07.02.1974
Sameinað þing: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti: Ég skal ekki tefja fundinn lengur en nauðsynlegt er. Ég vil þakka hæstv. forsrh, fyrir þær undirtektir, sem hann hafði við mál mitt, og sérstaklega taka undir óskir hans, sem við hljótum auðvitað öll að gera, að hægt verði að ræða þetta alvarlega mál eftir helgina á bjartsýnni hátt en ég máske geri núna. En því miður er ég ekki jafnbjartsýnn og hæstv. ráðh. og hef þá kannske í huga það, að ég á sjálfur sæti í einni samninganefndinni, sem samninga þarf að gera á verslunarflotanum fyrir undirmennina. Frá 14. des. s.l., þangað til komið var fram í febrúar, þó nokkrir dagar, var aldrei við þessa aðila talað. Ég held, að það sé mikil bjartsýni að ætla, að það verði einhver sérstök lausn, þótt „laglega er að staðið“, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, og þótt hægt verði að skáskjóta einhverjum samningum aðeins við þá, sem á bátaflotanum starfa, nú á næstunni.

Ég er hræddur um það, að ef ekki verður samið við verkalýðshreyfinguna í heild og þau félög, sem innan Alþýðusambandsins eru, þá verði jafnvel ekki staðið upp af þeim, sem þó hafi kannske náð samningum, ef ekki takast heildarsamningar. Ég held, að það sé þýðingarlaust fyrir hæstv. ríkisstj. að beita brandi sínum að kannske einni grein þeirra, sem nú standa frammi fyrir því að boða verkfall síðari hluta þessa mánaðar, því miður. En við skulum vona og ég tek undir þær óskir hæstv. forsrh., að það megi verða meiri árangur yfir þessa helgi heldur en verið hefur á þann fjórða mánuð, sem samningar hafa verið lausir hjá þessum aðilum.