12.02.1974
Sameinað þing: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

406. mál, kennsla í fjölmiðlun í Háskóla Íslands

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh, svar hans, en læt um leið í ljós óánægju mína með það, að málið skuli vera svo stutt á veg komið sem hann skýrði frá.

Mér er fullkomlega ljóst, að margt kallar að og áform eru um að taka upp kennslu í mörgum greinum við Háskóla Íslands. En ég lagði mis fram um að í fyrra og aftur í fáum orðum nú áðan að benda á, að þessi grein gæti verið tiltölulega auðveld í framkvæmd og kostaði tiltölulega lítið, en mundi jafnframt beina mörg hundruð stúdentsmenntuðum ungmennum inn á starfssvið, sem þegar er stórt og stækkandi. Ég efast ekki um að það sé rétt að taka þetta nám inn í háskólann. Það er ástæðulaust, að nám í fjölmiðlun gangi lengra en til BA-prófs, sem yrði þá líklega þriggja ára nám, þannig að þessi hópur þyrfti í raun og veru ekki að taka lengi rúm í háskólanum. Hins vegar þyrfti að sjálfsögðu að haga því námi svo, að vildu einhverjir halda áfram, þá gætu þeir flutt sig inn í aðrar greinar, t.d. á sviði íslenskrar sagnfræði eða öðrum, sem skyld eru.

Eitt meginatriðið, sem vakti fyrir mér með flutningi þessa máls, var einmitt að benda á leið, sem á þessum erfiðu tímum fyrir háskólann ætti að vera tiltölulega greið og gagnleg.

Ég vil að lokum þakka þann áhuga, sem ráðh. sjálfur sýndi málinu í orðum sínum, og vonast til þess, að hann ýti á eftir því, að þetta verði gaumgæfilega athugað.