavík austur á firði. Það er ekki hægt að trúa því. Þarna hlýtur að vera hægt að finna einhverja heppilegri skipan á, og það verður að gera það.

Ég ætti svo að lokum að nefna eitt atriði enn úr þessari gagnrýni, og það er varðandi afgreiðsluna hér syðra og þann langa afgreiðslufrest, sem við þarf að búa hér syðra. Það er auðvitað alveg óviðunandi, að verslanir úti á landsbyggðinni skuli þurfa að gera pantanir sínar mörgum dögum, kannske viku, 10 dögum eða meira, áður en skipin fara úr Reykjavík. Það segir mér greinargott fólk, sem vinnur við verslunarstörf austur á fjörðum, að það sé alsiða, að þegar skip eru á leiðinni austur með vörur til verslunarinnar og ekki komið í höfn einu sinni, þá þurfi að skila pöntun fyrir næstu ferð, þá þegar. Það má vera, að hér sé um að kenna margumtalaðri og marggagnrýndri aðstöðu, sem Skipaútgerðin býr við hér í Reykjavík. Það er búið að hamra á þessu, mér liggur við að segja í áratugi, t.d. hér á Alþ. En það hefur allt of hægt gengið að bæta úr þessu, þó að eitthvað sé verið að vinna að því ná í seinni tíð, að ég hygg. En jafnvel þótt ekki komi nú upp alveg á næstunni stórbætt aðstaða hér í Reykjavík, þá held ég, að menn hljóti með einhverjum ráðum að geta fundið út úr þessu, þannig að þetta verði liðlegra til nota fyrir menn.

Mér fannst rétt að víkja að þessari gagnrýni hér, því að hún hefur komið fram bæði í fjh: og viðskn. og víðar. — Ég get í sjálfu sér algerlega tekið undir þessa gagnrýni í meginatriðum. Vöruflutningar og kostnaður við þá út á land eru til skoðunar í sérstakri n., sem ég á sæti í. Eins og þetta var lagt fyrir n., var málið mjög viðamikið. Það er verið að vinna að könnun og rannsóknum í sambandi við þetta. En ég vil segja það sem mína skoðun, úr því að ég fór að minnast á þessi atriði, að einfaldasta og fljótvirkasta aðferðin til þess að ráða nokkra bót á vöruflutningum út á land, held ég, að verði að efla strandsiglingarnar og það beri að gera.

En ég vil taka það skýrt fram, að þrátt fyrir það, þótt ég sé sammála þessari gagnrýni og sjái þörf á að bæta þarna úr, vil ég ekki bregða fæti fyrir þá endurnýjun, annars veger á Akranesskipinu, sem hér um ræðir né heldur mæla gegn því, að Vestmanneyingar fái einnig sitt ferjuskip, fái einnig möguleika til þess að afla sér sérstaks skips, ef þeir uppfylla skilyrði þau, sem Alþ. og ríkisstj. kunna að setja að öllum málavöxtum athuguðum. Ég vil ekki standa að því að stöðva þessi mál, og þess vegna er það,að ég mæli með þessu frv. og þeirri breytingu, sem ég hef lýst.

Ég gerði grein fyrir því áðan, að undirritaðir nm. mæla allir með samþykkt ábyrgðarheimildar vegna fiskiskipanna. Um annað eru hins vegar nokkuð deildar meiningar, eins og ég gerði grein fyrir og aðrir nm. munu áreiðanlega skýra nánar hér á eftir.