11.02.1974
Efri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

201. mál, kosningar til Alþingis

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Eins og ég gat um í frumræðu minni, er þetta frv. einskorðað við þau atriði, sem um var fjallað í þáltill. Þar með er auðvitað ekki sagt, að það séu ekki ýmis fleiri atriði í kosningalögum, sem kunna að þurfa skoðunar við og breytinga. En það var talið rétt að fullnægja aðeins þeirri viljayfirlýsingu, sem fram kom af hálfu Alþingis í fyrra um að athuga þessi atriði sérstaklega, og við það er frv. miðað.

Ég get ekki sagt, að það fari sem stendur fram nein frekari endurskoðun á kosningalögunum á vegum dómsmrn. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er samið af dómsmrn. og á þess ábyrgð, þó að vitaskuld hafi verið höfð hliðsjón af því, eftir því sem við átti, sem fram hafði komið við þá athugun, sem fram hafði farið á kosningalögunum og hér var gerð grein fyrir. Hefur að sjálfsögðu verið haft óformlegt samband við þá aðila, sem stóðu að þeirri endurskoðun, a.m.k. suma hverja og þ. á m. utanrrn., sem þetta mál snertir mjög.

Það er rétt, að ekki hefur verið horfið að því ráði í þessu frv. að fara inn á það að leyfa atkvgr. þannig, að hlutaðeigendur fengju póstsend kjörgögn og gætu svo kosið — að vísu hjá ræðismanni — og sent þau aftur í pósti. Það má sjálfsagt athuga það, og er sjálfsagt, að sú n., sem fær þetta frv. til meðferðar, athugi það og þá ekki hvað síst í samráði við utanrrn. og dómsmrn. Ég fyrir mitt leyti er hálfsmeykur við að hafa þann hátt á. Ég held, að sæmilega sé komið á móts við þá þörf, sem er fyrir hendi, með þeirri skipan, sem hér er fyrirhuguð. Ég held, að það sé erfitt að koma í veg fyrir, að í sambandi við slíka frjálslega meðferð geti stungið upp kollinum tortryggni og grunsemdir, sem betra væri að geta komist hjá.

Um það, hjá hve mörgum ræðismönnum yrði leyfilegt að kjósa, er það að segja, að ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um það enn. Þar mun koma til greina ákvörðun utanrrn., sem mundi þá sjálfsagt miða ákvörðun sína bæði við það, hvernig kjörræðismenn væru settir gagnvart sendiráðum og öðrum þeim stofnunum, þar sem hægt er að kjósa, hvort það væri álitin þörf á því, e.t.v. líka við það, hvort væri álitin þörf á því í því landi, þar sem þeir eru, vegna þess að það væri gert ráð fyrir, að þar væri margt Íslendinga, og fleiri atriði geta komið þarna til athugunar. Það yrði sem sagt nánar athugað um framkvæmdina. Auðvitað gæti n., sem fær málið til meðferðar, kynnt sér sjónarmið utanrrn. í þessu efni og hvernig undirbúningi undir kosninguna yrði hagað hjá kjörræðismönnum. Um það kom nokkuð fram í því, sem ég sagði áðan, sem sagt, að þeir fengju gögn í hendur og nauðsynlegar þýðingar, þannig, að þeir skildu það, sem þarna væri um að ræða.

Athugasemd hv. þm. Odds Ólafssonar viðvíkjandi því, að þarna hefðu fallið niður stofnanir eins og öryrkjaheimili, sem væri vafasamt, að gætu komist undir upptalninguna þarna, þegar talað var um elliheimili, er auðvitað sjálfsagt að taka til skoðunar, og mun n. auðvitað gera það.

Spurningu um þjóðskrána og hvernig því væri háttað hefur hæstv, menntmrh. svarað, og þarf ég ekki að endurtaka það. Ég er ekki heldur vel kunnugur því, hvernig samkomulagsreglur eru um það á milli Norðurlandanna. Mér finnst þó liggja í augum uppi, að þar hljóti að gilda það grundvallarsjónarmið, að efnisreglurnar eigi að ganga á undan og menn eigi að halda kosningarrétti samkvæmt íslenskum lögum, hvað sem allri skráningu líður og þrátt fyrir þessar samkomulagsreglur um skráningu á Norðurlöndunum. Þetta er, eins og við vitum, eitt af þeim málum, sem rætt er nú um og verður rætt um á fundi Norðurlandaráðs. Það er einmitt þessi sameiginlegi eða gagnkvæmi kosningarréttur í sveitarstjórnarkosningum, sem mjög er fjallað um núna, og virðist a.m.k. benda til þess, að það sé mikill fjöldi manna, sem stunda atvinnu í einhverju Norðurlandanna, en er þó ekki skráður þar, þannig að hann komist að kjörskrá. Ég skal ekki hafa fleiri orð um það.

Ég tel sjálfsagt, að n. geti fengið þau gögn, sem kunna að liggja í dómsmrn. varðandi þessi mál, og sjálfsagt að veita henni þær upplýsingar.