07.02.1974
Sameinað þing: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2080 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er nú með hálfum huga, að ég kveð mér hljóðs hér í hinu háa Alþ, eftir ræðu hæstv. forsrh., þar sem mér skilst, að það verði að tala í einhverjum sérstökum tón til þess að mega taka hér til máls um verkalýðsmál. En ég held ég hætti samt á það.

Ég vil segja það út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að einhvern tíma hefði nú verið sú tíð hér á Alþ., að form. þess stjórnmálaflokks, sem hann tilheyrir, hefði ekki setið þegjandi undir umr. um verkalýðsmál og kjör almennings í landinu og hefði talið ástæðu til að spyrja um eitthvað í því efni. Ég held því, að hann ætti að huga að sínum eigin málum, áður en hann fer að hafa áhyggjur af okkur sjálfstæðismönnum í þessum efnum, sem höfum, síðan núv. ríkisstj. tók við völdum, verið eini stjórnmálaflokkurinn í landinu, sem hefur staðið með hinum vinnandi stéttum að nokkru marki.

Ég kvaddi mér nú hljóðs til þess að fagna þeim skilningi, sem kom fram hjá hæstv. forsrh. um, að það eigi ekki að gera breyt. á tekjuskattinum nema í samráði við vinnustéttirnar og atvinnurekendur, sem ekki var gert með síðustu skattalagabreytingu, og af því sýpur þjóðin seyðið nú með þeim drápsklyfjum, sem hið opinhera leggur á allt almennt launafólk í landinu. Það er í fyrsta skipti nú fyrir þessa kjarasamninga, sem allir launamenn eru sammála um, að grundvöllurinn að því, að það náist samkomulag, sem sé aðgengilegt, sé, að ríkisstj. slaki á í sambandi við tekjuskattinn, og er áreiðanlega rétt sú gagnrýni, sem hér hefur komið fram, að í þessu efni hefur hæstv. fjmrh. ekki staðið sig nógu vel. Hann hefur ekki gert það. Ég sé, að hann hlær. Hann er nú skapgóður maður og tekur því með léttlyndi, þegar rætt er hér um skattana, enda hefur hann breitt bak til að bera þá, en ég hygg, að lykilorðið núna sé lækkaðir skattar. Það er lykilorðið.

Við sjáum, hvernig verðbólgan hefur farið með okkur. Það munar kannske ekki svo miklu, hvort launin hækka um 2 eða 3% meira eða minna einhver mánaðamótin. Aðalatriðið er að minnka drápsklyfjarnar, gefa fólkinu næði fyrir skattheimtuseðlunum og öllum pinklunum, sem verið er að leggja á almenna borgara í landinu. Þetta er aðalatriðið.

Svo vil ég að síðustu aðeins varpa þeirri fsp. til hæstv. fjmrh.: Er það stefna hans í sambandi við kjaramál opinberra starfsmanna, sem nú er að falla dómur um, — er það stefna ríkisstj., að það séu sömu laun fyrir sömu vinnu? Mun hæstv. fjmrh. beita sér fyrir því innan ríkiskerfisins, að menn fái sömu laun fyrir sömu vinnu? Svo hefur ekki verið, og það er tímabært, að þessi spurning komi fram.