07.02.1974
Sameinað þing: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði hér um aðgerðaleysi ríkisstj., að ekki hafi verið haldinn fundur um skattamálið frá því fyrir jól þangað til daginn eftir að verkfall hafði verið boðað, vil ég segja þessum hv. þm. það, að þetta er byggt á ókunnugleika, því að það er búið að halda nokkra fundi, ég hef það nú ekki hjá mér, hvað þeir eru margir. M.a. var búið að afhenda þeim Alþýðusambandsmönnum frv. um breytingar á skattal. fyrir þann fund, sem hann vitnaði til. Fundurinn, sem haldinn var núna á þriðjudaginn, var til þess að heyra svör þeirra við frumvarpstill., sem við höfðum afhent þeim á næsta fundi áður, sem var haldinn í vikunni þar áður, ég man nú ekki nákvæmlega daginn. Það er misskilningur, að það hafi ekki verið haldnir fundir frá áramótum fyrr en á þriðjudaginn. Sá fundur var framhald af fyrri fundum, og þá var ákveðið að setja tvo fulltrúa, eins og forsrh. upplýsti áðan, frá hvorum aðila fyrir sig til þess að vinna betur þær upplýsingar, sem aðilar töldu sig þurfa að veita. — Þetta vildi ég upplýsa hér.