12.02.1974
Sameinað þing: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2125 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

408. mál, innlendar fiskiskipasmíðar

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svar hans. En ég vil vekja athygli á því, að það er haldið áfram að smiða línuveiðara hérlendis með gamla laginu. Ef við tökum líkingu af síðutogurunum, þá er tjáð hjá Fiskimálasjóði núna, að þótt ég legði fram það fé, sem kaupanda er ætlað, til að fá fiskiskip og sækti um lán út á síðutogara, þá yrði það ekki veitt, beinlínis vegna þess, að það er ekki hægt að fá menn til þess að vinna á þeim. Ég geri ráð fyrir, að það megi líkja þessum bátum við skuttogara hvað snertir yfirburði yfir opnu línuveiðarana. Samkv. upplýsingum Sverris Júlíussonar forstj. Fiskveiðasjóðs munu vera í smiðum 13 stálskip milli 100 og 200 lesta af þessum byggðaskipum, ef svo má kalla, og fyrir liggja umsóknir um 4 fiskiskip af þessari stærð til viðbótar, þótt ekki sé búið að ganga frá þeim málum. Mér er ekki ljóst, hversu langt er komið smíði fyrrnefndra 13 skipa, hvort unnt gæti verið að fá smíðinni breytt í nýtískulegra horf. En það eitt er víst, að þegar yfirbyggðu skipin af þessari færeysku gerð eru komin í not á miðunum hér heima, þá mun verða álíka erfitt að fá fólk til þess að vinna á skipunum, sem eru smiðuð samkv. gömlu teikningunum með opið vinnudekk, eins og nú er að fá fólk til starfa á síðutogurunum.

Ég legg áherslu á, að æskilegt væri, að tekið yrði til athugunar nú þegar, hvort ekki væri hægt að koma í veg fyrir, að smíðuð yrðu um sinn fleiri skip samkv. þessum gömlu teikningum, á meðan verið er að atbuga, hvort þessi gerð, sem hér um ræðir, hentar okkur.

Það skal tekið fram, að sú athugun, sem gerð hefur verið hjá þeirri skipasmíðastöð, sem ráðherra talaði um, bendir til þess, að þeir verði öllu ódýrari en bátar þeir, sem nú eru í smiðum eftir gömlu teikningunum hjá Slippstöðinni á Akureyri.