12.02.1974
Sameinað þing: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2124 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

408. mál, innlendar fiskiskipasmíðar

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Í fjarveru hæstv. iðnrh. mun ég leitast við að svara þessari fsp., þó að svar mitt verði að sjálfsögðu ekki eins ítarlegt og svar hans hefði eflaust orðið. En ég hef einnig í sjútvrn. fylgst nokkuð með þessu máli og því, sem hefur verið að gerast varðandi það í iðnrn. Það, sem fyrir liggur, er, að farið hefur fram talsverð athugun á þessum færeysku teikningum af fiskiskipi og iðnrh. rætt sérstaklega við fulltrúa frá Færeyjum um málið. Þá hefur verið haft samband við skipasmiðastöð hér innanlands, og hún hefur verið fengin til þess að gera tilboð í smiði samkv. þessari teikningu af meðalstórum fiskibát. Þessi tilboð liggja nú fyrir og eru til athugunar í rn. Er enginn vafi á því, að það væri mjög æskilegt, að hægt væri að smíða 2–3 báta í einu, ef ráðist verður í að reyna hér þessa bátagerð, því að hér er um nokkuð afbrigðilega smíði að ræða frá því, sem við höfum vanist.

Það er almennt álit eftir þá athugun, sem farið hefur fram, að hér sé um mjög athyglisverða breytingu á fiskiskipum að ræða, sérstaklega þó við tiltekið útgerðarform, þá sé hér um miklar framfarir að ræða frá því, sem verið hefur. Hins vegar er það þó álit ýmissa, að það muni þurfa að gera hér á einhverjar breytingar, miðað við íslenskar aðstæður og útgerðarform hér.

Það verður unnið áfram að því að koma af stað smiði samkv. þessum teikningum og reynt að koma sér í samband við innlenda kaupendur, sem vildu eignast skip af þessari gerð, og ég get fullyrt, að í iðnrn. og eins í sjútvrn. er fullur áhugi á því, að reynt verði að gera tilraun með þessa skipagerð einnig hér á landi. Það er enginn vafi á því, að sérstaklega þar sem er um að ræða línuútgerð og einkum og sérstaklega ef um er að ræða útilegurekstur fiskibáta af þessari gerð, þá er hér um að ræða mikla framför frá þeirri gerð báta, sem við höfum einkum búið við. En eins og kunnugt er, þá er útgerð, sem er að mestu leyti byggð á slíku, þ.e.a.s. á útilegu, ekki orðin mikil hér hjá okkur, og er því rétt að taka fyllilega tillit til þess, að þessir bátar kunna að henta betur í Færeyjum við þær aðstæður, sem þar eru, en þeir mundu gera hér.

En meginniðurstaðan af svari mínu er þessi: Það er unnið áfram að athugun þessa máls, og er stefnt að því, að hægt verði að ráðast í smíði helst 2–3 báta, ef samkomulag næst við kaupendur, sem áhuga hafa á þessari gerð báta, í sambandi við kaup á þessum skipum.