12.02.1974
Sameinað þing: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2123 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

408. mál, innlendar fiskiskipasmíðar

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég beini hér með til ráðh., — að vísu iðnrh. fjarverandi, en sjútvrh. mun svara fyrir hann, —hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til þess, að íslenskar skipasmiðjur hagnýttu sér nýjungar færeyskra skipasmíða í fiskiskipasmíði. Ástæðan fyrir þessari fsp. er sú, að mér er kunnugt um, að haldið er áfram hérlendis raðsmíði á línu- og netabátum úr stáli samkv. gömlum og mjög svo úreltum teikningum þrátt fyrir byltingu, sem orðið hefur á smiði fiskiskipa hjá grönnum okkar í Færeyjum. Færeysku fiskiskipin af svo kallaðri LMTF-gerð hafa reynst afburðavel, skilað mjög góðum arði á línuveiðum og að því er virðist leyst vandkvæðin, sem hafa orðið á því í Færeyjum ekki síður en hér á landi að fá sjómenn á línuveiðara. Sjálfir segja Færeyingar með nokkru stolti, að þessum skipum geti nú að sjá fyrstu raunverulegu byltinguna í smíði fiskiskipa milli 100 og 204 rúmlesta í hálfa öld, og þeir mega vera stoltir af þessu, vegna þess að það voru ungir Færeyingar, sem teiknuðu þessi skip og smíðuðu þau skip af þessari gerð, sem eru komin í gagnið, en það eru skipin Stapin, Tomas, Nygaard og Sundaenni. Hér er um að ræða tvíþiljunga teiknaða sem línuveiðara, netaskip og skuttogara allt í senn. Vélareisnin með öllum sínum leiðslum hefur verið fjarlægð og leiðslunum komið fyrir úti við byrðing af mikilli hugvitssemi. Aftan stjórnpalls og mannaíbúða er yfir 100 fermetra vinnuþilfar undir þiljum, upphitað, þiljað með harðplasti .og vinnuaðstaða öll skipulögð til hins ítrasta. Skipstjórarnir á Tomas, Nygaard og Sundaenni fullyrða, að vinnuafköst sem tvöföld hjá áhöfnunum á við þau, sem gerast best á skipum með opnu þilfari, þar sem ekki er hægt að koma við skipulagi. Raunar er dekkið á Sundaenni, þar sem ungir menn eru í áhöfninni, stundum kallað „diskotekið“, og Tomas Nygaard, þar sem rosknari menn eru við störf, heitir dekkið „lagtingið“.

Árið 1964 efndi Erlendur Pétursson, sem þá var fjmrh. í „landstýrinu“ til samkeppni um hugmynd að besta útróðrarbátnum, eins og Færeyingar kalla þessa báta, þ.e.a.s. 50–60 lesta fiskibáta. Jon Smith vélstjóri og tveir félagar hans, sem höfðu m.a. unnið einar 4 eða 5 vertíðir á íslenskum fiskiskipum hér á landi, gerðu þá teikningu af skipi, sem þeir kölluðu síðar LMTF, sem er skammstöfun á „loysningur og margslags trupuleikar fiskimannsins“, og þeir fengu verðlaunin, þó að teikning þeirra væri af miklu stærra skipi en því, sem samkeppnin hljóðaði upp á. Nú vildu þeir ekki láta verðlaunateikninguna sína rykfalla uppi á hillum, heldur tóku sig til og smíðuðu skip eftir henni. Það var Stapin, fyrsta skipið, og reyndist afbragðsvel. Þegar Stapin hafði verið á veiðum í eitt ár, fengu þeir skipstjóra og áhöfn bátsins á hálfsmánaðar fund í Vestmanna, þar sem skipið var smíðað, þar sem þeir yfirheyrðu skipstjóra og áhöfn, fengu þá til að gagnrýna Stapan, teiknuðu síðan skipið upp á nýtt, smíðuðu eftir nýju teikningunni Tomas Nygaard fyrir Pétur Reinart héraðslækni á Eiði og félaga hans. Þriðja skipið, sem smíðað var til lausnar á erfiðleikum fiskimanna, var svo Sundaenni.

Öll hafa þessi færeysku fiskiskip reynst með fádæmum arðbær. Fyrir liggja hjá útgerðarmönnunum biðlistar ungra manna, sem vilja komast á þessi skip, þótt mjög erfiðlega gangi að manna opnu Iínuveiðarana.

Síðan Tomas Nygaard komst í gagnið fyrir senn tveimur árum, hafa 15 færeyskir útgerðarmenn sótt um ríkisábyrgð til þess að láta smiða báta samkv. þessari teikningu. Afli Tomasar Nygaard fyrsta árið var 1050 tonn á 300 úthaldsdögum, og varð meðalaflinn 5 tonn á úthaldsdag, frá því að lagt var úr höfn og þangað til komið var inn aftur, og siglingar á Grænlandsmíð og Íslandsmið reiknaðar með.