07.02.1974
Sameinað þing: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2080 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er nokkuð athyglisvert að mínu áliti, að hv. þm. Geir Hallgrímsson og Gylfi Þ. Gíslason, báðir fyrrv. forustumenn í viðreisnarflokkunum, skuli ganga fram fyrir skjöldu og krefjast þess, að núv. ríkisstj. taki upp sömu vinnubrögð gagnvart launþegasamtökunum og þeir flokkar viðhöfðu, sem stjórnuðu, meðan „viðreisn“ var við völd.

Það er rétt, sem hér var sagt af hæstv. forsrh., að það er eðlilegastur gangur mála, að launþegasamtökin annars vegar og vinnuveitendur hins vegar leysi mál sín án utanaðkomandi aðildar annarra. En ef til þess kemur, að ríkisvaldið þarf að grípa inn í samningagerð, þá verður það að gerast á eðlilegan hátt og á eðlilegum tíma. Það hefur ekki að mínu mati verið ástæða til þess enn sem komið er, að ríkisvaldið grípi inn í samningagerð hjá þessum aðilum í yfirstandandi deilu. — En að lokum þetta: Ég held, að hv. 2. þm. Reykv., núv. form. Sjálfstæðisfl., hefði átt að sleppa því að vera að minna hér á það frv. til breyt. á skattalöggjöfinni, sem þeir sjálfstæðismenn hafa lagt fram á Alþ. Það greiðir ekki götu fyrir samningum við launþegasamtökin, eins og það er úr garði gert. Það er öruggt mál.