12.02.1974
Sameinað þing: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2118 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

405. mál, nýskipan iðnfræðslu og tæknimenntunar

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Svar mitt við fsp. hv. 4. þm. Reykv. er í tveim köflum, og fjallar hinn fyrri um iðnfræðsluna.

Með bréfi, dags. 16. febr. 1973, skipaði menntmrn. n. til þess að endurskoða lög nr. 68 1966, um iðnfræðslu, og lög nr. 18 1971, um breyt. á þeim 1., og var ætlast til, að n. skilaði frv. til nýrra laga um iðnfræðslu. Í störfum sínum skyldi n. taka mið af meginstefnu álitsgerðar verk- og tæknimenntunarnefndar um nýskipan verk- og tæknimenntunar á Íslandi, en það álit er frá því í júlí 1971. Enn fremur var n. falið að semja framkvæmdaáætlun, er fæli í sér mat á helstu kostnaðaráhrifum, er leiða mundi af framkvæmd frv., ef að 1. yrði. Var tekið fram í bréfinu, að æskilegt væri, að n. hraðaði störfum eftir föngum og skilaði frv. fyrir árslok 1973. Formaður n. var skipaður Guðmundur Einarsson verkfræðingur, en aðrir nm. Haukur Eggertsson framkvstj., skipaður samkv. tilnefningu Félags ísl. iðnrekenda, Ólafur Pálsson húsasmiðameistari, skipaður samkv. tilnefningu Landssambands iðnaðarmanna, Óskar Hallgrímsson bankastjóri, formaður iðnfræðsluráðs, skipaður án tilnefningar, Rúnar Backmann iðnnemi skipaður samkv. tilnefningu Iðnnemasambands Íslands, Snorri Jónsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, og Þór Sandholt skólastjóri, skipaður samkv. tilnefningu Sambands iðnskóla á Íslandi. Óskar Guðmundsson framkvstj. iðnfræðsluráðs hefur unnið fyrir n.

Í áliti verk- og tæknimenntunarnefndar var miðað við, að allt verk- og tækninám færi fram í samfelldu skólakerfi, iðnnám yrði endurskipulagt og flutt í áföngum að öllu leyti inn í iðnskólana, þ.e.a.s. horfið frá þeirri stefnu, að verklegir hlutar iðnnámsins færu fram á vegum meistara, en fyrstu skrefin í þessa átt voru stigin með gildandi iðnfræðslulöggjöf. Gert var ráð fyrir í till. verk- og tæknimenntunarnefndar, að iðnskólar yrðu reknir einungis af ríkinu, en nú eru slíkir skólar, sem kunnugt er, reknir sameiginlega af ríki og sveitarfélögum.

Þessar till. eru úr áliti verk- og tæknimenntunarnefndar, en n., sem vinnur að endurskoðun iðnfræðslulaga, er að sjálfsögðu ekki bundin við það álit, þótt henni væri ætlað að hafa það til viðmiðunar. Það er því ekki vitað á þessu stigi, hvaða stefnu n. kann að marka endanlega í þessum málum. Verkefni hennar hefur að sjálfsögðu reynst tímafrekt og umfangsmikið. Aflað hefur verið margvíslegra gagna, sem gætu orðið n, til stuðnings í starfi, og formaður n. og fleiri nm. og starfsmaður n. hafa farið utan til þess að kynna sér nýjustu viðhorf í verkmenntunarmálum í Danmörku, Vestur- og Austur-Þýskalandi, og þess má geta sérstaklega, að Max Planck-stofnunin í Vestur-Berlín hefur látið n. í té fyrir atbeina prófessors Wolfgangs Edelsteins miklar upplýsingar, ekki einasta varðandi Þýskaland, heldur varðandi skipan verkmenntunarmála víðs vegar í Vestur-Evrópu.

N. hóf störf sín 17. apríl 1973, og hefur til þessa haldið 16 fundi. Hins vegar hefur mikið starf einnig verið unnið utan funda og n. á eftir að vinna mikið úr þeim gögnum, sem fyrir hendi eru. Og í þeim tilgangi að leita eftir viðhorfi fulltrúa atvinnulífsins hér á landi gengust menntmrn. og iðnrn. að beiðni n. fyrir fundum um verkmenntunarmál dagana 16. og 23. jan. þ. á. Fundi þessa sátu um 40 manns.

Fyrir Alþ. liggur nú, eins og kunnugt er, frv. til l. um grunnskóla og skólakerfi, þar sem kveða á um hina almennu grundvallarmenntun landsmanna, og í framhaldi af þeirri löggjöf, sem samþykkt kann að verða, þarf að endurskoða allt framhalds- og sérskólakerfið, þ. á m. verk- og tæknimenntunina, sem nú þegar er unnið að.

Eitt af því, sem skiptir afar miklu máli í því sambandi, er, að verk- og tæknimenntun fari fram í samfelldu skólakerfi, þar sem menn geti stöðvast á ýmsum stigum með ýmiss konar starfsréttindi, en einnig haldið áfram til æðstu mennta á þessu sviði, ef hugurinn stefnir í þá átt. Á sviði verk- og tæknináms á ekki að vera nein lokuð leið fremur en á öðrum menntabrautum, og verknám þarf umfram allt að njóta sömu virðingar og bóknám.

Á þessu stigi er ekki unnt að segja um, hvenær vænta megi nýs frv. um verkmenntun, þ.e.a.s. endurskoðun á núgildandi iðnfræðslulöggjöf, frá n. En höfuðatriðið er, að mál þetta verði vandlega undirbúið og afgreitt í sambandi við þá þróun, sem hjá okkur er og þarf að verða í atvinnumálum, og í samræmi við hliðstæða þróun í nágranna-, viðskipta- og samkeppnislöndum. Ég hef mikinn áhuga á, að endurskoðun þessarar löggjafar verði hraðað sem mest, og veit, að n., sem vinnur að þessum málum, hefur það einnig, og frv. um þetta efni verður lagt fyrir Alþ. svo fljótt sem kostur er á.

Þá skal fjallað um tæknimenntunina.

Hinn 16. febr. 1973 skipaði menntmrn. n. til þess að endurskoða I. n. 66 1972 um Tækniskóla Íslands, sbr. einnig lög nr. 84 1970, um Háskóla Íslands, að því er varðar verkfræðinám. Var n. falið að semja frv. að nýjum lögum um verk- og tæknimenntun á háskólastigi og taka m.a. til athugunar í því sambandi, hvort ráðlegt sé, að stofnaður verði innan vébanda Háskóla Íslands sérstakur tækniháskóli, er taki við öllu tæknifræðinámi, sem nú fer fram í Tækniskóla Íslands, og verkfræðinámi í Háskóla Íslands. Enn fremur er n. ætlað að semja lagafrv. um tækniskóla, er veiti tæknimenntun á framhaldsskólastigi

Var n. falið að taka í störfum sínum mið af meginstefnu álitsgerðar verk- og tæknimenntunarnefndar um nýskipan verk- og tæknimenntunar á Íslandi, en nál. þetta er frá því í júní 1971. Enn fremur var þess beiðst, að n. semdi framkvæmdaáætlun, er fæli í sér mat á helstu kostnaðaráhrifum, er leiða mundu af framkvæmd frumvarpanna, ef að lögum yrðu. Loks var n. falið að rannsaka ítarlega, hvort tiltækilegt sé, að fyrrgreindar menntastofnanir, önnur hvor eða báðar, verði starfræktar á Akureyri, sbr. ákvæði til bráðabirgða í l. nr. 66 frá 1972, um Tækniskóla Íslands. Var n. beðin að hraða störfum eftir föngum og skila frv. fyrir árslok 1973.

Í n. voru skipaðir Sveinbjörn Björnsson eðlisfræðingur, formaður, Bjarni Kristjánsson, rektor Tækniskóla Íslands, Magnús Magnússon, forseti verkfræði- og raunvísindadeildar Háskóla Íslands, allir skipaðir án tilnefningar, og Jóhannes Zoega hitaveitustjóri, tilnefndur af Verkfræðingafélagi Íslands, og Jónas Guðlaugsson rafveitustjóri, tilnefndur af Tæknifræðingafélagi Íslands.

N. hóf þegar störf og hefur haldið 15 fundi. Stefna um menntun tækna er þegar mörkuð með nýrri reglugerð Tækniskólans, sem gefin var út í júní 1973, en þar er gert ráð fyrir, að nemendur með sveinspróf eða jafngilda þekkingu eigi kost á tveggja og hálfs árs tækninámi, þar sem fyrsta árið yrði almennt nám í undirbúningsdeild skólans, en síðari hluti námsins á kjörsviði nemenda í bygginga-, véla-, raf- og útgerðartækni. Nemendur, sem lokið hafa þessu námi eiga síðan kost á hálfs árs framhaldsnámi sem lýkur með raungreinadeildarprófi Tækniskólans og opnar leiðir til frekara náms í tæknifræði og verkfræði á háskólastigi.

Framtíð tæknifræðináms og verkfræðináms er hins vegar óljósari, og hafa störf nefndarinnar því einkum beinst að könnun á tilhögun þessa náms hér og í skyldum löndum og leit að leiðum til að fella nám í þessum greinum saman í einn skóla og nýta betur kennslukrafta, tæki og húsnæði án þess að rýra kosti þessara námsbrauta, sem báðar eru taldar nauðsynlegar með skyldum þjóðum og einnig fyrir íslenskt atvinnulíf.

Samkvæmt upplýsingum frá n. er hún nú að ganga frá till. sínum um framtíð tæknifræði- og verkfræðináms og mun leggja till. sínar um mörkun stefnu í þessum málum fyrir rn. Þegar þessar till. hafa borist og afstaða verið til þeirra tekin, mun n. ganga frá drögum að frv. á þeim grundvelli.

N. telur ekki gerlegt að flytja kennslu í tæknifræði og verkfræði frá Reykjavík vegna nauðsynlegra tengsla við aðra kennslu í Háskóla Íslands. Hins vegar telur hún ekkert vera því til fyrirstöðu, að komið yrði á fót kennslu í tæknagreinum á þeim stöðum, sem fyrir er kennsla i undirbúnings- og raungreinadeildum Tækniskólans.