12.02.1974
Sameinað þing: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (1905)

411. mál, reglur við úthlutun viðbótarritlauna

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Svar mitt við fsp. hv. 2. þm. Norðurl. e. er svo látandi:

Reglur þær, sem farið var eftir við úthlutun viðbótarritlauna á s.l. ári, eru útgefnar og staðfestar af menntmrn. 23. okt. s.l., en þær eru samdar af sérstakri n., er rn. skipaði 16. jan. 1973 í samræmi við áðurnefnt fjárlagaákvæði og þál. frá 18. maí 1972. í n. þessari eiga sæti: Svava Jakobsdóttir frá Rithöfundasambandi Íslands, Einar Bragi frá Rithöfundafélagi Íslands, og dr. Gunnar Thoroddsen, tilnefndur af Félagi Ísl. rithöfunda, auk svo fulltrúa frá menntmrn. og fjmrn. Reglurnar hljóða svo:

„Reglur um viðbótarritlaun.

1. gr. Reglur þessar fjalla um úthlutun 12 millj: kr. fjárveitingar samkv. fjárl. fyrir árið 1973 til íslenskra rithöfunda og höfunda fræðirita.

2. gr. Úthlutun miðast við ritverk útgefið eða flutt opinberlega á árinu 1972, en ritverk frá árunum 1971 og 1970 kemur einnig til álita. Auglýst skal eftir upplýsingum frá höfundum um verk þeirra á þessu tímabili.

3. gr. Veiting til hvers höfundar nemi 250 þús. kr., en verði úthlutunarnefnd sammála um það, getur hún þó ákveðið fjárhæð þessa nokkru hærri eða lægri.

4. gr. Úthlutun annast þriggja manna nefnd skipuð af menntmrh., þannig: Einn maður tilnefndur af kennurum í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, og skal hann vera formaður n. Tveir menn utan Félags ísl. rithöfunda og Rithöfundafélags Íslands, tilnefndir af stjórnum félaganna. N. ljúki störfum fyrir 15. des. 1973.

5. gr. Reglur þessar eru settar samkv. heimild í þál. frá 18. maí 1972 og fjárl. fyrir árið 1973 og öðlast þegar gildi.“

Í tilefni af fsp. hv. þm. vil ég að öðru leyti leyfa mér að taka fram eftirfarandi:

1. Þess misskilnings virðist gæta hjá ýmsum, sem rætt hafa og ritað um þetta mál opinberlega, að þál. frá 18. maí 1972 fell í sér fyrirmæli um endurgreiðslu á söluskatti til rithöfunda og fræðimanna. Misskilningur þessi mun stafa af því, að hin upphaflega þáltill. um þetta efni gerði ráð fyrir slíkum endurgreiðslum. En eins og Alþ. samþykkti þál. í endanlegu formi, var horfið frá slíkri endurgreiðslu, og í stað þess er gert ráð fyrir að greiða rithöfundum og fræðimönnum, svo að vitnað sé í ályktunina, „fjárhæð, er nemi sem næst andvirði söluskatts af bókum“. Þessari fjárhæð verði síðan skipt, eins og ég hef áður gert grein fyrir, eftir reglum sömdum í samráði við Rithöfundasambandið og félög rithöfunda. Þál. víkur hvergi að endurgreiðslu á söluskatti og í fjárlagaákvæðinu er söluskattur hvergi nefndur. Af þessu leiðir, að rithöfundar og fræðimenn eiga ekki einstaklingsbundinn rétt til þess fjár, sem hér um ræðir, nema svo væri ákveðið í úthlutunarreglum.

2. Ég vil leggja sérstaka áherslu á, að rithöfundar og umboðsmenn þeirra hafa verið í meiri hl. í báðum þeim nefndum, sem um mál þetta hafa fjallað, og hef ég í einu og öllu farið eftir till. þeirra. Ég tel mjög mikilvægt, að rithöfundar sjálfir hafi þannig úrslitaáhrif á meðferð þessa máls, en geri mér þó fyllilega ljóst, að lausn þess getur aldrei orðið á þann veg, að ekki megi um deila.

3. Þá vil ég geta þess, að n. sú, er skipuð var til að semja úthlutunarreglur samkv. þál. frá 18. maí 1972, hefur samið frv. til l., er ég hyggst leggja fyrir Alþ. innan skamms. Með frv. eru tryggðar og lögfestar áframhaldandi greiðslur til rithöfunda í fjárl. með stofnun svonefnds Launasjóðs rithöfunda. Fjárveitingar þessar eru til frambúðar með öllu slitnar úr tengslum við söluskatt, þótt stofnfé sjóðsins sé miðað við áætlaðan söluskatt á bókum 1972. Um greiðslur úr sjóðnum fari eftir sérstökum reglum í reglugerð, en laganefndin vinnur jafnframt að því að semja slíkar reglur. Mér skilst, að það sé allflókið verk og vandasamt, ef litið er til þeirra mismunandi skoðana og viðhorfa, sem fram hafa komið um þetta efni. Þegar umrætt frv. kemur til umr., gefst hv. þm. tækifæri til að ræða þetta mál nánar.