07.02.1974
Sameinað þing: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2078 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Fyrst vinnudeilurnar og verkfallsmálin ber hér á góma, tel ég rétt að láta I ljós þá skoðun, að ég er einn af þeim, sem harma það mjög, hversu seint viðræður milli vinnuveitenda og verkalýðsfélaga hafa gengið. Er óvenjulegt og sannarlega varhugavert, að þær skuli hafa staðið hátt á fjórða mánuð, án þess að mögulegt sé að sjá fyrir endann á þeim, enda nú svo komið, að boðað hefur verið til verkfalls, sem ætla má, að verði allt að því allsherjarverkfall, eftir tæpan hálfan mánuð, hálfa aðra viku.

Það hefur komið fyrir áður, að launþegum og vinnuveitendum hefur gengið illa að ná saman. En það, sem er sérstaklega athyglisvert við ástandið núna, er, að það er ekki aðeins, að ríkisvaldið hafi brugðist sjálfsagðri skyldu sinni að reyna að miðla málum af góðvild og sanngirni milli deiluaðila, heldur hefur nú í þetta skipti beinlínis staðið á till. og aðgerðum af hálfu ríkisstj., sem þó er vitað, að greiða mundu fyrir samningum eða a.m.k. auka samkomulagsvilja af beggja hálfu. Á þessu ber sérstaka athygli að vekja, og þetta ber sérstaklega að harma.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að launþegasamtökin hafa óskað eftir tilteknum breyt. á skattheimtu, á innheimtu tekjuskatts, og sérstökum breytingum í húsnæðismálum, en hvort tveggja þetta er löggjafaratriði. Þetta hefur ríkisstj. verið kunnugt, allt frá því að samningaviðræður hófust, og samt hefur hún látið meira en þrjá mánuði líða án þess að hafast nokkuð raunhæft að í þessum efnum. Þetta vil ég alveg sérstaklega harma og skora mjög eindregið á ríkisstj. að láta það ekki dragast lengur. Það er ekki nóg að hafa lauslegar viðræður og sýna frv., heldur verður sá aðili, sem eftir breyt. óskar, að fá það á tilfinninguna, að hugur fylgi máli, að það sé raunverulegur vilji til þess af fullri alvöru að greiða fyrir því, að samningar geti tekist og lausn fáist á þessari viðtæku og vandasömu kjaradeilu.

Ég vil mjög eindregið beina því til hæstv. ríkisstj. að sýna af sér meiri röggsemi, meiri stjórnsemi og meiri athafnasemi en átt hefur sér stað fram til þessa. Ég er sannfærður um, að það mundi geta stuðlað að því, að þessi deila leystist, enda verður það hvorki meira né minna en þjóðarógæfa, ef nú kæmi til mjög víðtæks verkfalls á Íslandi, ekki hvað síst eins og nú horfir í íslenskum sjávarútvegi og ekki síst loðnuveiðunum.

Ég endurtek því tilmæli mín til hæstv. ríkisstj. um að láta málin til sín taka í miklu ríkara mæli en hún hefur gert fram að þessu.