07.02.1974
Neðri deild: 59. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (1847)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er að mörgu leyti erfitt að flytja ræðu eftir að hafa hlustað á þriggja kortera ræðu hæstv. fjmrh. Rúmlega helmingur ræðunnar var fluttur í landsföðurstíl yfir þm. og þeim sagt að vera skynsamari í afstöðu til ýmissa mála en þeir oftast hafa verið, en seinni hluta ræðunnar var ferlegur reiðilestur yfir flokksbróður hans, hv. 3. þm. Norðurl. v. Það er ekki mitt að kveða upp dóm um ástandið á milli þessara ágætu fjármálamanna og greindu manna í Framsfl., en ég hygg, að það hefði verið skemmtilegra fyrir þá að gera upp þessa reikninga í einrúmi, en ekki hér á hv. Alþingi. Þegar allt kemur til alls, hygg ég, að báðir hefðu kosið, að margt hefði verið ósagt af því, sem nú hefur verið sagt.

Hv. 5. þm. Austf., form. fjh.- og viðskn., mælti fyrir nál. í þessu máli. Undir þetta nál. rita 6. nm., einn var fjarstaddur erlendis, þegar málið var afgreitt. Þetta nál. er að mörgu leyti mjög sérkennilegt og sérstætt í þingsögunni. Það lýsa allir nm. yfir stuðningi og samþykki við frv., eins og það var upprunalega flutt í Ed. Meiri hl. n. lýsir sig andvígan þeim vinnubrögðum, sem tekin voru upp í Ed. í sambandi við þetta mál, og framhaldi þeirra vinnubragða í fjhn. Nd. Og 4 nm. skrifa undir nál. með fyrirvara, 4 af 6. Og þeir 2, sem skrifa undir nál. fyrirvaralaust, eru báðir hundóánægðir með málsmeðferðina. En það verð ég að segja hv. form. fjh.- og viðskn. til lofs, vitandi það, hvaða afstöðu hann hefur í þessum málum og í sambandi við alla málsmeðferð, að honum tókst alveg sérstaklega vel í sinni ræðu að fara bæði í kringum sjálfan sig og aðra, alveg sérstaklega vel, og það út af fyrir sig er lofsvert undir þeim miklu Erfiðleikum, sem hann átti í að mæla fyrir vinnubrögðunum í sambandi við þetta mál. Tveir nm. lýsa yfir andstöðu við þá breytingu, sem gerð var á frv. í Ed., en styðja frv. eins og það var upprunalega flutt.

Hæstv. fjmrh. byrjaði sína landsföðurlegu ræðu hér áðan á að skýra frá því, hvað mikið hefði verið keypt af fiskiskipum að undanförnu og nauðsyn þess að kaupa bæði skip og annað, því að verðbólgan héldi áfram, og eftir því sem við gætum keypt meira og byggt hraðar upp, væri það ódýrara. Rétt er það, að einstaklingur, sem hefði viljað byggja hús fyrir 10 árum eða jafnvel 5 árum, hefði auðvitað átt að fá lán til þess að byggja húsið, því að það er orðið margfalt dýrara að byggja það nú. Slíkar skoðanir geta menn haft í fjármálum, að þegar verðbólga er, þá sé nauðsynlegt að kaupa allt og gera allt, komast yfir allt, sem nöfnum tjáir að nefna, vegna þess að það hækkar í verði á næstu árum. En ef hver einstaklingna í þjóðfélaginu hagar sér þannig, hvað verður þá um það þjóðfélag, þegar til lengdar lætur? Verður ekki hver og einn að haga fjárfestingu sinni eftir því, sem hann telur, að tekjur hans fái staðið undir að greiða niður og greiða vexti af hverju sinni. Mér finnst þessi stefna hæstv. fjmrh. vera hættuleg. Ef almenningur tæki mark á því og vildi þræða þennan sama veg og hann er að láta í veðri vaka, að hann vilji fara, er ég hræddur um, að það verði erfitt að stjórna þessu landi, ef á að líta á þetta sem einhverja sérstaka fjármálaspeki. Þá vil ég heldur biðja um fjármálaspeki flokksbróður hans, 3. þm. Norðurl, v., en þessa.

Um frv., eins og það var upprumalega lagt fram í Ed., var samkomulag á milli stjórnarflokka og stjórnarandstöðu. Hæstv. fjmrh. ræddi við form. stjórnarandstöðuflokkanna, og þeir ræddu við þingflokkana þessi mál og minn þingflokkur samþykkti að styðja þetta frv. Ég var að vísu ekki á þeim fundi, þegar það var samþykkt, því að ég þurfti að skreppa aðeins frá í 3–4 daga, en skoðun mín er sú, að ríkisstj. og Alþingi eigi að fara varlega í að veita sjálfskuldarábyrgðir á lánum, jafnvel þótt það sé til kaupa á fiskiskipum. Þetta mál er ekki ágreiningsatriði, vegna þess að búið var að samþ. það fyrir fram. Það var búið að binda hvern flokk fyrir sig til þess að styðja þetta nál, enda væri þetta frv. fyrir löngu orðið að lögum, ef hæstv. fjmrh. hefði ekki fundið upp á því snjallræði að fara að prjóna við þetta frv., en hann hefur verið stöðugt að prjóna við það síðan í nóv.

Hitt vil ég segja, að það eru takmörk fyrir því, hvernig á að veita ábyrgðir ríkissjóðs, með hvaða hætti, og líka þarf að hafa í huga, að það er verið að mismuna mönnum eftir stærð skipa, eins og hér er verið að gera. Skip, sem keypt eru til landsins og eru undir þessu marki, fá ekki 80% ríkisábyrgð. Þau fá aðeins 67% lán ár Fiskveiðasjóði, verða fyrst að taka erlend lán, sem hann innleysir svo á tilteknum árafjölda. En hér er aftur verið að ganga lengra eða upp í 80%, eins og frv. gerir ráð fyrir. Þetta álít ég, að sé að mismuna mönnum, og það er hættulegt að gera. Það er líka annar mismunur, sem á sér stað, þegar við förum að ræða prjónverk fjmrh. við frv. Þar er mismunurinn kannske enn þá geigvænlegri og hættulegri og í hróplegri mótsögn við fyrirheit ríkisstj. í margumræddum málefnasamningi hennar, þegar hún talar um að efla og styrkja byggðir landsins, minnka aðstöðumuninn, sem hún taldi vera og er mikill. Hér er ekki verið að starfa í þeim anda eftir þessu prjónverki fjmrh. við þetta frv. En áður en ég kem að því, vil ég ræða nokkuð efnismeðferð þessa máls.

Hvort sem ég er með þeim málum, sem búið er að bæta við þetta frv. eða móti, þá er ég andvígur þessum vinnubrögðum á Alþ. Hér er flutt frv. um heimild fyrir ríkisstj. að veita sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á 10 fiskiskipum yfir 300 lestir. Það er því óskylt mál að veita ábyrgð til kaupa á sérstakri bílaferju, sem á að ganga á milli Reykjavíkur og Akraness, og sérstakri bílaferju, flutninga- og farþegaskipi, sem á að ganga milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar og Reykjavíkur. Þetta eru óskyld mál. Þm. Sunnl., allir með tölu, fluttu till. til þál. hér í vetur um byggingu skips til Vestmannaeyjaferða, þess efnis, að Alþingi ályktaði að skora á ríkisstj. að ákveða nú þegar að láta byggja nýtt skip til Vestmannaeyjaferða og leita tilboða í smíði þess á grundvelli till. stjórnskipaðrar nefndar um samgöngumál Vestmanneyinga, sem fram kemur í álitsgerð n. til samgrn. Þetta er ósköp eðlileg till. og eðlileg og rétt málsmeðferð. Flm. þessarar till. mæltu fyrir henni, og henni var vísað til fjvn. Fjvn, tók hana fyrir á fundi, litlu eftir að henni var vísað til n., og leitaði umsagnar um till. En þetta var það nærri jólafríi, að það var auðvitað ekki við því að búast, að umsagnir lægju fyrir, fyrr en þing kæmi saman eftir nýár. Nú liggja umsagnir fyrir um þessa till., og nú er auðvitað ekkert annað um að ræða en að fjvn. gangi frá og afgreiði þessa till. til Alþingis.

En flm. þessarar till. grípa auðvitað fegins hendi prjónverk fjmrh. og segja, að hann geti nú prjónað eina till. til viðbótar við sjálfskuldarábyrgð til kaupa á 10 fiskiskipum. Þegar hann prjónar þetta við og læðir því inn á fund fjhn: og viðskn. Ed., sem skrifar undir prjónverkið, allir með tölu, og Ed, samþykkir málið þannig breytt og það kemur hingað til Nd., þá gerist það, að frv. er tekið fyrir hér í d. og það fylgir því enginn maður úr hlaði. Fjmrh. fylgir því ekki úr hlaði, og hann hafði þá afsökun, að hann hefði verið upptekinn við umr. í Ed. við að mæla fyrir öðrum málum. Ég tel þá afsökun mjög léttvæga, því að það hefur gilt þau ár, sem ég hef verið á þingi, að ráðh. hafa beðið forseta að bíða með mál, þegar þannig hefur staðið á hjá þeim. Það var því auðvelt verk og hefði verið auðsótt við hæstv. forseta Nd. að biða andartak með málið, á meðan hæstv. fjmrh. var upptekinn við umr. í Ed. En það, sem skeður, er það, að 3. þm. Norðurl. v. er ekki alveg dús við þetta mál eða þessa breytingu, og hann biður um orðið, annars hefði frv. með prjónverkinu verið sent þegjandi og hljóðalaust til n. Þá spinnast allmiklar umr. hér í hv. þd. út af þessari málsmeðferð sem eðlilegt er. Ég var einn þeirra, sem voru ekki ánægðir með slík vinnubrögð, og talaði um þau hér í d. og gerði aths. um efnishlið málsins.

Svo segir hv. formaður fjh: og viðskn., að hann telji, að það hafi oft átt sér stað að skeyta óskyldum málum aftan við lagafrv., bæði í tíð þessarar stjórnar og fyrri stjórna. Ég spyr hann að því, hvort hann sé ánægður með það, að menn flytji mál í þingi, því sé vísað til n., eins og till. þm. Sunnl., og svo þegar þeir sjá, að það er hægt að prjóna mál sín við frv., sem eru komin nokkuð á leið, þá gripa þeir fegins hendi slíka beitu. Ég spyr hann: Er hann ánægður með svona vinnubrögð á Alþingi. Er þetta ekki dæmigerð aðferð til þess að taka alls ekki tillit til þess, að það eigi réttur gangur að vera á störfum Alþingis? Er ekki líka eitt dæmi þess, að þegar menn geta ekki beðið með fsp. sínar til fyrirspurnatíma, þá nota þeir fljótvirku aðferðina að biðja um orðið utan dagskrár. Það eru þessi vinnubrögð, sem eru alltaf að verða meira og meira áberandi vegna þess, hvernig háttur þingsins er í sambandi við afgreiðslu mála, og þegar menn segja að þetta sé allt gott og gilt, þá tökum við almennt upp þau vinnubrögð að fara ekki eftir venjulegum þingvenjum. Við förum þá bara þá leið, sem er handhægust í hverju máli. Fyrirmyndin er sótt til ríkisstj. hvað þennan ósið varðar eins og svo margan annan.

Þessar athugasemdir mínar hafa engin áhrif á efnislega afstöðu mína til þessara brtt., sem liggja fyrir við þetta frv. Þetta er aðeins skoðun mín á vinnubrögðum Alþingis, og þessum vinnubrögðum leyfi ég mér að mótmæla einu sinni enn. Og ég harma það, að form. fjh.- og viðskn. skyldi reyna að verja þessi leiðindavinnubrögð í þessu máli í ræðu sinni, þar sem hann fór, eins og ég sagði áðan, margoft í gegnum sjálfan sig og aðra til þess að koma þessu máli áleiðis.

Það kom mér nokkuð á óvart, þegar hæstv. fjmrh. í sinni föðurlegu ræðu hérna áðan fór að tala um það, hvað kjördæmi hans væri í raun og veru mjög illa sett með framlög til vegamála og ekkert til flugmála og hvað eftir öðru. Þetta var eiginlega olnbogabarn í þjóðfélaginu, Vesturlandskjördæmi, og jafnvel hörðustu menn viknuðu, þegar þeir hlustuðu á þetta barlómstal hv. þm. Vesturl. Mér finnst þetta ekki bera vott um, að þessi hv. þm. hafi sinnt sérstaklega vel málefnum sins kjördæmis og þá aðrir þm. um leið í því kjördæmi, ef ætti að taka mark á orðum hæstv. ráðh. En ég verð þó að segja það, að ég þekkti hæstv. fjmrh. mjög vel fyrir nokkrum árum í fjvn., og þar var hann ólatur potari fyrir sitt kjördæmi, og ég held, að hann hafi enga ástæðu til að bera sig svona aumlega út af fjárveitingum til Vesturl. Ég vil t.d. benda honum á það, að í nál. samvn. samgm., þar sem stórvinur hans og flokksbróðir, hv. 3. þm. Norðurl. v., er formaður, fer Vesturl. ekki illa út úr því. Það fær af fjárveitingum til flóabáta, snjóbíla og vöruflutninga 17 700 090 kr. af 38,5 millj. kr., það fær upp undir helming. Kannske er skýringin á því, að kjördæmið sé alveg vegalaust og þurfi svo mjög á sjósamgöngum að halda. En þá er það eitt, sem ég skil ekki, af því að ég er einn af þessum 59, — ég skil ekki, hvernig svona vegalaust kjördæmi lætur svo til alla sína vöruflutninga fara fram á landi, en notar ekki sjóinn til vöruflutninga. Og nú langar mig til þess að spyrja hæstv. fjmrh., hvernig á þessu standi. Eitt af því, sem sagt er í sambandi við þessa væntanlegu bílaferju, er, að það muni spara mikið slit á vegum að flytja fólksbílana með ferjunni. En þungu vörubílarnir eiga að keyra vegleysuna, en nota ekki ferjuna, og engar vörur eiga að fara með ferjunni. Þetta er það, sem ég skil ekki og langar mikið til að fá upplýsingar um, áður en þessum merkilegu umræðum lýkur.

Í nál. fjh.- og viðskn. Ed. segir:

N. hefur athugað frv. Borist hefur bréf frá fjmrn., þar sem óskað er eftir því, að inn í frv. verði tekin ný gr., sem heimili sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs fyrir allt að 80% af kaupverði ferjuskips til siglinga milli Akraness og Reykjavíkur.“ Þá vitum við, hver á barnið. Það er hæstv. fjmrh., sem á þetta barn, og það er hann, sem biður nm. í fjh- og viðskn. Ed. að hjálpa sér að koma þessu á framfæri. Það eru góðir menn í þeirri n., og þeir voru mjög fljótir að afgreiða málið, að vísu voru 2 þeirra fjarstaddir, og annar sá fjarstaddi var sjálfur hæstv. samgrh. Nú spyr ég hæstv. fjmrh.: Telur hann versta ástandið í samgöngumálum landsmanna og í samgöngum á sjó vera ástandið í ferðunum milli Reykjavíkur og Akraness? Er þetta mál þá númer eitt í hans huga og þá ríkisstj. í heild? Er þetta málið, sem liggur mest á að framkvæma: að kaupa ferju til landsins, sem getur flutt 50 bíla á milli Reykjavíkur og Akraness og 400 farþega eða svo? Er ástandið á öðrum stöðum á landinu svona miklu betra, að þetta mál á að vera númer eitt?

Nú skal ég taka fram til þess að fyrirhyggja allan misskilning, að ég er stuðningsmaður þess, að haldið verði uppi sjóflutningum milli Reykjavíkur og Akraness, og ég tel, að þessir staðir, Akranes og Borgarfjörður, eigi fullan rétt á því að haldið sé uppi samgöngum á sjó. Hitt er svo matsatriði, hvort þetta ferjuskip er það, sem hæfir best í þessum efnum, um hitt get ég ekki verið sammála hæstv, fjmrh. og hæstv. ríkisstj., sem hefur lagt blessun sína yfir þetta mál, að þetta mál eigi að hafa forgang fram yfir önnur.

Við skulum líta á ástandið; sem er í strandferðum til þeirra héraða, sem eru ekki í nokkru akvegasambandi við Reykjavík eða þéttbýlið hér við Faxaflóa meira en helming á árinu. Hvernig er ástandið á Austfjörðum, hvernig er ástandið á Norðausturlandi, og hvernig er ástandið á Vestfjörðum? Hvernig er skipakostur Skipaútgerðar ríkisins? Hvernig eru þær ferðir, sem þessir landshlutar eiga nú við að búa? Það er versnandi ástand, stórversnandi ástand, með strandferðirnar til þessara staða. Til þess liggja margar ástæður. Ástæðurnar eru þær, að það eru tvö skip, sem halda þessum ferðum uppi. Ferðunum er haldið uppi með þeim hætti, að skipin fara hringinn í kringum landið. Það hefur lengi verið talið af mér og öðrum, að það væri óhagstætt frá hendi Skipaútgerðar ríkisins að halda þessum hringferðum uppi, heldur ætti að breyta ferðunum á þann veg að fara ferð til Austfjarða og snúa við á Norðausturlandinu og til Vestfjarða og snúa við á Ísafirði, það muni nýta betur þann flutningamátt sem þessi skip hafa, og ferðirnar yrðu tíðari. En þó að þetta væri gert, er það engan veginn nóg, vörur liggja hér tímum saman, það er ekki hægt að taka á móti vörum til flutnings, vegna þess að skipin eru yfirfull. Ástandið var þannig á Ísafirði um jólin, að það vantaði margar nauðþurftir um langan tíma. Allt upp í 10 daga var kartöflulaust, vegna þess að það voru engar ferðir. 14, 15 upp í 20 dagar líða á milli ferða til þessara staða. Það vantaði fjölda af vörutegundum í verslanir á þessum stað. Og sama er að segja um Austfirði og Norðausturlandið, þar er ástandið ekki hætishót betra. Á sama tíma og þetta á sér stað, eru engir farþegaflutningar á sjó til þessara staða. Það er haldið uppi flugsamgöngum, og það er kostnaður við flugsamgöngur, sagði hæstv. fjmrh. En veðrið hamlar oft flugferðum. Það hefur nýlega átt sér stað, að ekki voru flugferðir til staðar eins og Ísafjarðar í sex daga og engar ferðir þar með, ekki nokkrar samgöngur á sjó, fólk kemst ekki leiðar sinnar tímum saman. Og svo er komið og sagt við fjh: og viðskn. Ed.: Gjörið þið svo vel og veitið heimild til ábyrgðar fyrir ferju, sem getur flutt 50 bíla á milli Reykjavíkur og Akraness og 400 farþega. Og fjh: og viðskn. Ed. sagði já á stundinni. Ég segi fyrir mitt leyti, að á sama tíma og þetta ástand er ríkjandi á þeim stöðum á landinu, sem hafa engar samgöngur, þá tel ég ekki réttlætismál að afgreiða þetta mál með þessum hætti. Það verður að fylgja, ef hugur fylgir máli hjá hv. ríkisstj., að bæta úr því ófremdarástandi, sem er ríkjandi í þessum efnum. Hvað ætli yrði sagt á Akranesi, ef það væri engin ferð, væri ekki hægt að komast leiðar sinnar, hvorki á sjó, landi né í lofti í sex daga? Ég er hræddur um, að það þætti tíðindum sæta þar í sveit, sem eðlilegt er. Svo segja þessir menn: Við erum vegalausir. Guð almáttugur hjálpi þessum mönnum, hvernig þeir leyfa sér að tala.

Það eru ekki margir dagar síðan maður varð að fara í stórorustu við kerfið til að fá mokaðan veg á milli Tálknafjarðar og Bíldudals, þegar lokað hafði verið þar í heila viku, og á áttunda degi fékkst ekki vegurinn mokaður, og það var ekki hægt að koma neinum nauðþurftum á milli staða. Þetta þykir allt gott og blessað. Það er svo dýrt að moka snjó, segja þeir, það má ekki, en fólk má vera einangrað og læknislaust og allslaust dögum saman. Þetta þykir góð latína á heimili hæstv. ríkisstjórnar.

Það var ekki skemmtileg lýsing, sem hv. 7. landsk. gaf við þessar umr. hér í gær á ástandinu í samgöngumálum Vestfjarða, og hann er einn af stuðningsmönnum ríkisstj., en ofbýður nú alveg, að þetta mál sé tekið fram yfir öll önnur, og finnst mér það ánægjulegt, en allt sem hann sagði í þessum efnum, er satt og rétt, því verður ekki neitað. Og mér finnst í sannleika sagt, að þó að menn vilji vera tryggir og trúir hæstv. ríkisstj., vera takmörk fyrir því, hvað þeir, sem koma úr byggðarlögum, þar sem slíkt ástand er ríkjandi, mega vera hlýðnir við ríkisstj. sína og bíða og bíða eftir úrbótum. Jafnvel það verður að hafa sin takmörk.

Þetta er fyrst og fremst það, hæstv. fjmrh., sem ég hef út á þessi mál að setja. Það liggur ekkert fyrir frá hendi ríkisstj. til úrbóta í strandferðum um landið, en þetta er tekið fram fyrir allt. Ég spyr hæstv. ríkisstj.: Ætlar hún virkilega að halda áfram á þessari braut, ætlar hún virkilega að bjóða fólki, sem býr úti um land, það ástand, sem er ríkjandi? Þeim hefur alltaf verið að fækka, ferðum strandferðaskipanna, á liðnum árum, þær eru komnar niður fyrir 50 viðkomur á ári, ca. 25 ferðir frá Reykjavík til þessara staða. Á sama tíma eru 3 ferðir á dag á milli Reykjavíkur og Akraness og vegurinn alltaf fær, meira að segja þessi stórhættulegi Hvalfjörður, það eru kannske tveir—þrír dagar á ári. Vestmannaeyjar hafa miklu betri samgöngur en þetta, og Vestmanneyingar nefna nú og þm. Sunnl. sem rök fyrir sínu máli, að Vestmannaeyjar séu eyja, sem hafi þar af leiðandi engar samgöngur á landi og verði að treysta á stopult flug, eins og aðrir. Þetta er auðvitað alveg hárrétt, Vestmanneyingar hafa sérstöðu, og þeir þurfa á betra skipi að halda. En Vestmanneyingar hafa miklu tíðari og betri ferðir með Herjólfi heldur en Vestfirðingar og Austfirðingar hafa. Í sjálfu sér er enginn vegur frá Vestfjörðum til Suðurlands og frá meginhluta Austfjarða og Norðausturlands meira en hálft árið, vegna þess að hann er lokaður. Þess vegna er ástandið eins og það er. Þess vegna leyfir maður sér að vera mjög argur út af þessum málum, og ég tel, að við höfum fulla heimild til þess.

Eins og ég sagði áðan, þá er ég hlynntur því, að Akranes og Borgfirðingar hafi samgöngur á sjó. En það er eins með þetta og öll önnur mál, að það verður að skoða málin gaumgæfilega og meta það hverju sinni, hvar þarfirnar eru brýnastar, hvar er mest nauðsyn á að byrja og hvernig eigi að raða niður. Ef við höfum ráð á því og getum farið að bæta úr þessum málum öllum þegar í stað, þá er sjálfsagt að gera það, en ef það á að kosta það, að ekkert skuli gert í sambandi við þau héruð, sem svo hörmulega eru sett og ég hef lítillega minnst á, þá segi ég hiklaust: Það á að taka þau mál á undan. Ég skal alveg hiklaust játa, að þó að það snerti mig eða það kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir, ef eitthvað er búið að gera þar umfram það, sem aðrir hafa, þá held ég, að við verðum að bíða, á meðan verið er að bæta öðrum upp. Sama held ég, að eigi að ríkja hér í þessum efnum. Það liggur ekkert fyrir í sambandi við úrbætur strandferðanna, og það verður ekki þolað. Það er alveg sama, hvaða menn eða flokkar eru í ríkisstj., það er ekki hægt að bjóða fólki úti um land þær samgöngur, sem það nú verður við að búa. Og það þýðir ekki fyrir þá, sem eru senn að fá allt teppalagt til sín, að segja, að þeir séu einhver olnbogabörn. Það þýðir ekki, jafnvel þó að það sé jafnsannleikselskandi maður og hæstv. fjmrh., að segja það, hvorki við mig né aðra.

Ég hefði talið, að það hefði verið miklu skemmtilegra og eðlilegra í alla staði, að draga þetta prjónverk út úr upprunalega frv. og ríkisstj. hefði flutt frv. um kaup og ábyrgð fyrir þessum skipum og byggingu nýs strandferðaskips fyrir landsbyggðina, og það hefði átt að geta farið í gegnum þingið umræðulítið á örfáum dögum og hefðu verið miklu eðlilegri og skemmtilegri vinnubrögð. Ég lýsti því yfir í n., að ég teldi, að Vestmanneyingar hefðu algera sérstöðu og ég væri mjög hlynntur því að verða við þeirra óskum. En það verður að verra með þá eins og alla aðra, að þetta litla þjóðfélag verður að sníða sér stakk eftir vexti og það verður að fara alltaf eftir því, hvað er hagkvæmt, en ekki óhóflegt. Mín skoðun er sú, að ég tel, að það skip, sem hefur verið fest kaup á til ferða milli Reykjavíkur og Akraness, það sé of glannaleg fjárfesting og við þurfum ekki að leggja svo upp úr því að flytja í hverri ferð upp undir 50 bíla eða hafa rúm fyrir 50 bíla á þessari leið, sem hægt er að aka á hálfum öðrum klukkutíma og fer sífellt batnandi með hverju árinu sem líður. Og þó að það sé ekki farið að steypa eða malbika þjóðvegi í Vesturlandskjördæmi, hafa Vestlendingrar, Vestfirðingar, Norðlendingar og Austfirðingar tækifæri til að keyra hér þann ágæta veg, og við njótum hans allir, þó að hann sé ekki kominn enn þá út úr Reykjaneskjördæmi. Þessi vegur er ekki eingöngu fyrir þá, sem í Reykjaneskjördæmi búa, hann er fyrir okkur ulla landsmenn, sem þurfum um þennan veg að fara og verðum þennan veg að fara. Og það er mjög ánægjuleg sú þróun, sem átt hefur sér stað. Þessi leið er alltaf, sem betur fer, að verða betri. Hvalfjörður hefur tekið miklum stakkaskiptum á liðnum árum, og ég tel, að það verði í framtíðinni mikið áhorfsmál. hvort menn, sem þurfa að fara þessa leið, fari með bíla sína með ferju eða aki þessa stuttu vegalengd. En þetta er eins og hæstv. fjmrh. sagði, þetta er matsatriði hjá hverjum og einum. Ég endurtek, ég er ekki andstæðingur þess að halda uppi sjóflutningum á milli Reykjavíkur og Akraness, tel eðlilegt, að þessar byggðir njóti sjóflutninga, eins og þær hafa gert. En ég er ekki á sama máli og þeir þm. Vesturl. í sambandi við kaup á þessu skipi. En það er aukaatriði. Hitt er aðalatriðið, hvernig ástandið er annrars staðar og hvað er verið að gera hér mikinn mismun á í sambandi við samgöngur í okkar landi.